Drög að breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar
Til kynningar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja. Þeir sem óska geta sent ráðuneytinu umsagnir á netfangið [email protected] til og með 21. október næstkomandi.
Breytingin felst annars vegar í lagfæringu á innleiðingu tilskipunar 2000/30/EC vegna athugasemda frá ESA. Hins vegar eru um leið gerðar nokkrar aðrar breytingar sem nauðsynlegar eru.
Meginbreytingar eru þær að vegaskoðanir á ökutækjum verða á hendi lögreglu og Samgöngustofu, eftiratvikum í samvinnu við skoðunarstofu. Við vegaskoðun mun skoðunaraðili fylla út vegaskoðunarvottorð og afhenda það svo ökumanni viðkomandi ökutækis að skoðun lokinni. Lögreglu eru jafnframt veittar heimildir til að færa ökutækin til frekari skoðunar eða banna notkun þess, gefi niðurstöður vegaskoðunar tilefni til, í samræmi við ákvæði umferðarlaga.