Lok aðgerða Atlantshafsbandalagsins í Afganistan ákveðin á ráðherrafundi
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt í fjarfundi utanríkis- og varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins. Á fundinum var tekin ákvörðun um að binda enda á aðgerðir bandalagsins í Afganistan og að liðsafli bandalagsríkjanna verði farinn frá landinu fyrir 11. september næstkomandi.
„Bandalagið hefur ásamt samstarfsríkjum og öðrum alþjóðastofnunum unnið að friði og umbótum í Afganistan í tuttugu ár. Þessu hafa fylgt miklar fórnir en jafnframt hefur mikið áunnist, ekki síst hvað varðar lýðræði, mannréttindi, menntun og réttindi kvenna og barna, sem mikilvægt verður að standa vörð um. Baráttan gegn hryðjuverkum heldur áfram, þó með öðrum hætti,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.
Í yfirlýsingu fundarins segir að í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001 hafi ríki Atlantshafsbandalagsins virkjað ákvæði 5. greinar Atlantshafssáttmálans í fyrsta sinn, en hún kveður á um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll. Fram til ársins 2015 vann Atlantshafsbandalagið undir merkjum alþjóðaliðsins ISAF. Þá tóku afgönsk stjórnvöld við ábyrgð á öryggismálum landsins en hlutverk bandalagsins fólst í staðinn í ráðgjöf, þjálfun til að styrkja öryggisstofnanir landsin, og stuðningi sem miðaði að því að efla getu heimamanna til að sinna eigin vörnum óstuddir. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að bandalagið muni áfram styðja friðarferli og uppbyggingarstarf í landinu.
A new chapter in relations btw #NATO and #Afghanistan. Important to preserve and advance further the progress made on #security, #development, #humanrights + rights of women and girls. 🇮🇸will continue to support the people of 🇦🇫. @IcelandNATO https://t.co/BZMIbQSIRS
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) April 14, 2021
Ísland hefur tekið virkan þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins og alþjóðastofnana í Afganistan, lagt til jafnréttisfulltrúa og fjölmiðlasérfræðinga og stutt við uppbyggingarverkefni m.a. á sviði jafnréttismála, auk þróunar- og neyðaraðstoðar.
Á fundinum var einnig fjallað um stöðuna á Krímskaga og við landamæri Úkraínu þar sem liðssafnaður rússneska hersins veldur áhyggjum. Var þar vísað til fundar NATO-Úkraínunefndarinnar með utanríkisráðherra Úkraínu sem fram fór í gær. Á fundinum áréttaði fastafulltrúi Íslands afstöðu íslenskra stjórnvalda og stuðning þeirra við sjálfstæði og friðhelgi landamæra Úkraínu. Bandalagsríkin voru sammála um að hvetja rússnesk stjórnvöld til að láta af liðsflutningum og draga úr spennu á svæðinu. Guðlaugur Þór sendi út yfirlýsingu til stuðnings Úkraínu á Twitter í gær.
Today all #NATO Allies reiterated to Foreign Minister @DmytroKuleba strong support to #Ukraine‘s territorial integrity and sovereignty. https://t.co/NhvGyas5EJ
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) April 13, 2021