Fimm íbúar sambýlis í Kópavogi fá nýtt og endurbætt húsnæði
Staðfest var í dag samkomulag um endurbætur á húsnæði sem Kópavogsbær hyggst taka í notkun sem sambýli fyrir fatlaða næsta vor. Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra ákvað í lok desember síðastliðnum að veita styrk til framkvæmdanna.
Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra ákvað 29. desember 2010, með samþykki félags- og tryggingamálaráðherra, að Kópavogsbær hlyti styrk úr framkvæmdasjóði fatlaðra, alls 27 milljónir króna, til að endurbæta húseign bæjarins að Skjólbraut 1a í Kópavogi. Markmiðið er að fimm íbúar sambýlis við Borgarholtsbraut 51 geti, eins fljótt og kostur er, flutt í rýmra og betra húsnæði sem mætir betur þörfum þeirra.
Samkomulagið var staðfest í dag í anddyri Salarins, Tónlistarhúss Kópavogs, af Guðrúnu Pálsdóttur bæjarstjóra fyrir hönd Kópavogsbæjar, Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra fyrir hönd velferðarráðuneytisins og Steina Þorvaldssyni fyrir hönd stjórnarnefndar um málefni fatlaðra.
Kópavogsbær hyggst ráðast í breytingar á húsnæðinu um leið og styrkurinn verður afhentur og ljúka verkinu innan fimm mánaða frá þeim tíma. Áætlaður heildarkostnaður endurbótanna nemur um 38,4 milljónum króna. Bærinn leggur auk þess til húsnæðið að Skjólbraut 1a en brunabótamat þess er rúmlega 67 milljónir.
Kópavogsbær tók við þjónustu við fatlað fólk af ríkinu nú um áramótin og sótti um umræddan styrk þegar ljóst var að húsnæðinu við Borgarholtsbraut væri ábótavant.
Íbúar á Borgarholtsbraut hafa lýst yfir ánægju með þessa niðurstöðu og horfa bjartsýnir til flutnings á vormánuðum.