Hoppa yfir valmynd
8. maí 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 461/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 461/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24010019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. desember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 27. desember 2023, um frávísun frá Íslandi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi krafðist þess einnig að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað en féll frá þeirri kröfu í greinargerð, dags. 16. janúar 2024.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Amsterdam, Hollandi, 27. desember 2023. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum 27. desember 2023 var kæranda frávísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu viðbótarathugasemdir, þar sem fram kom að kærandi hefði ekki bókað hótelgistingu né hefði næga fjármuni til framfærslu á meðan dvöl stæði. Í rökstuðningi lögreglu til kærunefndar, dags. 12. janúar 2024, kemur fram að tollverðir hafi haft afskipti af kæranda vegna gruns um að hann hefði fíkniefni innvortis en fíkniefnastroka af höndum, fatnaði og farangri hafi gefið jákvæða niðurstöðu á [...] og kvaðst kærandi hafa neytt [...] nýlega. Lögregla hafi þá verið kölluð á vettvang og tekið í framhaldinu skýrslu af kæranda á Keflavíkurflugvelli. Í skýrslutöku kvaðst kærandi ekki þekkja neinn á Íslandi en hafi ætlað sér að vera hér á landi í sjö daga, til 2. janúar 2024, og gista á [...]. Kærandi kvaðst hafa [...] evrur meðferðis en sýndi aðspurður ekki fram á neina fjármuni líkt og greiðslukort eða reiðufé og var að öðru leyti ósáttur við afskipti lögreglu. Á meðan skýrslutöku stóð hafi ítrekað verið reynt að hringja í kæranda úr íslensku númeri sem væri í andstöðu við þá fullyrðingu kæranda að hann þekkti engan hér á landi. Við nánari leit kom í ljós að kærandi hafi haft a.m.k. þrjú íslensk farsímasímanúmer vistuð í símaskrá síma síns. Í samskiptum lögreglu við kæranda hafi hann lýst því yfir að hann vildi skoða eldgos en síðar breytt framburði sínum í að skoða fossa. Að mati lögreglu væri sú frásögn afar ósannfærandi þar sem kærandi hafi ekki getað greint frá öðrum fossum en Skógafossi auk þess sem kærandi væri illa búinn, með lítinn farangur og hafði engan útivistarfatnað meðferðis. Taldi lögregla því augljóst að kærandi væri ekki að segja satt og rétt frá tilgangi komu sinnar.

Kærandi hafi framvísað bókun frá gistiheimili á [...] en þegar lögregla hringdi í gistiheimilið staðfesti fulltrúi þess að kærandi ætti ekki bókaða gistingu þar. Við meðferð málsins komu einnig í ljós að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði haft afskipti af kæranda 18. mars 2023. Umrædd afskipti  hafi leitt til brottvísunar vegna ólögmætrar dvalar, sbr. ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. mars 2023, en endurkomubann hafi verið fellt niður þar sem kærandi yfirgaf landið sjálfviljugur 28. mars 2023, innan veitts frests. Því næst hafi kærandi komið til landsins 29. júní 2023, eða 92 dögum eftir að hann yfirgaf landið sjálfviljugur. Við komu til landsins hafi lögregla haft afskipti af honum. Í ljós kom að kærandi hafi ætlað sér að dvelja hér á landi til 8. júlí 2023 sem ferðamaður og sýndi hann lögreglu farmiða til Parísar, dags. 8. júlí 2023. Kærandi hafi ekki farið af landi brott fyrr en 24. september 2023. Við komu til landsins að nýju 27. desember 2023 voru liðnir 95 dagar frá síðustu brottför hans frá Íslandi. Taldi lögregla augljóst, með vísan til fyrri afskipta af kæranda,að hann hafi sagt lögreglu ósatt þegar dvöl í örfáa daga hafi breyst í 88 daga dvöl.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda, heildstæðs mats lögreglu og málsatvika að öðru leyti var tekin ákvörðun um að frávísa kæranda á grundvelli c-, og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki viljað kaupa sjálfur farmiða frá landinu og leitaði lögreglan á Suðurnesjum því aðstoðar stoðdeildar Ríkislögreglustjóra við kaup á farmiðum. Kærandi hafi neitað að undirrita skuldaviðurkenningu fyrir farmiðakaupunum auk þess sem hann hafi neitað að fara um borð í vélina. Kærandi hafi í kjölfarið verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald 29. desember 2023 til 12. janúar 2024. Fljótlega eftir uppkvaðningu úrskurðar um gæsluvarðhald hafi kærandi óskað eftir sjálfviljugri heimför, með atbeina lögmanns, sem lögregla hafi fallist á. Kærandi hafi síðan yfirgefið landið 30. desember 2023, til Amsterdam, Hollandi. 

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun til kærunefndar útlendingamála 29. desember 2023. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 16. janúar 2024. Eftirfarandi rökstuðningur lögreglustjórans á Suðurnesjum barst kærunefnd 15. janúar 2024 og var sendur kæranda til andmæla 15. apríl 2024. Ekki bárust andmæli kæranda við rökstuðningi lögreglu.

Með tölvubréfi, dags. 9. apríl 2024, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá [...], hvar kærandi kvaðst hafa bókað sér gistingu. Fram kom í svörum gistiheimilisins, dags. 9. apríl 2024, að kærandi hafi átt bókaða gistingu frá 27. desember 2023 til 2. janúar 2024. Bókunin hafi ekki verið greidd en kæranda hafi borið að greiða á staðnum. Bókunin hafi loks verið merkt sem „No show“ 29. desember 2023 þar sem kærandi hefði ekki komið.

III.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi viljað njóta landsins yfir áramótin. Hann hafi komið til landsins 27. desember 2023 og átt bókaðan farmiða úr landi 2. janúar 2024 og hafi þar á milli átt bókaða gistingu á gistiheimili. Kærandi hafi haft í hyggju að heimsækja ferðamannastaði á borð við Gullna hringinn ásamt því að vilja skoða fossa á suðurlandi. Kæranda hafi verið meinuð innganga í landið og hafi hann óskað aðstoðar lögmanns til þess að fá ákvörðunina endurskoðaða af lögreglu þar sem kærandi taldi hana efnislega ranga. Lögmaður kæranda hafi lagt fram viðbótarupplýsingar og gögn til lögreglu og forsendur hinnar kærðu ákvörðunar því brostið. Að sögn kæranda hafi lögregla bætt gráu ofan á svart með því að gera honum að sæta gæsluvarðhaldi, án þess að vera grunaður um brot sem varðar fangelsisrefsingu. Hafi kæranda brugðið við þann gerning og því ákveðið að fara sjálfviljugur heim.

Samkvæmt ákvörðuninni hafi kærandi ekki sýnt fram á bókun á hótelgistingu né að hann hafi næga fjármuni til þess að framfleyta sér á tímabilinu. Kærandi er ósammála þessu og kveðst hafa verið með [...] evrur í reiðufé og [...] evrur á greiðslukorti sem skráð væri á hann. Þá hafi lögmaður kæranda sent lögreglu frekari gögn, m.a. hótelbókun og flugmiða, sama dag og ákvörðun var tekin um frávísun, og krafðist lögmaðurinn þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi þar sem hún væri bersýnilega röng. Hvað gistinguna varðar vísar kærandi til þess að hafa átt bókaða gistingu á [...], sem hann hafi greitt með kreditkorti. Hafi framfærslueyrir kæranda því nægt til þess að framfleyta barnlausum einstaklingi í mánuð, samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanni skuldara. Að sögn kæranda séu upplýsingar um dvöl og tilgang kæranda réttar, eins og framlögð gögn geti staðfest. Leiði það til þess að ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að meina kæranda um inngöngu í landið sé röng.

Framangreindu til viðbótar telur kærandi að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið tekin í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu, andmælarétt, lögmætisreglu, og meðalhófsreglu, m.t.t. meginreglunnar um réttmætar væntingar. Kærandi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að hin kærða ákvörðun hafi grundvallast á ómálefnalegum sjónarmiðum. Hvað rannsóknarreglu varðar vísar kærandi til þess að lögð hafi verið fram gögn sem lögregla hefði getað staðreynt en kosið að gera það ekki. Í því samhengi vísar kærandi einkum til gistingar kæranda og flugmiða sem staðfesti heimferð hans. Enn fremur væri efnislegt mat lögreglunnar á eiginfjárstöðu kæranda röng. Kærandi vísar til 2. og 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri og kveðst uppfylla öll efnisleg skilyrði sem þar komi fram. Lögreglu hafi verið í lófa lagið að rannsaka betur fjármagn kæranda og bókaða gistingu hans. Telur kærandi að lögregla hafi brotið gegn andmælarétti sínum, með því að skrá ekki skilmerkilega munnleg andmæli auk þess sem að gætt skuli að rétti viðkomandi til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið og tjáð sig á. Ákvörðun lögreglu hafi þvert á móti verið tekin hratt og hefði fullnægjandi andmælaréttur getað komið í veg fyrir réttarspjöll sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir. Andmæli sem lögmaður kæranda lagði fram hafi ekki breytt afstöðu lögreglu, þrátt fyrir að tilefni væri til þess.

Aukinheldur byggir kærandi á því að ákvörðunin hafi brotið gegn réttmætisreglunni, þar sem sjónarmið lögreglu hafi verið ómálefnaleg og röng. Þá hafi lögregla brotið gegn meðalhófsreglunni, þar sem unnt hefði verið að beita tilkynningarskyldu á meðan lögreglu gæfist svigrúm til þess að fara yfir andmæli kæranda, sem væri mun vægara úrræði en að frávísa kæranda.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á c- og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Samkvæmt ákvæðinu er m.a. heimilt að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu þegar hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni, sbr. c-lið ákvæðisins, og þegar hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. d-lið ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði c-liðar mæli fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn sé upp fyrir dvölinni. Sé ákvæðið efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Þá er í greinargerðinni vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins samkvæmt a-j-liðum 1. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Með reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri voru innleidd ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/399 um setningu sambandsreglna um för fólks yfir landamæri (e. Schengen borders code) og tók reglugerðin við af áðurnefndri reglugerð nr. 562/2006. Í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 er mælt fyrir um skilyrði fyrir komu útlendinga til landsins sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar. Kemur þar fram að útlendingur sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verði, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. laga um útlendinga, að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í a-e-liðum ákvæðisins. Eru skilyrðin eftirfarandi: Að framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag, sbr. a-lið. Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. b-lið. Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins, sbr. c-lið. Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis, sbr. d-lið. Loks þarf viðkomandi að geta fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar, og hafa nægt fé sér til framfærslu, á meðan dvöl stendur og vegna ferðar til upprunalands eða gegnumferðar til þriðja lands, eða vera í aðstöðu til að útvega sér slíkt fé á lögmætan hátt, sbr. e-lið. Við mat á því hvort útlendingur samkvæmt 1. mgr. teljist hafa nægileg fjárráð til dvalar hér á landi skuli meðal annars tekið mið af lengd og tilgangi dvalar og mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem hann sé handhafi af.

Til sönnunar á að framangreindum skilyrðum 5. gr. reglugerðarinnar fyrir komu sé fullnægt sé landamæraverði m.a. heimilt að krefja útlending samkvæmt 1. mgr. um eftirfarandi gögn vegna ferðalaga af persónulegum ástæðum: Gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði, t.d. boðsbréf frá gestgjafa eða önnur gögn sem sýna fram á hvar viðkomandi hyggst búa, gögn sem staðfesta ferðaáætlun, staðfesting bókunar á skipulagðri ferð eða önnur gögn sem varpa ljósi á fyrirhugaða ferðaáætlun og gögn varðandi heimferð, s.s. farmiða.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Kærandi er ríkisborgari Albaníu og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi, sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum.

Við mat á því hvort skilyrðum c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga sé fullnægt er líkt og áður greinir unnt að líta til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, með síðari breytingum, en ákvæðið mælir fyrir um ákveðin hlutlæg skilyrði sem lögreglu er heimilt að krefja þriðja ríkis borgara um á landamærunum. Fyrir liggur að kærandi sem ríkisborgari Albaníu má dvelja hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Kæranda var brottvísað frá Íslandi með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. mars 2023, og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu yfirgaf hann landið 28. mars 2023, innan þess frests sem honum var veittur í ákvörðuninni og hlaut þ.a.l. ekki endurkomubann til landsins. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hefur kærandi komið aftur til landsins tvívegis, fyrst 29. júní 2023, og síðar 27. desember 2023, en í síðara skiptið hafi kæranda verið vísað frá landi. Bera gögn málsins ekki annað með sér en að kærandi hafi gætt að heimild sinni til dvalar vegna komu í júní 2023.

Hinn 27. desember 2023 greindi kærandi lögreglu frá því að ætla dvelja hér á landi í sjö daga, hann hafi ætlað að heimsækja vinsæla ferðamannastaði og njóta lífsins gæða yfir áramótin. Þá hafi kærandi lagt fram gistibókun fyrir [...] og ætti flugmiða til baka frá Íslandi 2. janúar 2024. Í hinni kærðu ákvörðun vísar lögregla til þess að kærandi hafi ekki átt bókaða gistingu á umræddu gistiheimili. Kærunefnd lítur til 10. og 13. gr. laga um útlendinga hvað þennan þátt málsins varðar en fyrir liggur að kærandi gat komið athugasemdum um gistingu sína á framfæri sem lögregla hafi rannsakað. Þrátt fyrir framangreint hefur kærunefnd nú gengið úr skugga um að kærandi hafi sannanlega bókað gistingu á umræddu gistiheimili, sem honum hafi borið að greiða á staðnum. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að gisting hans hafi þegar verið greidd með kreditkorti. Þá lítur kærunefnd einnig til misræmis í frásögn kæranda um tilgang ferðar hans, svo sem varðandi eldgos og fossa. Enn fremur lítur kærunefnd til þess að fyrirætlanir kæranda um útivist í desember og janúar á Íslandi geri tilteknar kröfur til búnaðar, svo sem hlífðarfatnaðar og samgöngumáta. Ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýndu fram á samgöngur innanlands, svo sem skipulagðar ferðir eða leigu á bílaleigubifreið. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að kærandi hafi ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn hafi verið upp fyrir dvölinni. Verður ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga því staðfest.

Hvað varðar frávísun kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga kemur fram í framburðarskýrslu að kærandi hafi kvaðst vera með [...] evrur meðferðis þegar hann var stöðvaður af lögreglunni við komuna til landsins. Á kærustigi hefur kærandi lagt fram skjáskot af stafrænu greiðslukorti með um [...] evru inneign en skjáskotið tilgreinir hvorki dagsetningu né tíma. Af framburðarskýrslum og fylgigögnum málsins má ráða að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn hjá lögreglu til þess að sýna fram á fjármuni sína, heldur hafi verið um að ræða einhliða fullyrðingar af hans hálfu. Af 106. gr. laga um útlendinga leiðir að ákvarðanir um frávísun verða að byggja á haldbærum forsendum sem liggja fyrir við töku stjórnvaldsákvarðana. Af 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri má jafnframt leiða að forsendur fyrir því að útlendingum sé heimiluð landganga séu byggðar á gögnum og upplýsingum sem þeir leggja sjálfir fram. Af því leiðir að málsástæður og fylgigögn, sem lögð eru fram á síðari stigum málsmeðferðar, hafa takmarkaða þýðingu ein og sér nema að þau geti sýnt fram á stöðu málsaðila þegar ákvörðun um frávísun var tekin. Af upplýsingaskýrslu vegna annars stigs skoðunar, sem fram fór 27. desember 2023, er ljóst að útskýrt var fyrir kæranda að hann þyrfti að sýna fram á tilgang dvalar og fjármagn. Kærandi hafi ekki viljað sýna fram á gögn sem rökstutt gátu dvöl sína, m.a. umrætt fjármagn. Framlögð gögn á síðari stigum hafa ekki bætt úr þeim annmarka.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun, fylgigögn málsins og málsmeðferð lögreglu að öðru leyti og telur ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð lögreglu í máli kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum