Hoppa yfir valmynd
19. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 91/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 91/2022

Fimmtudaginn 19. maí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. desember 2021 og var umsóknin samþykkt 18. janúar 2022. Þann 22. desember 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi væri stödd erlendis og var hún í kjölfarið skráð í orlof frá 20. til 28. desember 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. janúar 2022, var kæranda veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum vegna dvalar erlendis. Skýringar og farseðlar bárust frá kæranda vegna dvalar erlendis á tímabilinu 12. til 28. desember 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með þeim degi í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Frekari skýringar bárust frá kæranda þann 7. febrúar 2022. Í kjölfar endurupptöku Vinnumálastofnunar á máli kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þann 10. febrúar 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 31. mars 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. apríl 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 12. apríl 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi með ákvörðun, dags. 31. janúar 2022, beitt hana viðurlögum vegna ótilkynntrar dvalar erlendis í desember 2021. Þetta hafi komið henni á óvart þar sem hún hafi talið sig hafa veitt allar nauðsynlegar upplýsingar þó að þær hafi verið veittar seinna en ætlast væri til. Kærandi hafi aldrei reynt að fá bætur sem hún eigi ekki rétt á. Hún hafi talið sig hafa veitt Vinnumálastofnun fullnægjandi upplýsingar, þrátt fyrir að sökum tæknilegra örðugleika hafi þær verið veittar munnlega í gegnum síma í staðinn fyrir á vefsíðu stofnunarinnar.

Eftir að hafa unnið á B hafi þurft að loka hótelinu fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 vegna endurbóta. Til hafi staðið að opna hótelið aftur í byrjun apríl 2022. Samningi kæranda hafi lokið í lok nóvember 2021 og því hafi hún verið látin fara. Kærandi hafi snemma í desember 2021 sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en hafi á þeim tíma ekki vitað hvort atvinnurekandi hennar hafi sent Vinnumálastofnun nauðsynleg gögn til afgreiðslu umsóknarinnar.

Kærandi hafi eytt jólunum með fjölskyldu sinni í C líkt og þau hafi gert síðustu ár. Þau hafi upphaflega ætlað að fara til D þann 14. desember 2021 en sökum breytinga á reglum þar vegna Covid-19 hafi þau þurft að fara þann 12. desember 2021. Umræddar breytingar á ferðatíma hafi haft í för með sér aukaálag sem hafi orsakað að ekki hafi náðst að láta vita af ferðinni á vef Vinnumálastofnunar. Við komuna til D hafi kærandi reynt að skrá sig inn á „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar til að skrá ferðir sínar og kanna stöðu umsóknarinnar en ítrekað hafi komið upp villa þegar hún hafi reynt að skrá sig inn. Auðkenni hafi staðfest að um tæknilega bilun væri að ræða. Í vikunni eftir hafi kærandi hringt nokkur símtöl í Auðkenni til að reyna að leysa vandamálið en engin lausn hafi fundist. Á þeim tíma hafi hún beðið sambýlismann sinn, sem sé íslenskur, að hringja í Vinnumálastofnun og skýra frá þessum vandræðum kæranda við innskráningu á „Mínar síður.“ Þau hafi spurt að því hvort hægt væri að skrá það að kærandi hafi sótt um starf áður en hún fór frá Íslandi og að hún væri erlendis en kæmi aftur til landsins þann 28. desember 2021. Fulltrúi Vinnumálastofnunar hafi í símtalinu staðfest að öll nauðsynleg gögn væru komin frá B og að kærandi gæti skráð atvinnuleit sína þegar hún kæmi aftur til Íslands.

Eftir komuna til Íslands hafi kærandi verið í vandræðum með að skrá atvinnuleit sína og hafi í kjölfar nokkurra misheppnaðra tilrauna til að hringja í Vinnumálastofnun sent stofnuninni tölvupóst til að spyrjast fyrir. Í kjölfarið hafi hún fengið svar frá Vinnumálastofnun þar sem atvinnuleit hafi verið staðfest, auk símtalsins frá 22. desember 2021. Ekki hafi verið minnst á ferð kæranda til D í póstinum og því hafi hún talið að allt væri á hreinu og nauðsynlegar upplýsingar hafi verið skráðar í símtalinu frá 22. desember.

Kærandi hafi fullan skilning á lögum um atvinnuleysistryggingar og að hún fái ekki bætur fyrir þann tíma sem hún sé erlendis. Hún hafi ekki verið að reyna að leyna ferð sinni til D heldur hafi hún talið munnlega staðfestingu nægja vegna aðstæðna. Hún vilji ítreka að hún hafi ekki búist við að fá greiddar bætur fyrir þann tíma sem hún hafi dvalið í D. Kærandi óski eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði verði endurskoðuð.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að upplýsingar um ferðatíma hennar hafi verið ranglega skráðar hjá Vinnumálastofnun og ekki í samræmi við það sem hún hafi tjáð stofnuninni. Fjölskyldan hafi farið til D þann 12. desember 2021 líkt og fram komi í framlögðum ferðagögnum. Þegar sambýlismaður kæranda hafi rætt við fulltrúa Vinnumálastofnunar í síma þann 22. desember 2021 hafi hann tjáð henni að fjölskyldan hafi komið til D í vikunni áður. Starfsmaðurinn hafi hins vegar ekki beðið um skriflega staðfestingu á slíku í símtalinu og það hljóti því að hafa orðið misskilningur þar sem upplýsingarnar hafi ekki verið rétt skráðar. Um leið og haft hafi verið samband við kæranda og hún beðin um ferðagögn hafi hún orðið við því. Hún hafi ekki verið að fela neitt.

Kærandi vilji ítreka það sem hún hafi áður sagt. Hún hafi ekki leynt ferðalagi sínu til D yfir jólin en vegna tæknilegra örðugleika hafi henni ekki tekist að skrá sig inn á vef Vinnumálastofnunar. Hún hafi ásamt sambýlismanni sínum eytt tíma í að reyna að finna lausnir á þessu en það hafi ekki gengið. Þessir örðugleikar séu vel þekktir meðal starfsfólks Auðkennis og ætti því að vera tekið almennilega á slíku, enda valdi það verulegum vandræðum að geta ekki notað kerfið erlendis.

Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun og útskýrt hvað hefði gerst. Hún hafi ekki viljað treysta á tæknina til að útskýra mál sitt á ensku í tölvupósti heldur hafi henni þótt mikilvægt að tala við einhvern í eigin persónu og hafi því beðið maka sinn um aðstoð við það. Þau hafi reynt nokkrum sinnum að ná sambandi við stofnunina en hafi þurft að bíða lengi og það sé dýrt þegar hringt sé erlendis frá. Þau hafi reynt að ná sambandi á hverjum degi þar til þau hafi loksins komist að.

Kærandi sé ósátt við að ætlast sé til þess að hún geri hlutina innan strangs tímaramma, annars sé henni refsað. Samkvæmt bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2022, hafi Vinnumálastofnun verið veittur 14 daga frestur til að skila greinargerð og gögnum vegna málsins. Það hafi því komið kæranda á óvart að svar Vinnumálastofnunar hafi borist tveimur vikum of seint. Vinnumálastofnun hafi gert kæranda að skila tilteknum gögnum fyrir ákveðinn tíma og hafi hún hlotið þunga refsingu fyrir að standa ekki við þau tímamörk. Hún vænti því þess að Vinnumálastofnun sýni gott fordæmi og fylgi sömu reglum. Hún vilji að erindi Vinnumálastofnunar,  dags. 31. mars 2022, verði virt að vettugi þar sem það hafi borist eftir tilskilinn frest.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 22. desember 2021 hafi Vinnumálastofnun borist símtal frá sambýlismanni kæranda þar sem upplýst hafi verið að kærandi væri stödd í D. Kærandi hafi í kjölfarið verið skráð í orlof frá 20. til 28. desember 2021 samkvæmt beiðni hennar. Með erindi, dags. 21. janúar 2022, hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda, svo sem skýringum og farseðlum vegna dvalar erlendis samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á hugsanlegum viðurlögum. Skýringar hafi borist frá kæranda samdægurs ásamt farseðlum. Þá hafi komið í ljós að kærandi hefði farið utan mun fyrr en 20. desember. Samkvæmt framlögðum ferðagögnum hafi kærandi verið erlendis frá 12. til 28. desember. Kærandi hafi greint frá því að vegna tæknilegra örðugleika við að staðfesta atvinnuleit í símanum og vegna skyndilegrar breytingar á ferðaáætlun sökum heimsfaraldurs hafi hún ekki getað tilkynnt strax um ferð sína erlendis. Hún hafi þá nýlokið við að senda inn umsókn sína um atvinnuleysisbætur og hafi enn verið að bíða eftir staðfestingu á starfstímabili frá atvinnurekanda. Sambýlismaður hennar hafi einnig rætt við fulltrúa Vinnumálastofnunar í síma sem hafi staðfest móttöku upplýsinganna. Kærandi hafi talið að allar nauðsynlegar upplýsingar væru komnar fram og að ekki væri þörf á að aðhafast frekar. Þann 31. janúar 2022 hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, þar sem hún hafi ekki upplýst stofnunina fyrir fram um dvöl sína erlendis.

Þann 7. febrúar 2022 hafi frekari skýringar og gögn borist frá kæranda þar sem hún hafi óskað eftir endurskoðun ákvörðunar. Þar hafi kærandi greint frá því að hafa sótt um atvinnuleysisbætur í byrjun desember 2021 við lok ráðningarsambands sem hafi komið til vegna ráðningarstyrks. Á þeim tíma hafi kærandi ekki verið viss um að fyrrum atvinnurekandi hefði skilað inn nauðsynlegum gögnum við úrvinnslu umsóknarinnar. Kærandi hafi þá skipulagt jólafrí með fjölskyldu sinni frá 14. desember til 28. desember 2021. Óvæntar breytingar hafi orðið vegna sóttvarnaráðstafana og því hafi þau þurft að fara úr landi þann 12. desember 2021. Þessi breyting hafi valdið streitu og því hafi hún ekki tilkynnt um brottför sína. Kærandi hafi þó við komuna til D reynt að skrá sig inn á „Mínar síður“ til að tilkynna um ferðir sínar ásamt því að kanna stöðu umsóknarinnar. Kærandi hafi fengið það staðfest frá Auðkenni að tæknibilun hafi valdið því að ekki hafi verið hægt að skrá sig inn á „Mínar síður.“ Hún hafi vikuna á eftir ítrekað reynt að hringja í Auðkenni en engin lausn hafi fundist á vandamálinu. Sambýlismaður kæranda hafi í framhaldinu haft samband við stofnunina fyrir hennar hönd til að útskýra stöðuna. Kærandi segi að það hafi aldrei verið ætlun sín að þiggja bætur samhliða dvöl erlendis, enda hafi hún ekki leynt för sinni. Hún hafi ekki búist við því að fá greitt fyrir þann tíma sem hún hafi dvalið erlendis.

Með tilliti til nýrra gagna hafi Vinnumálastofnun fjallað um mál kæranda að nýju. Með erindi, dags. 10. febrúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 31. janúar 2022, skyldi standa.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjenda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við botum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða. Þar segi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 12. til 28. desember 2021. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í skýringum sínum og kæru til úrskurðarnefndar greini kærandi frá því að vegna skyndilegra breytinga á ferðaáætlun hennar og vegna tæknilegra örðugleika hafi hún ekki tilkynnt fyrir fram um brottför sína. Hún hafi þó talið að tilkynning hennar í símtali við stofnunina þann 20. desember 2021 hafi verið fullnægjandi tilkynning.

Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, þar á meðal ferðir sínar utanlands, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Réttindi og skyldur atvinnuleitanda samkvæmt lögunum stofnist frá og með umsóknardegi, enda séu atvinnuleysisbætur greiddar frá þeim degi samkvæmt 29. gr. laganna. Atvinnuleitendum beri því að uppfylla allar skyldur sínar við Vinnumálastofnun á þeim tíma sem hann þiggi greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Breytingar á ferðaáætlun eða tæknilegir örðugleikar komi ekki í veg fyrir skyldur atvinnuleitenda til að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum sem áhrif kunni að hafa á rétt til atvinnuleysisbóta, svo sem dvöl erlendis. Þegar upplýst hafi verið um dvöl kæranda erlendis hafi verið liðnir sex dagar frá brottför og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki haft samband í tölvupósti. Vinnumálastofnun geti því ekki fallist á þá skýringu kæranda að hún hafi ekki getað tilkynnt fyrir fram um ferð sína erlendis.

Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þá bendi stofnunin á að kæranda hafi verið sendur tölvupóstur þann 10. desember 2021 þar sem hún hafi verið upplýst um að henni bæri að tilkynna til Vinnumálastofnunar allar breytingar sem yrðu á högum hennar og ef hún hefði í hug að fara til útlanda þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af farseðlum til Vinnumálastofnunar. Upplýsingar um tilkynningarskyldu atvinnuleitenda sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir allt framangreint hafi kærandi ekki upplýst Vinnumálastofnun um dvöl sína erlendis með fullnægjandi hætti. Kærandi hafi upplýst um lengd ferðar sinnar þegar stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum frá henni. Þá hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 12. til 20. desember 2022. Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í athugasemdum kæranda er farið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála virði að vettugi greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2022, þar sem hún hafi borist eftir tilskilinn frest. Á úrskurðarnefndinni hvílir skylda til að upplýsa mál áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því felst að afla afstöðu málsaðila og gefa þeim kost á að tjá sig um framkomin gögn. Vegna þessa verður greinargerð Vinnumálastofnunar ekki virt að vettugi, þrátt fyrir að hafa borist utan þess frests sem veittur var.  

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi.

Óumdeilt er að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu 12. til 28. desember 2021 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Af hálfu kæranda hefur komið fram að skyndileg breyting á ferðaáætlun hafi valdið því að hún tilkynnti ekki fyrir fram um brottför sína erlendis. Þá hefur kærandi einnig vísað til þess að sökum tæknilegra örðugleika hafi henni ekki tekist að tilkynna um ferðir sínar eftir komuna til D. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Þá þurfi umsækjendur að samþykkja að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi sín og skyldur.

Þann 10. desember 2021 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kæranda bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að henni bæri að tilkynna Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hún tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta