Framlög ríkisins til stjórnmálasamtaka 2014
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um greiðslur ríkisins til stjórnmálasamtaka fyrir árið 2014.
Um framlögin gilda lög nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.Greiðslur til stjórnmálasamtaka eru samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða eiga rétt til framlaga. Það framlag skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í næstliðnum kosningum. Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði að loknum kosningum til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 millj.kr. Sækja þarf um styrkinn innan þriggja mánaða eftir að kosningar fóru fram og greiðist af fyrrnefndum heimildum fjárlaga.
Greiðslur eftir alþingiskosningar árið 2013 fyrir árið 2014 koma fram í meðfylgjandi töflu. Í þeim tilfellum þar sem framboð uppfylltu skilyrði um sérstakan fjárstyrk og sóttu um hann innan tilkskilinna marka, en fengu jafnframt 2,5% atkvæða og því framlag úr ríkissjóði, dregst styrkurinn frá heildarframlagi á árinu 2014, líkt og sjá má á töflunni.
Skipting atkvæða í Alþingiskosningunum 2013 (Upplýsingar frá Hagstofu Íslands)
Greidd atkvæði alls 193.822
Gild atkvæði alls 188.995
Auðir seðlar 4.217
Ógildir seðlar 610
Stjórnmálasamtök |
Gild atkvæði | % hlutfall |
Atkvæði til skiptingar |
% hlutfall |
Áður afgreitt m/fjárauka 2013 |
Afgreitt nú |
Framlag vegna atkvæðafjölda |
Samtals greitt 2014 |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Björt framtíð | 15.584 | 8,25% | 15.584 | 8,7% | 3.000.000 | 22.117.737 | 22.117.737 | |
Framsóknarflokkur | 46.173 | 24,43% | 46.173 | 25,9% | 3.000.000 | 65.531.459 | 68.531.459 | |
Sjálfstæðisflokkur | 50.455 | 26,70% | 50.455 | 28,3% | 3.000.000 | 71.608.728 | 74.608.728 | |
Hægri grænir | 3.262 | 1,73% | 3.000.000 | |||||
Húmanistaflokkurinn | 126 | 0,07% | ||||||
Flokkur heimilanna | 5.707 | 3,02% | 5.707 | 3,2% | 3.000.000 | 8.099.713 | 8.099.713 | |
Regnboginn | 2.021 | 1,07% | 3.000.000 | 0 | ||||
Sturla Jónsson, K-listi | 222 | 0,12% | ||||||
Lýðræðisvaktin | 4.658 | 2,46% | 3.000.000 | 0 | ||||
Landsbyggðarflokkurinn | 326 | 0,17% | ||||||
Alþýðufylkingin | 118 | 0,06% | ||||||
Samfylkingin | 24.294 | 12,85% | 24.294 | 13,6% | 3.000.000 | 34.479.485 | 34.479.485 | |
Dögun | 5.855 | 3,10% | 5.855 | 3,3% | 3.000.000 | 8.309.763 | 8.309.763 | |
Vinstrihreyfingin – grænt framboð | 20.546 | 10,87% | 20.546 | 11,5% | 3.000.000 | 29.160.101 | 29.160.101 | |
Píratar | 9.648 | 5,10% | 9.648 | 5,4% | 3.000.000 | 13.693.014 | 16.693.014 | |
ALLS: | 188.995 | 178.262 | 100,0% | 24.000.000 | 9.000.000 | 253.000.000 | 262.000.000 |
Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra 2006/162
II. kafli. Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi
3. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis geta að loknum kosningum sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 millj.kr. Umsóknum um fjárstyrk vegna kosningabaráttur skal beint til ráðuneytisins og skulu umsóknir berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að kosningar fóru fram. Umsóknum skal fylgja afrit reikninga fyrir kostnaði sem fjárstyrk er ætlað að mæta. Ráðuneytið getur sett nánari reglur um form umsókna og fylgigagna sem og um það hvaða kostnaður geti talist kostnaður við kosningabaráttu.
4. gr. Framlög til þingflokka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Greiða skal jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnist hún eining. Að auki skal greiða eina einingu fyrir hvern þingflokk. Því til viðbótar skal úthluta fjárhæð sem svarar tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn og skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra. Forsætisnefnd Alþingis getur sett nánari reglur um greiðslur samkvæmt þessari grein.
5. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.
Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.