Mál nr. 563/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 563/2022
Mánudaginn 3. apríl 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 2. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. nóvember 2022 á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst samþykkta uppbót vegna bifreiðakaupa 9. nóvember 2021. Kærandi sótti um styrk til kaupa á bifreið með rafrænni umsókn, móttekinni 21. september 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. október 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að um tímabundið ástand væri að ræða. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð, dags. 14. nóvember 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. nóvember 2022, var kæranda synjað um breytingu á fyrirliggjandi hreyfihömlunarmati á þeim forsendum að ekki væri um varanlegt ástand að ræða. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 27. október 2022 sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. nóvember 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. desember 2022. Með bréfi, dags. 5. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 22. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2022. Athugasemdir bárust ekki.
Með bréfi, dags. 13. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari rökstuðningi fyrir því mati lækna kæranda að göngugeta hans yrði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Læknisvottorð, dags. 17. mars 2023, barst frá B og var það sent Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 29. mars 2023.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi sent Tryggingastofnun læknisvottorð sem hafi verið útbúið af lækni sem hann hafi ekki hitt áður og hafi því ekki þekkt sjúkrasögu hans. Læknirinn hafi skrifað vottorð sem hafi ekkert að gera með það mein sem hann hafi á vinstri fæti. Fóturinn hafi verið tekinn af fyrir neðan hné fyrir X árum. Í vottorðinu hafi lýsingum á veikindum varðandi fótinn ekki verið rétt lýst.
Að beiðni kæranda hafi annar heimilislæknir farið yfir mál kæranda og hafi hann leiðrétt fyrra vottorð vegna synjunar á umsókn um bifreiðastyrk hjá Tryggingastofnun. Kæranda hafi aftur verið synjað á sömu ástæðum og áður sem honum hafi þótt mjög undarlegt því að læknisvottorðin hafi verið ólík. Kærandi hafi hringt í Tryggingastofnun en þar hafi verið fátt um svör. Kærandi sé með eitthvað sem enginn læknir hafi getað sagt hvað sé og frá því að hafa getað gengið átta til tíu km á dag sé hann nú kominn í hjólastól og gangi við hækjur sem segi allt um veikindi hans. Enginn viti hve lengi þetta ástand muni vara en það hafi varað í níu til tíu mánuði og hafi kærandi verið bundinn hækjum allan tímann og hjólastól síðan í júlí 2022.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/ styrk vegna bifreiðakaupa.
Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa þann 26. september 2022 sem hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. október 2022. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi og hafi skilað inn nýju læknisvottorði 14. nóvember 2022. Synjunin hafi verið ítrekuð með bréfi, dags. 22. nóvember 2022, sem hafi síðan verið yfirfarin og rökstudd með bréfi til kæranda, dags. 25. nóvember 2022. Það sé sú ákvörðun sem kæran varði.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.
Sú reglugerð sem eigi við í málinu sé nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þegar sótt sé um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa reyni einkum á tvær greinar reglugerðarinnar, annars vegar 6. gr. um uppbót vegna kaupa á bifreið og hins vegar 7. gr. um styrk til kaupa á bifreið.
Í 6. gr. segi að heimilt sé „að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi er talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari.“ Fjárhæð uppbótar sé 360.000 kr., en hún geti verið 720.000 kr. sé um að ræða fyrstu bifreið eða ef viðkomandi hafi ekki átt bifreið síðustu tíu ár fyrir umsókn.
Í orðskýringum 2. gr. reglugerðarinnar sé líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi hátt: „Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“
Fjárhæðin sé hærri í 7. gr., eða 1.440.000 kr., en ríkari skilyrði séu sett fyrir slíkri styrkveitingu, sbr. 1. mgr.: „Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynlegt er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður.“
Í 7. gr. sé þannig strangara skilyrði um hreyfihömlun og verði hún að vera veruleg. Við mat á því hvenær hreyfihömlun teljist veruleg séu nefnd dæmi til viðmiðunar, að viðkomandi einstaklingur „sé bundinn í hjólastól“ eða að hann „noti tvær hækjur að staðaldri.“
Í 11. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að heimilt sé að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.
Til viðbótar uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið sé heimilt samkvæmt 5. gr. sömu reglugerðar að sækja um uppbót vegna reksturs bifreiðar.
Forsaga málsins sé sú að kærandi hafi sótt um uppbót vegna bifreiðakaupa 21. september 2021 sem hafi verið samþykkt 9. nóvember 2021. Á grundvelli hreyfihömlunarmats hafi verið samþykkt uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 að fjárhæð kr. 360.000. Kærandi hafi 30. nóvember 2021 sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar sem hafi verið samþykkt 1. desember 2021 og greiðslutímabilið hafi verið ákvarðað frá 1. desember 2021 til 30. september 2024. Tilgreint hafi verið að hreyfihömlunarmat, sem hafi legið til grundvallar rekstraruppbótinni, gilti frá 1. október 2021 og væri varanlegt.
Með bréfi, dags. 19. september 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun uppbótar vegna reksturs bifreiðar þar sem að ökutækið væri óskoðað. Þeirri hindrun fyrir frekari greiðslum vegna reksturs bifreiðar hafi ekki verið rutt úr vegi.
Kærandi hafi 26. september 2022 sótt að nýju um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa. Varðandi umsóknina sé rétt að nefna að sams konar umsókn sé fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og vegna styrks á kaupa á bifreið samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Starfshátturinn sé sá að sérfræðingar Tryggingastofnunar leggi mat á hvort skilyrði sé uppfyllt fyrir greiðslum samkvæmt annarri hvorri greininni. Fyrst sé metið hvort hin ströngu skilyrði fyrir styrk samkvæmt 7. gr. séu uppfyllt, og sé svo ekki, sé jafnan metið hvort hin vægari skilyrði fyrir uppbót samkvæmt 6. gr. séu uppfyllt.
Kærandi hafi fengið uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar árið 2021 og því komi framangreind fimm ára regla reglugerðarinnar í veg fyrir að hann fái aftur slíka uppbót árið 2022. Hafi slík uppbót hins vegar verið veitt sé heimilt að sækja aftur um uppbót/styrk innan fimm ára til að láta reyna á hvort skilyrði séu fyrir styrkveitingu samkvæmt 7. gr. reglugerðar ef talið sé að læknisfræðilegt mat hafi breyst þannig að skilyrði 7. gr. séu uppfyllt. Þá komi fimm ára reglan ekki í veg fyrir slíka uppfærslu.
Með hliðsjón af þessu hafi sérfræðingar Tryggingastofnunar litið svo á að kærandi væri að sækja um að nýju, ásamt því að skila inn nýju læknisvottorði, með það að augnamiði að ástand hans yrði heimfært undir 7. gr. reglugerðarinnar.
Eftir að hafa skoðað og metið læknisvottorð C, dags. 26. september 2022, sem hafi fylgt umsókn, hafi læknateymi Tryggingastofnunar tekið þá ákvörðun að synja henni með bréfi, dags. 8. október 2022, þannig að ekki væri skilyrði til að heimfæra ástand kæranda undir 7. gr. reglugerðarinnar. Kærandi hafi lagt fram læknisvottorð B, dags. 14. nóvember 2022. Læknateymi Tryggingastofnunar hafi lagt mat á læknisvottorðið og komist að þeirri niðurstöðu að standa við fyrri ákvörðun um að skilyrði 7. gr. væru ekki uppfyllt. Eftir að kærandi hafði óskað eftir frekari rökstuðningi hafi honum verið sent bréf, dags. 25. nóvember 2022, þar sem synjunin hafi verið ítrekuð. Þar hafi fimm ára reglan verið tilgreind, enda komi hún í veg fyrir að kæranda sé aftur veitt uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar.
Við vinnslu greinargerðarinnar hafi læknateymi Tryggingastofnunar farið vandlega yfir hið læknisfræðilega mat sem hafi legið til grundvallar synjun á því að heimfæra ástand kæranda undir 7. gr. og niðurstaða hafi verið sú að rétt væri að standa við fyrri ákvörðun.
Varðandi uppbót til kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, hafi þeirri uppbót verið synjað á grundvelli fimm ára reglunnar, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar, þar sem kærandi hafi fengið slíka uppbót 9. nóvember 2021. Varðandi styrk til kaupa á bifreið samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar, hafi þeirri uppbót verið synjað á þeim grundvelli að samkvæmt læknisfræðilegu mati sérfræðinga Tryggingastofnunar hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins.
Eins og komi fram hér að framan sé heimilt „að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynlegt er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður.“ Ítrekað sé að ákvæðið geri strangari kröfur til alvarleika hreyfihömlunar en sú hreyfihömlun sem sé skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar. Hreyfihömlunin verði að vera veruleg og viðmiðið ráðist af þeim dæmum sem séu nefnd, nánar til tekið að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri.
Í læknisvottorði, dags. 26. september 2022, segi að kærandi hafi verið aflimaður fyrir neðan hné á vinstri fæti fyrir X árum og að hann hafi gengið með gervifót síðan. Síðan segi að kærandi hafi fengið nýjan gervifót nokkrum vikum fyrir vottorðið og að illa hafi gengið að aðlagast honum, hann sé kominn með tvö sár á stúfinn sem grói illa og að kærandi bíði eftir frekara mati á sáradeildinni. Göngugeta kæranda hafi verið metin um 20 metrar, án hjálpartækja, á þeim tíma þegar sú skoðun hafi verið framkvæmd.
Læknateymi Tryggingastofnunar hafi byggt synjun sína þann 8. október 2022 á því að stutt væri síðan kærandi hafi fengið nýjan gervifót og að hann biði eftir frekara mati á sáradeildinni. Þannig væri um tímabundið ástand að ræða og ekki útséð um hvernig ásigkomulag kæranda verði þegar hann hafi notast við gervifótinn lengur og ef til vill aðlagast honum betur, enda taki slíkt stundum tíma.
Þó að kærandi sé hreyfihamlaður í skilningi 6. gr. reglugerðarinnar, meðal annars vegna skertrar göngugetu (undir 400 metrum), sé skilyrði 7. gr. strangara og hreyfihömlun verði að vera veruleg. Að auki verði að meta tímabil verulegrar hreyfihömlunar, þ.e. hvort einungis sé um tímabundið ástand að ræða eða hvort veruleg hreyfihömlun sé langvarandi.
Í læknisvottorði, dags. 14. nóvember 2022, segi að kærandi hafi ekki getað gengið á gervifætinum síðan í mars 2022, að orsökin sé óljós og að ekki hafi tekist að laga ástandið. Í vottorðinu segi að á tíma vottorðsins hafi göngugeta, án hjálpartækja, verið um 40 metrar, en með hækjum komist kærandi um það bil einn kílómetra í rólegheitum. Þá sé tekið fram að kærandi sé með rafmagnshjólastól.
Læknateymi Tryggingastofnunar hafi talið að nýja vottorðið breytti ekki niðurstöðunni og hafi ítrekað synjunina á þeim grundvelli að kærandi væri með ganglim sem verið væri að meðhöndla og því hafi virst sem ekki væri um varanlegt ástand að ræða þannig að kærandi þyrfti að nota hjólastól til framtíðar.
Í læknisvottorðinu sé hakað við að kærandi noti hjálpartæki að staðaldri, nánar tiltekið hjólastól, og í lýsingu á sjúkdómsástandi segi: „Er einnig með rafmagnshjólastól.“ Upplýsingar varðandi þetta atriði í fyrra vottorði hafi verið sams konar. Í þessu sambandi beri þó að taka fram að sérfræðingar Tryggingastofnunar verði að leggja heildstætt mat á ásigkomulag viðkomandi og einfalt hak í læknisvottorði um að umsækjandi noti hjólastól nægi ekki eitt og sér til að skilyrði 7. gr. teljist uppfyllt. Bent sé á að það sé ekki skilyrði að umsækjandi sé í hjólastól eða með tvær hækjur að staðaldri, heldur sé slíkt einungis nefnt í dæmaskyni. En eins og áður hafi komið fram búi dæmin þó til viðmið varðandi alvarleika þeirrar hreyfihömlunar sem þurfi að vera fyrir hendi.
Læknisfræðilegt mat sérfræðinga Tryggingastofnunar grundvallist ekki síst á eðli þess vanda sem kærandi glími við, hreyfihömlunarvanda vegna nýs gervilims. Slík tilvik séu þess eðlis að óþægindi fylgi oft tímabundið, sem skerði hreyfigetu, en ásigkomulag sé líklegt til að batna með tímanum, ekki síst ef endurhæfingu sé sinnt.
Af þessum sökum telji læknateymi Tryggingastofnunar að ekki sé tímabært að veita kæranda styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðar 905/2021.
Tryggingastofnun leggi áherslu á að hvert mál sé metið sjálfstætt og skoðað út frá fyrirliggjandi gögnum og metið í samræmi við gildandi reglur. Einnig sé rétt að árétta að í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, beri stofnuninni skylda til að gæta þess að sambærileg mál njóti sambærilegrar meðferðar og því líta sérfræðingar stofnunarinnar í hvívetna til úrlausnar í fyrri málum af sama toga, til þess að jafnræðis og sanngirni sé gætt.
Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan á umsókn kæranda sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum. Farið sé fram á staðfestingu á kærðri ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa.
Lagaheimild fyrir veitingu styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 3. mgr. 10. gr. segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi máta:
„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“
Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa að fyrir liggi mat sem staðfesti hreyfihömlun.
Í 7. gr. reglugerðarinnar er að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Svohljóðandi er 1. mgr. þeirrar greinar:
„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.“
Í 9. gr. eru sérstök ákvæði sem fjalla um versnandi sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
„Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.“
Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins samþykkti 9. nóvember 2021 greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 905//2021. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 vegna versnunar á sjúkdómsástandi hans, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Til skoðunar kemur hvort skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður sé horft til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum sé þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað átt sé við með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir hins vegar af orðalagi reglugerðarákvæðisins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.
Einnig kemur til skoðunar hvort ástand kæranda sé tímabundið eða langvarandi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af framangreindum skilgreiningum á líkamlegri hreyfihömlun í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 og verulegri hreyfihömlun í 1. mgr. 7. gr. að það sé skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa að veruleg hreyfihömlun sé langvarandi.
Við mat á því hvort skilyrði fyrir greiðslum sé uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 14. nóvember 2022, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:
„Acquired absence of leg at or below knee
Phantom limb syndrome with pain“
Í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í læknisvottorðinu:
„A var aflimaður fyrir neðan hné á vinstri fæti fyrir X árum og hefur gengið með gervifót síðan. Hefur nú ekki getað gengið á gervifætinum síðan í mars 2022, orsökin er óljós og ekki tekist að koma fyrir það.
Göngugeta í dag án hjálpartæka er um 40 m. Með hækjum kemst hann sirka 1km í rólegheitunum. Er einnig með rafmagnshjólastól.“
Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að hún verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Merkt er við að kærandi noti hjólastól. Í mati á batahorfum kæranda segir í vottorðinu:
„Erfitt að meta“
Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 26. september 2022, sem er að mestu samhljóða framangreindu læknisvottorði B ef frá er talin lýsing á sjúkdómsástandi:
„A var aflimaður fyrir neðan hné á vinstra fæti fyrir X árum og hefur gengið með gervifót síðan. Hann fékk nýjan fót fyrir nokkrum vikum og hefur gengið illa að aðlagast honum og er kominn með 2 sár á stúfinn sem gengur illa að græða. Er á bið eftir frekara mati á sáradeildinni.
Göngugeta í dag án hjálpartækja er um 20 m. Með hækjum kemst hann sirka 1km í rólegheitunum. Er einnig með rafmagnshjólastól.“
Með bréfi, dags. 13. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari rökstuðningi fyrir því mati lækna kæranda að göngugeta hans yrði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Í læknisvottorði B, dags. 17. mars 2023, segir:
„A var aflimaður fyrir neðan hné á vinstra fæti fyrir X árum og hefur gengið með gervifót síðan. Hefur nú ekki getað gengið á gervifætinum síðan í mars 2022, orsökin er óljós og ekki tekist að koma í veg fyrir það.
Göngugeta í dag án hjálpartækja er um 40m. Með hækjum kemst hann sirka 1km í rólegheitum. Er einnig með rafmagnshjólastól.“
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi aflimaður fyrir neðan hné á vinstra fæti fyrir X árum og hefur gengið með gervifót síðan. Kærandi fékk nýjan gervifót í mars 2022 en illa hefur gengið að aðlagast honum. Orsökin er óljós. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að ráðið verði af gögnum málsins að hreyfihömlun kæranda hafi versnað frá því að hann fékk samþykkta uppbót til bifreiðakaupa 9. nóvember 2021. Versnunina er að rekja til þess að illa hefur tekist að aðlagast nýjum gervifæti. Ljóst er að göngugeta kæranda er verulega skert og að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er hann hreyfihamlaður til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Sökum þess hve lengi þetta ástand hefur varað og engin úrlausn virðist enn vera fyrir hendi, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um verulega hreyfihömlun.
Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. nóvember 2022 á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um styrk til kaupa á bifreið, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_______________________________________
Rakel Þorsteinsdóttir