Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 380/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 380/2018

Miðvikudaginn 30. janúar 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 26. október 2018, kærði B, f.h. [...] sonar síns A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 3. október 2018 á umsókn um þátttöku í kostnaði vegna tannréttinga kæranda á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. september 2016, var sótt um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði vegna tannréttinga kæranda á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 10. október 2016, var umsókninni synjað. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði 10. janúar 2018 í máli nr. 475/2016.

Með umsókn, dags. 17. september 2018, sótti kærandi aftur um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði vegna tannréttinga sinna á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 3. október 2018, var umsókninni synjað. Í bréfinu segir að fagnefnd hafi metið endurtekna umsókn kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn hans að svo stöddu þar sem ekki væri unnt að meta nú hversu alvarlegur tannvandi hans myndi verða. Kæranda var bent á að sækja um að nýju þegar virk tannréttingameðferð yrði tímabær.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. október 2018. Með bréfi, dags. 29. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerðin barst með bréfi, dags. 16. nóvember 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2018, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send móður kæranda til kynningar. Með tölvupósti 5. desember 2018 sendi móðir kæranda athugasemdir. Athugasemdirnar voru sendar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í máli kæranda verði ógild og úrskurðað að kærandi eigi sama rétt til greiðsluþátttöku og önnur börn sem þurfi að láta loka klofnum gómi og kljáist við vandamál tengd efri kjálka vegna þessa fæðingargalla.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fæðst með skarð í mjúka og harða gómi og farið í aðgerð vegna þess er hann var X mánaða. Afleiðingar af slíkri aðgerð séu mikill örvefur í góminum sem valdi því að efri kjálki muni aldrei vaxa og þroskast eðlilega eins og hjá þeim börnum sem fæðist með skarð í vör og góm og þurfi sömu aðgerð til að laga góminn. Þannig sé um að ræða sömu afleiðingar hjá þessum tveimur sams konar fæðingargöllum í gómi.

Verði ekkert að gert muni það hafa þær afleiðingar að kærandi verði alltaf með mjög þröngan góm, undirbit og krossbit. Til að koma í veg fyrir afleiðingar viðgerðarinnar á fæðingargallanum þurfi kærandi á framtogsmeðferð að halda. Í framtogsmeðferð felist að settur sé upp fastur víkkunarskrúfgómur yfir barnajaxla og kærandi noti framtogsbeisli á kvöldin og næturnar. Slík framtogsmeðferð geti staðið yfir í eitt til tvö ár á aldrinum X til X ára, […]. Kostnaður við meðferðina standi nú í 716.830 krónum og gert sé ráð fyrir að kostnaður til loka meðferðarinnar verði 300.000 krónur til viðbótar.

Í reglugerð nr. 451/2013 komi fram: „Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga tekur aðeins til kostnaðar vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna eftirtalinna tilvika: 1. Skarðs í efri tannboga eða harða gómi sem valdið getur alvarlegri tannskekkju eða öðrum sambærilegum alvarlegum  heilkennum (Craniofacial Syndromes/Deformities).“

Í reglugerðinni sé aldrei talað um að læknisfræðilegar líkur á alvarleika tannvandans þurfi að liggja fyrir sé barnið með skarð í harða góminum eða tannboga eins og Sjúkratryggingar Íslands leggi til grundvallar synjun. Á hinn bóginn segi í reglugerðinni „skarð í harða gómi sem valdið getur alvarlegri tannskekkju“. Bæði innlendir og erlendir sérfræðingar sem hafi mikla reynslu, auk menntunar í þessum fæðingargalla hafi áður vottað fyrir nefndinni að þessi meðferð sé nauðsynleg börnum sem fæðist með klofinn góm.

Þegar fyrsta synjun í máli kæranda hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála (þar hafi komið fram að um skarð í mjúka gómi væri að ræða) hafi Sjúkratryggingar sent úrskurðarnefndinni rökstuðning þar sem komið hafi fram: „Skörð í efri tannboga og harða gómnum hafi nánast alltaf mikinn tannvanda í för með sér, eru nefnd sérstaklega í greininni og fá fullan stuðning SÍ“. Þessi rökstuðningur hafi verið settur fram áður en kærandi hafi sýnt fram á skarð í harða gómi.

C, sérfræðingur í tannréttingum, hafi skoðað kæranda í upphafi, tekið röntgen- og ljósmyndir og vottað að tannvandi hans væri of þröngur gómur, krossbit og undirbit. Yrði ekkert að gert yrði ekki pláss fyrir fullorðinstennurnar. Í nýrri umsókn til Sjúkratrygginga komi fram sami vandi kæranda, auk þess sem verið sé að vinna í saxbiti. Víkkun góms sé lokið í bili en enn sé verið að reyna að auka framvöxt efri kjálka. Ferlið hafi tekið lengri tíma en til hafi staðið vegna ofnæmis á höku sem framtogsbeislið orsaki.

Í annarri synjun Sjúkratrygginga Íslands komi fram sama svar og áður; að ekki sé tímabært að meta hversu alvarlegur tannvandi kæranda muni verða, þrátt fyrir mat sérfræðings sem hafi skoðað kæranda og vottað alvarlegan tannvanda. Auk þess segi í bréfi stofnunarinnar að „vaxi vandi drengsins er fram líða stundir er sjálfsagt að sækja um að nýju.“

Eftir að hafa séð gögn um vanda kæranda og leitað upplýsinga í ritrýndum greinum um vanda skarðabarna hafi foreldrar kæranda tekið upplýsta ákvörðun um að hefja meðferð á eigin kostnað, þrátt fyrir svör Sjúkratrygginga Íslands. Þar sem kærandi fái viðeigandi meðferð á fæðingargalla á kostnað foreldra sinna muni vandi hans ekki aukast þannig að kærandi og önnur börn í hans stöðu muni þar af leiðandi aldrei fá samþykkta greiðsluþátttöku sjúkratrygginga á kostnaði vegna fæðingargalla sem tiltekinn sé í 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013.

Mælt sé með því að fyrsta meðferð skarðabarna standi yfir frá X til X ára. Þar sé gómurinn víkkaður og efri kjálkinn togaður fram. Á þessum árum séu beinin tiltölulega mjúk og auðveldara sé að ná árangri með þessum aðferðum en þegar börn séu í tannskiptum.

Móðir kæranda hafi óskað eftir fundargerðum af fagnefndarfundum þar sem mál kæranda hafi verið tekið fyrir til að sjá hvernig efnislega hafi verið fjallað um málið.

Hinn X 2012 hafi umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í skoðunum og mati verið samþykkt án aðkomu fagnefndar. Eftir það hafi mál kæranda verið tekið fyrir af fagnefnd þrisvar sinnum. Af fundargerðum fagnefndar sem farið hafi fram X 2016 og X 2016 megi ætla að mál hans hafi ekki verið rætt efnislega. Móðir kæranda hafi spurt yfirtryggingatannlækni hverju þetta sætti og hafi farið fram á skýringar. Svar hafi borist um að málið hefði verið skoðað efnislega en engin rök eða skýringar hafi verið færð fram. Eftir standi fundargerðir þar sem ekkert komi fram nema niðurstaðan, sem sé synjun. Í öllum tilvikum skarðabarna, sem einungis séu með klofinn góm en ekki klofinn tanngarð eða vör, sé úrskurður fagnefndar synjun. Þá sé eftirtektarvert að samkvæmt reglum Sjúkratrygginga skuli fagnefnd skipuð fjórum nefndarmönnum en í tilviki kæranda taki einungis þrír nefndarmenn málið fyrir.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segi að hvorki Sjúkratryggingum Íslands né fagnefnd hafi tekist að sýna fram á að fæðingargallinn valdi ekki alvarlegum afleiðingum. Þá séu röksemdir Sjúkratrygginga almenns eðlis og án tilvísana til gagna, fræðigreina eða annarra haldbærra skýringa. Í nýrri umsókn hafi bæst við nýjar upplýsingar frá eldri synjun en þær hafi kallað á endurmat. Stofnunin virðist á hinn bóginn byggja á fyrri synjun og taki ekki tillit til nýrra gagna.

Foreldrar kæranda telji að Sjúkratryggingar Íslands hafi beitt hann órétti og að þröng túlkun stofnunarinnar standist ekki jafnræðisreglu.

Á 5. fundi 149. löggjafarþings þann 17. september 2018 hafi heilbrigðisráðherra fengið fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnartíma þar sem fjallað hafi verið um að börn með skarð í harða gómi en ekki vör fái ekki samþykkta greiðsluþátttöku frá Sjúkratryggingum og hafi ráðherra verið spurð að því hvað hún hygðist gera til að rétta hlut þessa hóps. Svar heilbrigðisráðherra hafi verið eftirfarandi: „[...] Mér hefur verið ljóst í allnokkra mánuði að þarna hefur verið ágreiningur milli þeirra fjölskyldna sem um ræðir og Sjúkratrygginga Íslands í því hvað á að greiða og jafnframt sýnist mér þetta snúast um að það sé álitamál hvernig reglugerðin er túlkuð. Það er ekki fullnægjandi við þessar kringumstæður. Það sem ég hef gert [...] er að óska eftir því að þessi mál verðið skoðuð í ráðuneytinu með það að markmiði að gera breytingu á reglugerð til þess að skýra þessa stöðu og jafna stöðu þessara barna sem eru með skarð í vör og/eða gómi. Minn vilji stendur til þess að leiðrétta þessa mismunun [...].“

Samkvæmt svari ráðherra megi ætla að Sjúkratryggingar túlki umrædda reglugerð of þröngt og að ráðherra hafi lýst vilja til þess að jafna hlut þessara barna en stofnunin hafni því.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sé fjallað um heimildir til greiðsluþátttöku vegna tannlækninga og tannréttinga. Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna sé heimild til greiðsluþátttöku vegna barna og unglinga og elli- og örorkulífeyrisþega. Sú heimild nái þó ekki til þátttöku stofnunarinnar í kostnaði við tannréttingar. Í 2. málsl. sömu málsgreinar komi fram að sjúkratryggingar taki einnig til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

Jafnframt sé fjallað um endurgreiðslu vegna tannlækninga, þ.m.t. tannréttinga, í reglugerð nr. 451/2013. Í IV. kafla reglugerðarinnar séu ákvæði um aukna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, svo sem skarðs í efri tannboga eða harða gómi sem valdið geti alvarlegri tannskekkju, meðfæddrar vöntunar að minnsta kosti fjögurra fullorðinstanna framan við endajaxla og sambærilega alvarlegra tilvika, sbr. 15. gr. Um sé að ræða undantekningarheimild sem túlka beri þröngt samkvæmt viðteknum lögskýringarvenjum.

Til þess að meta allar umsóknir um greiðsluþátttöku stofnunarinnar á grundvelli ákvæða IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 hafi stofnunin skipað fagnefnd vegna tannlækninga. Nefndin sé skipuð tveimur fulltrúum tannlæknadeildar Háskóla Íslands og sé annar sérfræðingur í tannréttingum en hinn í kjálkaskurðlækningum, auk tveggja fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands og sé annar þeirra lögfræðingur en hinn sérfræðingur í tannlækningum.

Kærandi hafi verið X ára gamall þegar umrædd umsókn hafi borist stofnuninni. Í henni segi meðal annars að hann sé með skarð í mjúka gómi aftan til. Hann sé með krossbit og kantbit á framtönnum. Enn fremur komi þar fram að meðferð hafi þegar verið hafin áður en umsókn hafi verið send og falist í því að upphefja krossbitið.

Við úrlausn málsins hafi fagnefnd haft eftirfarandi gögn: Umsókn kæranda, ljósmyndir, dags. X 2016, X 2017 og X 2018, og ódagsetta vangaröntgenmynd með mælingum.

Fagnefnd hafi fjallað um mál kæranda á fundi sínum 7. nóvember 2018. Vegna ungs aldurs hans hafi nefndin ekki talið tímabært að meta hversu umfangsmikill tann- og bitvandi hans kunni að verða. Kærandi hafi aðeins verið X ára þegar fyrsta umsókn hafi borist. Sá vandi sem nú sé verið að meðhöndla hafi verið til staðar við fyrri afgreiðslu málsins og hafi þá ekki þótt svo alvarlegur að hann yrði felldur undir IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013.

Afgreiðsla Sjúkratrygginga á umsókn kæranda árið X hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. mál nr. 475/2016. Nefndin hafi leitað álits óháðs sérfræðings. Að fengnu því áliti hafi afgreiðsla Sjúkratrygginga verið staðfest með úrskurði 10. janúar 2018.

Kærandi eigi enn eftir að taka út mikinn kjálkavöxt sem geti hvort heldur valdið því að bitvandi hans versni eða lagist. Umsókn nú varði svokallaðar forréttingar sem sé minni háttar inngrip sem ekki verði fellt undir IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013. Kærandi hafi á hinn bóginn, eins og önnur börn með krossbit, fengið styrk frá Sjúkratryggingum Íslands árið 2016 fyrir kostnaði við meðferð við krossbiti.

Að mati fagnefndar hafi kærandi ekki uppfyllt, að svo stöddu, skilyrði fyrir samþykkt samkvæmt IV. kafla og umsókn því verið synjað.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið ábending um að sækja um að nýju síðar þegar unnt yrði að meta endanlegan vanda kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára, annarra en tannréttinga, sem samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Þá taka sjúkratryggingar samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. nefndrar 20. gr. til tannlækninga og tannréttinga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 20. gr. setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Núgildandi reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar er nr. 451/2013, með síðari breytingum.

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði vegna tannréttinga kæranda kemur til álita á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar. Kærandi óskaði þátttöku í kostnaði á grundvelli heimildar IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 þar sem kveðið er á um aukna þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, sbr. 14. gr. reglugerðarinnar. Greiðsluþátttaka á grundvelli IV. kafla nemur 95% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá tannlæknis, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar kemur slík endurgreiðsla til greina í ákveðnum tilvikum þegar um er að ræða alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla og sjúkdóma. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að við úrlausn þessa máls beri að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem kærandi sótti um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Á þeim tíma hljóðaði 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013 svo:

„Greiðsluþáttaka Sjúkratrygginga tekur aðeins til kostnaðar vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna eftirtalinna tilvika:

1. Skarðs í efri tannboga eða harða gómi sem valdið getur alvarlegri tannskekkju eða öðrum sambærilegum alvarlegum heilkennum (Craniofacial Syndromes/Deformities).

2. Meðfæddrar vöntunar fjögurra eða fleiri fullorðinstanna sem styttir fyrirsjáanlega samfellda tannröð í færri en sex fullorðinstennur í hverjum fjórðungi.

3. Annarra sambærilegra alvarlegra tilvika, svo sem alvarlegs misræmis í vexti beina í höfuðkúpu og kjálka eða misræmis sem ekki verður leyst án tilfærslu á beinum annars eða beggja kjálka þar sem bein eru bæði tekin í sundur og fest á nýjum stað í sömu skurðaðgerð.“

Í umsókn kæranda um greiðsluþátttöku segir meðal annars:

„Skarð í mjúka góm og aftur úr. Bimaxillar retrognathia, krossbit og kant í kant bit á framtannasvæðinu. Því var sett upp álímd þensluskrúfa X 2016. En gagnataka fór fram X 2016. Víkkun er lokið í bili. Er enn að nota framtogsbeisli til að auka framvöxt efri kjálka. Einnig er enn verið að vinna í saxbiti. Skrúfan verður fjarlægð X 2019 og fær drengurinn þá lausan góm til að halda við víkkun.“

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda synjað að svo stöddu á þeirri forsendu að ekki væri unnt að meta nú hversu alvarlegur tannvandi hans muni verða. Kæranda var bent á að sækja um að nýju þegar virk tannréttingameðferð yrði tímabær.

Í áliti D tannlæknis, dags. X 2017, sem úrskurðarnefnd aflaði við meðferð fyrra máls, segir meðal annars:

 

„Í ljósi ungs aldurs kæranda og þeirra læknisfræðilegu og tannlæknisfræðilegu gagna sem fyrir liggja og að ofan eru rakin og vitnað til er óvissa á þessu stigi um hvort skarð í harða gómi kæranda muni valda alvarlegri tannskekkju eða öðrum sambærilegum alvarlegum heilkennum (craniofacial syndromes/deformities), sbr. 1. tölul. 15. gr. reglugerðarinnar, eða eftir atvikum öðrum sambærilega alvarlegum tilvikum, sbr. 3. tölul. 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar.“

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að kærandi er með skarð í mjúka gómi og aðeins upp í harða góminn. Í kæru kemur þar að auki fram að tannvandi hans sé of þröngur gómur, krossbit og undirbit og verði ekkert að gert verði ekki pláss fyrir fullorðinstennur. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að kærandi hefur skarð í harða gómi. Kemur því til álita hvort það geti valdið alvarlegri tannskekkju. Samkvæmt áliti óháðs tannlæknis er óvissa um það atriði vegna ungs aldurs kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 451/2013 er það skilyrði greiðsluþátttöku samkvæmt IV. kafla reglugerðarinnar að um sé að ræða nauðsynlegar tannlækningar eða tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki heimilt að samþykkja greiðsluþátttöku á grundvelli þágildandi 15. gr. reglugerðarinnar nema það séu að minnsta kosti meiri líkur en minni á að tannvandi umsækjanda muni valda alvarlegum afleiðingum verði ekki brugðist við vandanum. Úrskurðarnefnd, sem meðal annars er skipuð lækni, fær ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að meiri líkur en minni séu á því að skarð í harða gómi kæranda valdi alvarlegri tannskekkju. Tannvandi kæranda verður því ekki felldur undir þágildandi 1. tölul. 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013. Þar sem ekki liggur fyrir að kærandi sé með meðfædda vöntun fjögurra eða fleiri fullorðinstanna fellur tannvandi hans ekki heldur undir þágildandi 2. tölul. sömu greinar. Þá telur úrskurðarnefndin að þar sem ekki liggur fyrir að meiri líkur en minni séu á því að klofinn gómur kæranda muni leiða til tannvanda, sem sé sambærilega alvarlegur þeim tilvikum sem nefnd eru í þágildandi 1. og 2. tölul. 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013, þá falli vandi kæranda ekki undir þágildandi 3. tölulið sömu greinar.

Kærandi byggir á því að túlkun Sjúkratrygginga Íslands á reglugerð nr. 451/2013 sé þröng og standist ekki jafnræðisreglu. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá segir að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Sjúkratryggingum Íslands að leggja  þágildandi 15. gr. reglugerðar nr. 451/2013 til grundvallar við úrlausn málsins. Þar kom skýrt fram í 1. tölul. að greiðsluþátttakan tæki til skarðs í efri tannboga eða harða gómi sem valdið gæti alvarlegri tannskekkju. Samkvæmt framangreindu hafi þurft að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort skarð í efri tannboga eða harða gómi gæti valdið alvarlegri tannskekkju. Úrskurðarnefndin telur ekkert benda til annars en að sambærileg mál hafi hlotið sambærilega úrlausn hjá stofnuninni. Að framangreindu virtu fær úrskurðarnefnd ekki ráðið að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannréttinga A, samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta