Úthlutun listabókstafa
Ráðuneytinu hafa borist nokkrar fyrirspurnir í tengslum við úthlutun listabókstafa í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Um úthlutun listabókstafa í sveitarstjórnarkosningum fer skv. 31. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna:
„Er yfirkjörstjórn hefur lagt úrskurð sinn á framboðslista merkir hún lista framboðanna með hliðsjón af skrá ráðuneytisins um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar.
Ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálaflokkum merkir yfirkjörstjórn þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna“.
Í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis segir um þessa skrá:
„Ráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skal skráin birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert, og skal þá birta auglýsingu þessa innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar“.
Ráðuneytið mun auglýsa eftirfarandi skrá í Stjórnartíðindum en hér er yfirlit yfir listabókstafi og heiti þeirra framboða sem buðu fram í að minnsta kosti einu kjördæmi í kosningum til Alþingis 2013:
- A-listi: Björt framtíð.
- B-listi: Framsóknarflokkur.
- D-listi: Sjálfstæðisflokkur.
- G-listi: Hægri grænir, flokkur fólksins.
- H-listi: Húmanistaflokkurinn (framboð í tveimur kjördæmum).
- I-listi: Flokkur heimilanna (hét áður Lýðveldisflokkurinn).
- J-listi: Regnboginn, fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun.
- K-listi: Sturla Jónsson, K-listi (hét áður Framfaraflokkurinn. Bauð fram í einu kjördæmi).
- L-listi: Lýðræðisvaktin.
- M-listi: Landsbyggðarflokkurinn (framboð í einu kjördæmi).
- R-listi: Alþýðufylkingin (framboð í tveimur kjördæmum).
- S-listi: Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands.
- T-listi: Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
- V-listi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð.
- Þ-listi: Píratar.
Frekari upplýsingar um listabókstafi og framboð í sveitarstjórnum má finna í skýrslu Hagstofu Íslands um sveitarstjórnarkosningar 29. maí 2010.