Hoppa yfir valmynd
22. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 21/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. júlí 2011, var kæranda A, send tilkynning um að stofnunin hefði frestað afgreiðslu máls hans og óskað eftir því að gögn yrðu lögð fram vegna rekstrar kæranda. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að hún hefði á fundi sínum 9. sama mánaðar ákveðið á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Ástæða þess væri sú að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar væri kærandi í verktakavinnu og yrðu atvinnuleysisbætur ekki greiddar fyrir þann tíma er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann yrði krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. mars til 30. apríl 2011, alls 340.651 kr. með 15% álagi og yrði það innheimt á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. ágúst 2012, var kæranda sent innheimtubréf stofnunarinnar vegna fyrrgreindrar endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í tölvupósti 3. september 2012, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir því sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar, dags. 22. ágúst 2012.

 

Í tölvupósti Vinnumálastofnunar 6. september 2012 kemur fram að kærandi hafi fengið ákvörðunarbréf 11. ágúst 2011 og að kærufrestur vegna þeirra ákvörðunar hefði liðið í nóvember 2011. Þá er kæranda greint frá því að ef hann vilji biðja um endurupptöku málsins þurfi hann að koma með formlega beiðni þar að lútandi.

 


 

Kærandi fór fram á endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun með tölvupósti 17. september 2012. Vinnumálastofnun synjaði þeirri beiðni með tölvupósti 18. september 2012, þar sem ekki væru forsendur til að endurupptaka málið enda væri heimild stofnunarinnar til endurákvörðunar fallin niður, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Var kæranda jafnframt bent á að unnt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefndinni, dags. 31. janúar 2013, móttekin 1. febrúar 2013.

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2013, kemur fram að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. ágúst 2011 með tölvupósti 17. september 2012. Kærandi óskaði endurupptökunnar í kjölfar þess að honum var sent bréf þess efnis að hann skuldaði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 340.651 kr., þar sem hann hafi ekki verið atvinnulaus í mars og apríl 2011, en kærandi hafi haft tekjur vegna eigin rekstrar samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra. Kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings endurupptökubeiðni sinni og beiðni hans hafi því verið hafnað enda hafi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga ekki verið uppfyllt. Kæranda hafi verið tilkynnt niðurstaða stofnunarinnar 18. september 2012. Þá hafi kæranda einnig verið tilkynnt um rétt sinn til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna synjunar Vinnumálastofnunar á ákvörðun stofnunarinnar hafi því runnið út 18. desember 2012. Kærandi hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 31. janúar 2013. Af þeirri ástæðu hafi kæran borist utan þriggja mánaða kærufrests skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og kærandi hafi ekki lagt fram neinar ástæður er réttlæti það að kæran hafi borist utan kærufrests. Vinnumálastofnun telur því að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní 2013, sent bréf Vinnumálastofnunar til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. júní 2013.

 


 

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi gert grein fyrir því þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta að hann stundaði leigubifreiðaakstur á eigin vegum og hefði gert um árabil. Vegna samdráttar í rekstri hefði hann sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta enda hefði hann fengið þær upplýsingar hjá starfsmanni Vinnumálastofnunar að vegna bráðabirgðaákvæðis VI í lögum um atvinnuleysistryggingar ætti kærandi rétt á greiðslunum. Kæranda hafi á hinn bóginn ekki verið gerð grein fyrir skilyrðum ákvæðisins, svo sem um tilkynningu til skattyfirvalda vegna verulegs samdráttar í rekstri og hafi kærandi talið að ekki væri um nein slík skilyrði að ræða. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem Vinnumálastofnun hefði ekki leiðbeint honum um umrædd skilyrði.

 

2.

Niðurstaða

 

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skýra verður þessi ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar meðal annars með hliðsjón af 3. og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. laganna hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum. Er 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga svohljóðandi:

 

,,Þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila.

 

Af þessu ákvæði leiðir að kærufrestur hættir að líða þegar aðili stjórnsýslumáls óskar eftir endurupptöku málsins en fari svo að endurupptökubeiðni sé hafnað heldur kærufresturinn áfram að líða að nýju, þ.e. það sem eftir er af honum, frá þeim tíma er synjun um endurupptöku er tilkynnt aðila.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta til kæranda var kynnt honum með bréfi, dags. 11. ágúst 2011. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða mátti kæranda vera ljóst að hann var með því bréfi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Í bréfinu var kæranda bent á heimild til þess að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hann nýtti sér það ekki fyrr en honum barst innheimtubréf stofnunarinnar vegna skuldarinnar, dags. 22. desember 2012, rétt rúmu ári síðar. Í innheimtubréfinu kemur fram að réttur til að andmæla efni bréfsins sé 14 dagar frá dagsetningu þess og enn fremur er sérstaklega tilgreint að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé þrír mánuðir frá dagsetningu þess. Af þessu verður ráðið að kærandi fékk nýjan kærufrest vegna innheimtu skuldar sinnar við Vinnumálastofnun.

 

Í tölvupósti 3. september 2012 óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. ágúst 2012. Í svari Vinnumálastofnunar í tölvupósti 6. september 2012 kemur fram að vegna þess að ákvörðunarbréf stofnunarinnar væri dagsett 11. ágúst 2011 hefði kærufrestur liðið í nóvember 2011. Óskaði kærandi eftir því að málið væri endurupptekið og var farið fram á formlega beiðni þess efnis. Kærandi sendi beiðni um endurupptöku með tölvupósti 17. september 2012. Þeirri beiðni var svarað með tölvupósti 19. september 2012. Þar kemur fram að ekki séu forsendur til þess að taka mál kæranda upp að nýju þar sem heimild til þess að krefjast endurupptöku ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 9. ágúst 2011 væri fallin niður skv. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Var athygli vakin á því að andmæla- og kærufrestir væru tæmdir að fullu vegna framangreindrar ákvörðunar. Kæranda var í tölvupóstinum bent á heimild sína til þess að kæra seinni ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu skuldar hans frá 22. ágúst 2012.

 

Kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni 1. febrúar 2013 eða eftir að kærufrestur var liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þess sem að framan er rakið og gagna málsins er ekkert sem gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


 

 

Úrskurðarorð

Kæru A sem barst 1. febrúar 2013 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 22. ágúst 2012 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta