Hoppa yfir valmynd
9. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2012.

 

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 9. október 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 40/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 22. ágúst 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2013, á beiðni hennar um fjárhagsaðstoð. Synjun Reykjavíkurborgar byggðist á því að aðstæður kæranda hafi ekki fallið að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg varðandi styrk vegna sérstakrar aðstoðar vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi á langveikt barn sem bundið er við hjólastól. Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 34.000.000 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 20. febrúar 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. janúar 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með ódagsettu bréfi, mótt. 22. febrúar 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 29. apríl 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 34.000.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í a-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk vegna sérstakrar aðstoðar vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. apríl 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 22. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2013, upplýsti úrskurðarnefndin kæranda um að leiða mætti að því líkur að kæra hennar hafi borist að liðnum kærufresti og veitti kæranda færi á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að kæran ætti að hljóta efnislega meðferð á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, mótt. 27. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 29. ágúst, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Frekari gögn bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. september 2013, og með tölvupósti þann 13. september 2013. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2013, var upplýst að sveitarfélagið hygðist ekki skila greinargerð í málinu þar sem kærufrestur væri liðinn. Meðfylgjandi var afrit af hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2013, var ítrekuð beiðni nefndarinnar um að Reykjavíkurborg legði fram öll gögn málsins og bárust þau með bréfi sveitarfélagsins, dags. 25. september 2013. Gögnin voru send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. september 2013.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi bendir að hún hafi staðið í erfiðri veikindabaráttu í fimm ár og greiddur hafi verið […] kr. lækniskostnaður fyrir dóttur hennar. Hún sé því ekki í stöðu til að kaupa sjálf fasteign en dóttir hennar hafi þörf fyrir að búa á jarðhæð þar sem hún sé háð öndunarvél og föst í hjólastól. Kærandi kveður ástæðu þess að hún skjóti ákvörðun Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar svo löngu eftir að niðurstaða hafi legið fyrir vera að eign sú er hún hafi ætlað að kaupa hafi verið seld. Nú hafi kauptilboð kæranda í aðra eign verið samþykkt með þeim fyrirvara að hún fái umbeðna fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Um sé að ræða eign í hverfi því er börn hennar sæki skóla og hafi skólinn eytt miklum fjármunum og tíma í að breyta skólastofu til að mæta þörfum dóttur hennar. Kærandi bendir á að eign sú er hún hafi gert kauptilboð í sé á jarðhæð sem sé nauðsynlegt ef upp komi neyðarástand vegna dóttur hennar. Dóttir hennar sé nú á sambýli þar sem hún geti ekki búið í því húsnæði sem kærandi búi í þar sem íbúðin sé á annarri hæð og lyftan rúmi ekki hjólastól. Á sambýlinu sé mikið af eldri einstaklingum en dóttir kæranda sé einungis […] ára en aðrir íbúar um 18 ára. Kærandi bendir á að hún hafi ekki tök á að kaupa sjálf fasteign og engar hentugar íbúðir séu til leigu í umræddu hverfi. Verði styrkurinn samþykktur muni íbúðin vera á nafni styrktarfélags dóttur hennar en kærandi muni sjá um rekstrarkostnað og annað. Kærandi tekur fram að kaup á íbúð þessari gefi henni og börnum hennar líf saman og þá geti dóttir hennar sameinast móður sinni og systrum. Kauptilboðið sé háð fyrirvara um samþykki styrksins og óskar kærandi því eftir skjótri afgreiðslu.

 

Kærandi telur bæði afsakanlegt að kæra hennar hafi ekki borist fyrr sem og að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Húsnæði sem henti flóknum þörfum langveikrar dóttur hennar séu af skornum skammti. Þetta sé eina íbúðin í hverfi hennar sem henti þörfum hennar. Eignin hafi ekki verið sett á sölu fyrr en þann 15. ágúst 2013 og því hafi kærandi ekki getað kært synjun Reykjavíkurborgar fyrr. Þegar synjunin hafi borist í apríl hafi engin eign verið til sölu í hverfinu. Kærandi bendir á að til sé fordæmi um húsnæðiskaup Reykjavíkurborgar vegna sérstakra aðstæðna en með erindi hennar fylgdi tölvupóstur frá konu sem kvaðst hafa fengið félagslega íbúð vegna veikinda barns. Engin íbúð hafi verið laus í hverfinu og því hafi Félagsbústaðir hf. keypt íbúð.

 

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Engar athugasemdir hafa borist af hálfu Reykjavíkurborgar í málinu þar sem sveitarfélagið taldi að kærufrestur væri liðinn og málið því ekki tækt til meðferðar hjá nefndinni.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborghafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 20. febrúar 2013, um fjárhagsaðstoð.

 

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemd við að Reykjavíkurborg hafi ekki afhent úrskurðarnefndinni gögn málsins þegar þeirra var óskað með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, þar sem sveitarfélagið taldi að kærufrestur væri liðinn. Úrskurðarnefndin tekur fram að í tilvikum þar sem kæra berst að liðnum kærufresti ber nefndinni að leggja á það mat hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Með ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga er lögð skylda á hendur úrskurðarnefndinni að fjalla um tiltekin matskennd sjónarmið sem nánar er kveðið á um í 1. og 2. tölul. ákvæðisins. Svo úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til þess hvort fyrir hendi sé sú aðstaða sem lýst er í framangreindum ákvæðum svo rétt sé að víkja frá kærufresti þurfa öll gögn málsins að liggja fyrir. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að öll gögn verði framvegis afhent nefndinni þegar þess er óskað, jafnvel þótt kæra berist að liðnum kærufresti.

 

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, skal kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála lögð fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun Íbúðalánasjóðs. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2013, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. ágúst 2013. Liggur þannig fyrir að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum hinum þriggja mánaða kærufresti. Kærandi bendir á að hún hafi sótt um styrk hjá Reykjavíkurborg til kaupa á annarri fasteign sem síðan hafi verið seld. Í ágúst 2013 hafi önnur eign sem hentaði, komið á sölu og kærandi gert kauptilboð, dags. 15. ágúst 2013, með þeim fyrirvara að Velferðarsvið Reykjavíkurborgar samþykkti kaupin innan 30 daga frá samþykki kauptilboðsins. Kærandi heldur því fram að í ljósi þess að síðari íbúðin hafi verið sett á sölu eftir að kærufrestur hafi verið liðinn hafi hún ekki getað lagt fram kæru fyrr. Þá bendir kærandi á að aðstæður hennar og dóttur hennar séu afar sérstakar og eingöngu með kaupum á umræddu húsnæði geti dóttir hennar búið hjá henni.

 

Með 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga var lögfest sú meginregla að hafi kæra borist að liðnum kærufresti beri að vísa henni frá. Þó er að finna tvær undantekningar frá því í 1. og 2. tölul. ákvæðisins er hljóða svo:

 

Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

 

Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni voru 23 dagar liðnir frá lokadegi kærufrests. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi svo stutt verið liðið frá lokadegi kærufrests að réttlætanlegt sé að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat nefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar veitt réttar leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar. Við mat á því hvort skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eru uppfyllt ber að horfa til hagsmuna aðila máls sem og almannahagsmuna, t.a.m. hvort um mál sé að ræða sem geti haft mikilvægt fordæmisgildi. Sé hin kærða ákvörðun í andstöðu við framkvæmd hins æðra stjórnvalds í samsvarandi málum getur slíkt talist veigamikil ástæða í skilningi ákvæðisins. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að um sé að ræða mál sem haft geti mikilvægt fordæmisgildi enda hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á það. Þá hefur ekkert komið fram um að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við framkvæmd Reykjavíkurborgar. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki séu skilyrði til þess að taka kæruna til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, dags. 22. ágúst 2013, á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 29. apríl 2013, um synjun á beiðni hennar um fjárhagsaðstoð er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta