Fjárlagafrumvarp 2008
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 20/2007
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 er með 30,8 milljarða króna tekjuafgangi, eða sem nemur 2,4% af vergri landsframleiðslu.
Er það mun betri afkoma en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun sem lögð var fram síðasta haust. Talsverður afgangur verður á ríkissjóði á næsta ári þrátt fyrir að áformað sé að ráðast í miklar samgöngubætur og mótvægisaðgerðir vegna lækkunar á aflamarki þorsks. Staða ríkisfjármála er því sterk og áfram verða greiddar niður skuldir og staðan bætt á annan hátt. Gangi áform frumvarpsins eftir verður tekjuafgangur af ríkissjóði í fimm ár samfellt og hefur aðhald ríkisfjármála verið talsvert umfram það sem áður var gert ráð fyrir. Er nú áætlað að tekjuafgangur á ríkissjóði verði 66 milljarðar kr. árið 2007, eða 5,4% af vergri landsframleiðslu og árið 2006 var tekjuafgangurinn 81,8 milljarðar kr. samkvæmt ríkisreikningi, eða 7% af landsframleiðslu. Þrátt fyrir mun meiri tekjuafgang á næsta ári en spáð var í langtímaáætlun mun tekjuafkoma ríkissjóðs minnka um ríflega helming frá þessu ári. Er það einkum vegna minni umsvifa í efnahagslífinu og stóraukinna útgjalda til samgöngumála. Samtals aukast stofnkostnaðarútgjöld ríkissjóðs um tæplega 24 milljarða eða tæp 130% frá fjárlögum þessa árs. Í frumvarpinu er auk samgönguframkvæmda lögð áhersla á eflingu háskólastigsins og rannsókna auk þess að framlög til almannatrygginga vaxa vegna minni tengingar greiðslna við tekjur. Þá verður áfram unnið að bættri þjónustu við aldraða og fatlaða. Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins bendir til aukins jafnvægis í efnahagsmálum á næstu árum. Spáð er að hægi tímabundið á hagvexti og að hann verði hóflegur á næstu árum samhliða því að dragi úr verðbólgu og viðskiptahalla. Langtímaáætlun í ríkisfjármálum bendir til að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á næstu árum. Ef rétt er haldið á málum verður því svigrúm til þess að fylgja eftir áherslum ríkisstjórnarinnar og halda áfram að lækka skatta á næstu árum og bæta velferðarþjónustuna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Grunnurinn fyrir því er öflugt atvinnulíf og ábyrg stjórn ríkisfjármála sem felur í sér áframhaldandi sterka stöðu ríkissjóðs. Nettó staða ríkissjóðs, það er peningalegar eignir umfram hreinar skuldir, er nú jákvæð og verður 4,9% af landsframleiðslu á næsta ári en staðan var neikvæð um 23% árið 1998. Inneignir ríkissjóðs og stofnana á reikningum við Seðlabanka Íslands er rúmlega 100 milljarðar króna og fyrirframgreiðslur ríkissjóðs inn á lífeyrisskuldbindingar námu 126 milljörðum um síðustu áramót auk vaxta. Staða ríkissjóðs er því traust og hefur verið nefnd öfundsverð í áliti alþjóðastofnana um íslensk efnahagsmál. Mikilvægt er að halda þeirri stöðu og byggja umbætur í velferðar- og skattamálum á traustu efnahags- og atvinnulífi.
Tekjuafkoma árin 2007 og 2008 langt umfram spár. Í fjárlagafrumvarpi 2008 er gert ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 30,8 milljarðar króna. Tekjur og gjöld árið 2007 hafa verið endurmetin í ljósi þróunarinnar það sem af er ári og niðurstöðu ríkisreiknings 2006. Er nú gert ráð fyrir að tekjuafkoma ríkissjóð árið 2007 verði 66 milljarðar, en í fjárlögum var gert ráð fyrir 9,1 milljarðs kr. tekjuafgangi.
Afkoma ríkissjóðs
Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs
Liðir
|
Reikn. 2006
|
Fjárlög 2007
|
Áætlun 2007
|
Frumvarp 2008
|
---|---|---|---|---|
Tekjur |
422
|
376,4
|
448,2
|
461,2
|
Gjöld |
340,2
|
367,3
|
382,2
|
430,4
|
Tekjujöfnuður |
81,8
|
9,1
|
66
|
30,8
|
Rekstrarlán sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi |
5,9
|
-2,4
|
-13,4
|
-6,4
|
Handbært fé frá rekstri |
87,7
|
6,7
|
52,6
|
24,4
|
Fjármunahreyfingar |
-104,9
|
3
|
-65,5
|
7,5
|
Hreinn lánsfjárjöfnuður |
-17,2
|
9,7
|
-12,9
|
31,9
|
Tekjuafkoma breyting frá langtímaáætlun síðasta hausts. Spáð var 4,9 milljarða kr. tekjuhalla fyrir árið 2008 í langtímaáætlun síðasta haust. Tekjuafkoman á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi nú er því 35,7 milljörðum betri en áður hafði verið spáð. Gert hefur verið ráð fyrir tekjuhalla árið 2008 í langtímaáætlunum síðustu ára þar sem áformað var að ganga tímabundið á inneignir í Seðlabanka við ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf. Að frátöldum áformum um ráðstöfun söluandvirðis Símans er tekjujöfnuður ríkissjóðs 41,5 milljarðar í stað spár um 7,7 milljarða afgang.
Tekjuafkoma, breyting frá áætlun haustið 2006
Ráðstöfun lánsfjárafgangs. Áætlað er að lánsfjárafgangur á næsta ári verði 32 milljarðar kr., en það er það fé sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir eða styrkja stöðu sína með öðrum hætti. Áformað er að greiða niður skuldir er nemur 14,5 milljörðum kr. og greiða fyrirfram 4 milljarða kr. inn á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Loks er áætlað að staðan við Seðlabanka Íslands batni um 13,5 milljarða kr. Fyrirframgreiðslur ríkissjóðs inn á lífeyrisskuldbindingar námu 126 milljörðum ásamt vöxtum um síðustu áramót og verða að óbreyttu tæplega 150 milljarðar kr. í árslok 2008. Með lækkun skulda og bættri stöðu við Seðlabanka batnar hrein staða ríkissjóðs og verður 4,9% af landsframleiðslu í árslok 2008, eða sem nemur 64 milljörðum króna.
Jafnvægi í efnahagsmálum. Haustspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að hagvöxtur árið 2007 verði 0,7% og 1,2% á næsta ári. Spáð er að dragi úr verðbólgu og að verðlag hækki um 3,3% frá 2007 til 2008 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 1%. Einkaneysla dragist saman um 0,9% frá þessu ári og að atvinnuleysi vaxi úr 1,1% af vinnuafli á þessu ári í 2,9% árið 2008. Spáð er að hagvöxtur verði að jafnaði 2,4% á ári 2009-2012 og að dragi jafnt og þétt úr viðskiptahalla sem verði 5,5% af landsframleiðslu í lok tímabilsins. Er því gert ráð fyrir að efnahagslífið leiti í átt til jafnvægis við hóflegan hagvöxt á næstu árum.
Hagvöxtur
Verðbólga
Viðskiptahalli
Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs árið 2008 verði 461,6 milljarðar króna, sem er 77,3 milljarða króna hækkun frá langtímaáætlun sem lögð var fram haustið 2006. Að mestu má rekja breytinguna til hækkunar tekjuspár árið 2007 á grundvelli endurskoðaðra þjóðhagsforsendna. Einnig er um að ræða aðeins meiri launa- og verðlagsbreytingar á næsta ári en gert var ráð fyrir í vorspá ráðuneytisins. Þá hækka vaxtatekjur ríkissjóðs vegna betri sjóðstöðu.
Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu
Útgjöld ríkissjóðs. Heildargjöld ríkissjóðs árið 2008 eru áætluð rúmir 430 milljarðar kr., sem er hækkun um 48 milljarða frá áætlun þessa árs. Aukast útgjöldin því um rúm 8% að raungildi á milli ára miðað við áætlun. Skýrist hækkunin að mestu af stórauknum framkvæmdum til samgöngumála í samræmi við samgönguáætlun, vegna ákvarðana um flýtingu framkvæmda í tengslum við mótvægisaðgerðir og ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf. Almenn rekstargjöld ríkissjóðs, það er launagreiðslur, þjónustu- og vörukaup, hækka um 1,7% að raungildi frá áætlun þessa árs, þar af eru 0,7% vegna yfirtöku á verkefnum vegna brotthvarfs varnarliðsins. Tekjutilfærslur aukast um rúm 4% að raungildi meðal annars vegna spár um aukið atvinnuleysi og minni tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Stofnkostnaður vex um rúmlega 116% að raungildi mest vegna stóraukinna framlaga til samgöngumála og skýrir eins og áður segir að stórum hluta vöxt útgjalda frá þessu ári.
Breytingar helstu málaflokka frá áætlun 2007
Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er haldið aftur af raunvexti rekstrargjalda, sem verður 1,7% og stafar að mestu af auknum framlögum til mennta- og velferðarmála. Þannig er gert ráð fyrir átaki í málefnum geðfatlaðra og kostnaði við stefnumörkun í málefnum barna og ungmenna. Útgjöld til menntamála aukast einkum vegna framlaga til háskóla og rannsóknasjóða. Útgjöld vaxa talsvert vegna brotthvarfs varnarliðsins, einkum vegna yfirtöku á rekstri ratsjárkerfisins. Loks má nefna framlög til mótvægisaðgerða vegna minni þorskafla.
Tekjutilfærslur aukast um rúm 4% að raungildi og stafar vöxturinn af auknum útgjöldum lífeyristrygginga vegna samkomulags við aldraða og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að draga út tengingu greiðslna almannatrygginga við tekjur. Þá vaxa framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna fjölgunar lánþega. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukast vegna tengingar framlaga í sjóðinn við tekjur ríkissjóðs og útsvarsstofn auk ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að veita áfram tímabundin framlög í sjóðinn til fólksfækkunarframlaga. Þá er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna aukins atvinnuleysis í samræmi við spár. Loks má nefna aukin framlög til atvinnuendurhæfingar og aukin framlög til þróunaraðstoðar.
Framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hafa margfaldast
Stofnkostnaður ríkissjóðs eykst verulega á milli ára eða um 24 milljarða kr. og ríflega tvöfaldast. Er þar einkum um að ræða samgönguframkvæmdir en tímabundin frestun framkvæmda fyrri ára gengur til baka auk þess að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf. hefst að fullum þunga. Þannig aukast framlög til vegamála um 14 milljarða kr., til hafnamála um 1,4 milljarða kr. og til flugmála um 1,5 milljarð kr. Einnig má nefna að stofnkostnaður vegna smíði varðskips og kaupa á flugvélum fyrir Landhelgisgæsluna nemur 2 milljörðum kr. á næsta ári.
Framlög til fjárfestingar
Gripið er til ýmissa aðgerða á gjaldahlið frumvarpsins sem lækka útgjöld ríkisjóðs á næsta ári um 5,6 milljarða frá því sem annars hefði orðið. Þannig frestast framkvæmdir vegna Sundabrautar sem nemur 1,5 milljarði króna. Þá hafa ráðuneytin útfært lækkun rekstrargjalda stofnana og verkefna er nemur samtals 2 milljörðum króna. Loks er gripið til ýmissa aðgerða á gjaldahlið til að lækka millifærslur og verðjöfnun auk þess að byggingarframkvæmdum er frestað. Nánari grein er gerð fyrir þeim áformum í seinni hluta frumvarpsins.
Horft fram á við. Framreikningar benda til að kerfislæg afkoma ríkissjóðs skili afgangi og langtímaáætlun bendir til að tekjuafgangur verði á næstu árum miðað við forsendur þjóðhagspár.
Tekjuafkoma ríkissjóðs
Ef rétt er haldið á málum verður því svigrúm á næstu árum til að lækka skatta og efla velferðarkerfið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í menntamálum, samgöngumálum og í heilbrigðis- og félagsmálum. Eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Mikilvæg forsenda er að aðhalds sé gætti rekstri ríkissjóðs með ráðdeild og varfærni í fjármálum. Er því mikilvægt að hlutur ríkisútgjalda af landsframleiðslu vaxi ekki frekar en nú er og lækki þegar lokið er tímabundnu átaki í framkvæmdum.
Hreinar skuldir og hrein staða ríkissjóðs
Fjárlagafrumvarpið og nýja þjóðhagsspá er að finna á vefnum: www.fjarmalaraduneyti.is og www.fjarlog.is.
Fjármálaráðuneytinu, 1. október 2007