Niðurstöður innlausnarmarkaðar fyrir greiðslumark sauðfjár
Innlausnarmarkaður ársins 2023 með greiðslumark í sauðfé var haldinn þann 15.nóvember. Matvælaráðuneytinu bárust 136 umsóknir um kaup og 29 umsóknir um sölu.
Tilboð voru send með rafrænum hætti í gegnum Afurð sem er greiðslukerfi landbúnaðarins og liggur niðurstaða markaðarins nú fyrir.
Innlausnarverð ársins jafngildir beingreiðslum næstu tveggja ára og er 10.531,- kr. á ærgildi. Sama verð gildir fyrir kaup og sölu.
Alls var óskað eftir 35.638 ærgildum til kaups. Til ráðstöfunar voru 3.557 ærgildi eða 10% af kaupóskum. Úthlutað var samkvæmt forgangsreglum reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt nr 144/2022. Af 136 umsækjendum alls töldust 106 til forgangshóps og 30 til almenns hóps. Allt það greiðslumark sem var til ráðstöfunar rann til forgangshóps.
Sala greiðslumarks fer nú fram samkvæmt úthlutun. Matvælaráðuneytið mun senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast í Afurð.