Aðalfundur Læknafélags Íslands 2007
Guðlaugur Þór Þórðarson
Aðalfundur Læknafélags Íslands 2007
28. september 2007
Ágætu fundarmenn
Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa þennan aðalfund Læknafélags Íslands og eiga þannig þess kost að tala við ykkur milliliðalaust.
Þar sem heilbrigðisþjónustan er annars vegar má segja að við stöndum að mörgu leyti á tímamótum.
Fulltrúi stærsta stjórnmálaflokksins gegnir nú embætti heilbrigðismálaráðherra, en um tveir áratugir eru frá því sjálfstæðismaður sat síðast í þeim stól.
Í öðru lagi hefur verið sett ný heildarlöggjöf um heilbrigðisþjónustuna og í þriðja lagi er fjallað óvenju nákvæmlega um nauðsyn þess að gera breytingar í heilbrigðisþjónustunni í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Í þessum efnum eru áherslur flokkanna þær sömu.
Útgangspunktur okkar er að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Þetta er háleitt markmið. Mér er það mæta vel ljóst, en ég veit líka að setji menn sér ekki skýr og háleit markmið og stefni ekki að þeim ótrauðir þá hafna menn í hrærigraut meðalmennskunnar.
Hér hefur á undanförnum áratugum verið byggð upp heilbrigðisþjónusta sem við getum verið stolt af og stenst samanburð við það besta í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, en ég tel við getum gert enn betur.
Það er mín skoðun og það er skoðun ríkisstjórnarinnar að eitt af lykilatriðunum í því að bæta þjónustuna sé að taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjárframlag fylgi sjúklingum. Þannig verði tryggt að heilbrigðisstofnanir fái fé í samræmi við þörf og fjölda verkanna sem unnin eru. Í þessu sambandi er afar brýnt að leggja frekari áherslu á að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna því greining af því tagi er í raun undirstaða blandaðrar fjármögnunar sem hér er talað um. Það er gleðiefni að heyra frá stjórnendum LSH að þeir séu nú tilbúnir til að taka næstu skref í þessum efnum.
Það er líka stefna ríkisstjórnarinnar að í heilbrigðisþjónustunni verði skapað svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma, meðal annars með útboðum og þjónustusamningum. Að sjálfsögðu með það að leiðarljósi að efnahagur fólks komi ekki í veg fyrir að það geti nýtt þjónustuna.
Við stefnum að því að bæta hag og heilsu allra Íslendinga en höfum jafnframt ákveðið að setja tvo hópa í forgang; annars vegar börn og ungmenni, hins vegar eldri borgara.
Á stundum ber umræðan um heilbrigðismál og heilbrigðiskerfið keim af neikvæðni og gagnrýni. Þannig er það víða um lönd en yfirgnæfandi hluti þeirra sem þurfa að reiða sig á heilbrigðisþjónustuna veit að íslenska heilbrigðisþjónustan er traust. Þetta má ekki síst rekja til þess að þar starfar einstaklega hæft fólk sem leggur líf sitt og sál í að veita umönnun og bót meina.
Þegar heilsubrestur knýr dyra eða við verðum fyrir slysi kemur í ljós að líf og heilsa er það sem skiptir einstaklinginn mestu máli. Það sem mölur og ryð fá grandað skiptir þá litlu máli. Þetta endurspeglast í því að mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar er viðurkennt, ekki síst í forgangsröðun stjórnvalda, því til einskis annars málaflokks er varið meiri fjármunum en til heilbrigðismála.
Miklu máli skiptir að því fé sé varið með þeim hætti að það nýtist sem best til að ná þeim markmiðum sem við stefnum að.
Við eigum það til að skilgreina heilbrigðismál út frá forsendum heilsubrests og umræða um heilbrigðisþjónustu snýst oftast um það hvernig best sé að bregðast við því sem afvega fer.
Ég tel mikilvægt að við nálgumst heilbrigðisþjónustu ekki síður út frá forsendum heilbrigðis. Markmið okkar hlýtur að vera að auka heilbrigði þjóðarinnar og draga úr líkum á vanheilsu og sjúkdómum. Við lifum í breyttum heimi og stöndum frammi fyrir vandamálum og verkefnum sem ekki voru til staðar fyrir örfáum árum. Ég nefni hreyfingarleysi barna og ungmenna og offitu einstaklinga á öllum aldri. Þetta eru velmegunarvandamál og jafnframt eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál samtímans. Vandamál sem við getum ekki leyst nema með öflugri forvarnastefnu og starfi á því sviði, með því að skapa fólki aðstæður og hvetja þá til að bera ábyrgð á eigin heilsu.
Ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á forvarnir á öllum sviðum. Þetta markmið setjum við okkur til að stuðla að heilbrigðari lífsháttum þjóðarinnar, til að bæta hag og heilsu fólks. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og þetta gerist ekki þótt ríkisstjórn, ráðherra, eða sérfræðingar á hans vegum óski þess.
Til að ná árangri þarf samvinnu og frumkvæði á sviði forvarna og það stendur upp á heilbrigðisyfirvöld í breiðum skilningi að laða menn til samstarfs á þessum sviði. Hér eru læknar og samtök lækna í lykilhlutverki og nægir í því sambandi að vitna til frumkvæðisins sem læknar tóku á sínum tíma í baráttunni gegn reykingum sem eftir var tekið og skilaði umtalsverðum árangri.
Læknar eiga oftast traust skjólstæðinga sinna og geta þar af leiðandi haft mikil áhrif til að opna augu manna fyrir því, að þótt breyttir lífshættir skili sér hægt, þá verða áhrifin varanleg, bæði fyrir samfélagið og borgarana, ef okkur tekst að ná árangri á fornvarnasviðinu.
Við verðum að opna augu fólks fyrir því, að öflugt samfélag byggir á góðu heilsufari og góðri líðan sem flestra. Með hreyfingu, með útvist, hollu mataræði, íþróttum, - með fjölmörgum þáttum sem gera okkur kleift að axla ábyrgð á eigin heilsu.
Ágætu fundarmenn
Í byrjun mánaðar tóku gildi ný heilbrigðisþjónustulög eins og ég gat um hér fyrr.
Meginmarkmið þeirra er í fyrsta lagi að mæla með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis.
Í öðru lagi að setja ráðherra og öðrum heilbrigðisyfirvöldum og einstökum heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu skýran lagaramma til að starfa eftir.
Í þriðja lagi að tryggja virkt eftirlit með heilbrigðisþjónustu og gæðum hennar og í fjórða lagi að skilgreina nánar stefnumótunarhlutverk ráðherra innan marka laganna og tryggja að hann hafi á hverjum tíma fullnægjandi valdheimildir til að framfylgja stefnu sinni, m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hvar hún skuli veitt og af hverjum.
Lögin byggja á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eigi jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu. Lögð er áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.
Fyrir utan þau nýmæli sem felast í heilbrigðisþjónustulögunum, sem tóku gildi 1. september að skipta landinu upp í heilbrigðisumdæmi þar sem ábyrgðin á almennri heilbrigðisþjónustu er lögð á stofnun eða stofnanir eru nokkur atriði í nýju lagasetningunni sem ég myndi vilja hnykkja enn frekar á.
Í fyrsta lagi er stefnumótunarhlutverk ráðherra styrkt verulega og ráðherra búin tæki til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd.
Í öðru lagi eru heimildir ráðherra til að bjóða út rekstur og kaup á heilbrigðisþjónustu skýrðar mjög en ég held að flestum sem settu sig inn í þau mál hafi þótt skorta verulega þar á.
Það er í þessu samhengi sem ber að skilja það sem sagt var hér að framan um að taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjárframlag fylgi sjúklingum.
Á sama hátt ber að skilja þann vilja ríkisstjórnarflokkanna að skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma, meðal annars með útboðum og þjónustusamningum.
Eins og öllum sem hér eru er ljóst flytjast lífeyristryggingar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins um áramótin samkvæmt ákvörðun Alþingis. Þetta þýðir vitaskuld að óhjákvæmilegar breytingar verða á starfsemi Tryggingastofnunar sem verið er að vinna að í samstarfi ráðuneytanna.
Ekkert hefur enn verið ákveðið í þessum efnum, en við göngum að sjálfsögðu út frá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, um vilja til að skapa svigrúm fyrir fjölbreyttari rekstrarform með útboðum og samningum, af hálfu heilbrigðismálaráðuneytisins. Annað viðamikið markmið breytinganna lýtur að þeim sem nota þjónustuna, en markmiðið er að einfalda kerfið í þágu þeirra.
Unnið er að þessum breytingum sem sennilega eru þær mestu sem gerðar hafa verið á velferðarkerfinu í langan tíma.
Nýju heilbrigðisþjónustulögin verða ekki skilin nema í tengslum við annan lagabálk sem samþykktur var samtímis heildarlögunum en það eru lögin um landlækni.
Í þessum lögum er líka lagður grunnurinn að bættri þjónustu við þá sem leita til heilbrigðisþjónustunnar.
Hér er verið að skýra stöðu landlæknisembættisins og hlutverk sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar undir yfirstjórn ráðuneytisins.
Í þessum lögum er sömuleiðis verið að hnykkja á skyldu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu til að skrá óvænt atvik sem verða þegar þjónustan er veitt og um tilkynningaskyldu til landlæknis þegar alvarleg atvik verða.
Tengt þessu eru svo ákvæði um heimildir almennings til að beina kvörtunum til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er, en þessar heimildir eru útfærðar og styrktar.
Faglegar kröfur byggjast á því að við getum metið bæði gæði og magn þeirrar þjónustu sem veitt er.
Rafræn upplýsingasöfnun og aðgengi að upplýsingunum er eitt af þeim lykilatriðum sem við munum leggja afar þunga áherslu á næstu árin.
Það má halda því fram með gildum rökum að á þessu sviði höfum við dregist aftur úr öðrum þjóðum eftir að hafa staðið jafnfætis þeim eða framar fyrir áratug eða svo.
Upplýsingasöfnun og aðgengi að upplýsingum eru bráðnauðsynlegar fyrir fagfólkið sem sinnir sjúklingum.
Einungis með traustum upplýsingum og greiðu aðgengi að þeim, er sjúklingum tryggð besta þjónustan.
Þá er þetta lykilatriði fyrir heilbrigðisyfirvöld til að menn geti tekið upplýstar ákvarðanir, og reitt sig á staðreyndir en ekki aðeins á eigin tilfinningar eða annarra.
Það er í þessu ljósi sem ég legg ríka áherslu á að uppbyggingu rafrænna samskipta verði hraðað í heilbrigðisþjónustunni og að tryggt verði að þær lausnir, þau upplýsingakerfi sem byggð hafa verið upp eða byggð verða geti talað saman. Með öðrum orðum: að þeir sem þurfa á upplýsingum um sjúklinginn að halda og hafa rétt til þess geti nálgast þær hvar og hvenær sem er.
Fjárfesting í þessu umhverfi ykkar er að mínu áliti mikilvægari eða að minnsta kosti jafn mikilvæg og fjárfesting í öðrum tækjum og búnaði í heilbrigðisþjónustunni. Ef við höfum ekki skilning á þessu er hætt við að við drögumst ekki bara aftur úr á sviði upplýsingatækninnar á heilbrigðissviði. Það er veruleg hætta á að sú staða hefði áhrif á þróun og árangur okkar á sviði læknisfræðinnar.
Eitt finnst mér oft gleymast í umræðum um heilbrigðisþjónustuna en það er sá mikli og merkilegi hlutur sem læknavísindin hér á landi leggja til vísindarannsókna. Allt að 25 til 30% svokallaðra ISI greina sem birtast af hálfu Íslands eru ritaðar af starfsmönnum Landspítalans - sem margir hverjir njóta hylli á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt.
Gróska í vísindastarfi er skýrt dæmi um metnað lækna. Þessari grósku þurfa yfirvöld að hlúa að.
Ein leið sem þegar hefur verið farin til þess að ná því markmiði er skipun nefndar, á vegu mennta-, heilbrigðis- og iðnaðarráðuneytisins með þátttöku fulltrúa atvinnulífsins og Landspítalans sem hefur það hlutverk að finna leiðir til að fjölga styrkveitingum til rannsókna í heilbrigðisvísindum sem aftur gæti leitt til almennrar nýsköpunar á þessu sviði og orðið grundvöllur uppbyggingar öflugs heilbrigðistæknivettvangs og útrásar íslenskrar þekkingar á heilbrigðissviði.
Ágætu fundarmenn
Það hefur ekki farið framhjá ykkur sem hér eruð að ég hef lagt mikla áherslu á að finna leiðir til að ná niður verðlagi á lyfjum.
Lyfjaverð hér á landi er of hátt og það verður að lækka. Það er ekkert flóknara. Það er of hátt fyrir einstaklingana sem greiða lyfin, það er of hátt í rekstri Tryggingastofnunar og það er of hátt fyrir skattgreiðendur.
Það gengur ekki að meðallyfjakostnaður á íbúa hér sé 100 og upp í 200 evrum hærri á ári en það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
Þessu verður að breyta.
Á þessu sviði og mörgum öðrum óska ég eftir uppbyggilegu samstarfi við samtök ykkar. Markmið ríkisstjórnarinnar um að hér sé rekin heilbrigðisþjónusta á heimsvísu getur ráðist af því hvernig okkur gengur að vinna saman.
Við skulum aldrei veigra okkur við að taka gagnrýna umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Við verðum þó á sama tíma að hafa í huga að það erum við sem erum forystumenn þessarar þjónustu. Fólk treystir læknum. Það er afar mikilvægt. En því fylgir líka mikil ábyrgð. Við erum í samkeppni við ýmsa aðila. Við erum í samkeppni um ungt fólk. Við erum í samkeppni um fjármagn - ekki eingöngu opinbert fjármagn. Og eins og staðan er í dag sér ungt fólk mestu tækifærin í banka- og fjármálastarfsemi. Það er skiljanlegt þar sem þau fyrirtæki hafa staðið sig frábærlega bæði hér heima og erlendis. Þau hafa ekki síst staðið sig vel í að skapa sér jákvæða ímynd.
Mannauðurinn í íslenskri heilbrigðisþjónustu er helsti styrkur hennar og hann er óumdeilanlega á heimsmælikvarða. Okkar fólk hefur sótt sér menntun við fremstu menntastofnanir heims. Það er mikilvægt að við ræktum þennan mannauð og sköpum þessu hæfa fólki skilyrði til að blómstra. Við viljum að ungt, metnaðarfullt fólk líti til heilbrigðisgeirans og hugsi: Þarna er sóknarfæri fyrir mig.
Talað orð gildir ...