Guðlaugur Þór undirritaði nýjan rammasamning við UN Women
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Ms. Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdarstjóri UN Women, skrifuðu í dag undir nýjan rammasamning um stuðning Íslands við UN Women. Samningurinn gildir til loka árs 2023 og veitir heildræna umgjörð utan um samstarf Íslands og stofnunarinnar og styður við jafnréttismál í þróunarsamvinnu.
„Við vitum að ofbeldi gegn konum og stúlkum hefur aukist í kjölfar heimsfaraldursins. Ísland mun halda áfram að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi til dæmis með því að leggja áherslu á kjarnaframlög til UN Women, sem veita stofnuninni sveigjanleika til að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni,“ sagði Guðlaugur Þór við tilefnið, en samningurinn var undirritaður á fjarfundi.
UN Women er ein af áherslustofnunum Íslands í þróunarsamvinnu og sinnir verkefnum sem ætlað er að efla réttindi kvenna, þátttöku þeirra í stjórnmálum, efnahagslegt sjálfstæði og uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum. Stofnunin starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana Sameinuðu þjóðanna og er leiðandi í stefnumótun á alþjóðavettvangi. Ísland hefur stutt stofnunina frá upphafi og er á meðal helstu stuðningsaðila.
Á þessu ári hefur ofbeldi gegn konum og stúlkum aukist í kjölfar heimsfaraldursins og mikilvægt er að beina sjónum að þessari afar slæmu þróun sem á sér stað um heim allan. UN Women hefur jafnframt fjallað um þetta sem skuggafaraldurinn.