Samtökin ´78 fá styrk frá ríkisstjórn Íslands í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna
Samtökin ´78 fagna 40 ára afmæli sínu þann 9. maí nk. Af því tilefni hyggjast samtökin ráðast í fjölmörg metnaðarfull verkefni á afmælisárinu í því skyni að vekja athygli á þessum merku tímamótum í sögu samtakanna.
Er þar m.a. um að ræða útgáfu veglegs afmælisrits þar sem m.a. verður fjallað um hinsegin fólk, sögu þess og samtímann. Þá má nefna afmælishátíð samtakanna í Iðnó, laugardaginn 23. júní nk., þar sem hinsegin tónlist, sögur og skemmtun af hinu ýmsu tagi verður á boðstólunum. Þá munu samtökin standa fyrir sögusýningu í samvinnu við Þjóðminjasafnið þar sem sýningu á vegum safnsins verður umbreytt í hinsegin sögusýningu. Loks stendur til að safna saman heimildum úr sögu Samtakanna ´78 með það fyrir augum að gefa út sögu samtakanna.