Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

747/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Úrskurður

Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 747/2018 í máli ÚNU 17080003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 24. ágúst 2017, kærði A ákvörðun Matvælastofnunar („MAST“) um synjun á beiðni um aðgang að upplýsingum um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Með beiðni, þann 18. maí 2017, var farið fram á aðgang að tilteknum gögnum er varða greiðslur og landnýtingu í tengslum við búvörusamning. Kærandi afmarkaði beiðni sína frekar með bréfi, dags. 30. júní 2017, en ákvörðun MAST barst kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 2017.

Í kæru kemur fram að MAST hafi orðið við beiðni um yfirlit um fjölda sauðfjárbúa, stærð þeirra og sveitarfélög. Hins vegar hafi MAST ekki orðið við beiðni um nöfn búanna. Upplýsingar um heildargreiðslur samkvæmt búvörusamningi fyrir árin 2015 og 2016 hafi ekki verið sendar og sagt að þær væru ekki aðgengilegar. Þá hafi kærandi óskað upplýsinga um hvort bú uppfylltu landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt en stofnunin hafi ekki afhent slíkan lista. MAST hafi hafnað beiðni um afrit af landbótaáætlunum á grundvelli einkahagsmuna framleiðendanna nema máð væru út nöfn búanna og fjölda fjár á þeim.

Kærandi er ósammála forsendum MAST fyrir ákvörðuninni. Að baki beiðninni búi hagsmunir sem njóti lagaverndar samkvæmt lögum nr. 23/2006. Lagaskylda hvíli á MAST til að afla umbeðinna gagna, sbr. reglugerð nr. 1160/2013. Kærandi hafnar því að þau séu ekki aðgengileg en ef svo myndi reynast væri MAST skylt að benda á þann aðila sem hefði þær. Ekki geti verið um viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni framleiðenda sauðfjár að ræða, enda sé ekki um samkeppnissvið að ræða auk þess sem málið varði skilyrði þess að fá álagsgreiðslur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Meðal skilyrðanna séu mikilvægir þættir er varði umhverfið; beitarþol, ástand landsins, landnýtingu og landbætur. Kærandi vísar til tilskipunar 2003/4/EB og segir engar undantekningarheimildir hennar eiga við um umbeðnar upplýsingar.

Loks bendir kærandi á að MAST hafi ekki haft lagaheimild til að krefja hann upplýsinga um tilgang beiðninnar eða sýna fram á hagsmuni sína af aðgangi að gögnunum. Einungis hefði verið unnt að krefjast þannig rökstuðnings ef um væri að ræða rannsóknargögn skv. 33. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. MAST virðist hafa beint málsmeðferðinni í heild í þann farveg er VIII. kafli laganna fjallar um. Ekki hafi hins vegar verið tilefni til að leggja þann skilning í beiðnina að hún varðaði gögn sem undanþegin væru almennum upplýsingarétti. Kærandi óskar hins vegar eftir því að úrskurðarnefndin fjalli um hvort lögmætt hafi verið að hafna því að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum sem rannsakanda í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012, að því leyti sem þau kynnu að vera undanþegin almennum upplýsingarétti.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt MAST með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Umsögn stofnunarinnar barst þann 20. september 2017. Þar kemur fram að kærandi hafi óskað aðgangs að tilteknum gögnum varðandi framkvæmd búvörusamninga og gæðastýringar í sauðfjárrækt þann 18. maí 2017. Óskin hafi byggst á VIII. kafla upplýsingalaga og kæranda hafi því verið bent á að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna skyldi upplýst í hvaða tilgangi væri óskað eftir slíkum aðgangi. Kærandi hafi ekki svarað en þess í stað sent nýtt erindi, dags. 30. júní 2017, þar sem óskað hafi verið eftir sama aðgangi án þess að um rannsóknir væri að ræða. Kærandi hafi jafnframt tekið fram að hann liti svo á að hann væri aðili máls í ljósi stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun hafnaði MAST því að kærandi teldist aðili máls. Beiðnin hafi því verið afgreidd á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga en höfð hliðsjón af lögum um upplýsingarétt um umhverfismál.

MAST víkur næst að beiðni kæranda sem var í fimm liðum. Varðandi fyrsta liðinn segir MAST að þar sem kærandi hafi sagst ætla að kanna aðgengi að gögnunum hjá Byggðastofnun hafi stofnunin litið svo á að kærandi hafi hætt við að krefja hana um þau. Þó hafi verið ákveðið að senda kæranda skýrslu Byggðastofnunar um dreifingu sauðfjár og fjölda sauðfjár eftir sveitarfélögum samkvæmt haustskýrslum bænda árin 2015 og 2016. MAST telur rétt að geta þess að stofnunin hafi fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda fjár, flokkaðar eftir nöfnum búa, sbr. IV. kafla laga nr. 38/2014 um búfjárhald. MAST og Hagstofu Íslands sé heimilt að nota upplýsingarnar og öðrum opinberum aðilum og leiðbeiningarmiðstöð skv. 1. gr. laga nr. 70/1998 sé heimilt að nota þær að fengnu leyfi MAST.

Um annan liðinn kemur fram að kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um heildargreiðslur til búa, hvers fyrir sig, samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt árið 2015 eða 2016, eftir því hvað væri aðgengilegast. Kærandi hafi verið upplýstur um að þessar upplýsingar væru ekki aðgengilegar þar sem flokka þyrfti og forrita hverja greiðslutegund fyrir sig eftir búsnúmerum til að geta orðið við beiðninni. Ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn þegar beiðni bærist um aðgang að ákveðnum gögnum. Stofnunin hafi hins vegar sent upplýsingar úr nýrri ársskýrslu um heildargreiðslur til allra búa vegna framleiðslu í gæðastýringu auk upplýsinga um greiðslumark og beingreiðslur.

Undir þriðja lið beiðni kæranda var óskað eftir upplýsingum um hvort framleiðsla stæðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar fyrir fjárflestu búin. MAST kveðst hafa afhent lista yfir fjölda búa sem uppfylltu ákvæðið, flokkuð eftir sveitarfélögum. Öll bú í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar.

MAST afgreiddi fjórða lið beiðninnar, um aðgang að landbótaáætlunum fyrir umrædd bú, þannig að þær voru afhentar með útstrikunum þar sem strikað var yfir nafn og kennitölu framleiðanda og einnig upplýsingar um fjölda fjár á einstökum búum. Tekið var fram að takmörkunin byggðist á 9. gr. upplýsingalaga, en í umsögn MAST kemur fram að sum bú séu rekin á persónulegri kennitölu bóndans. Að áliti MAST sé stofnuninni ekki heimilt að upplýsa um fjölda fjár á einstökum lögbýlum þar sem um sé að ræða einkamálefni hlutaðeigandi bónda sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari og teljist sömuleiðis varða mikilvæga fjárhagsmuni ef stofnað hafi verið félag um búreksturinn. Við nánari yfirferð sé það hins vegar skoðun MAST að kærandi eigi rétt á aðild að nöfnum aðilanna en ekki kennitölum þeirra eða fjölda fjár. Úrskurðarnefndin hafi áður kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt að veita aðgang að upplýsingum um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi styrkja eða óafturkræfra framlaga. Stofnunin telur að þótt kærandi eigi rétt á upplýsingum um grundvöll styrkjanna nái sá réttur ekki til upplýsinga um búfjáreign framleiðenda. Þeir séu skyldaðir til að veita MAST upplýsingar um búfjáreign sína á hverju hausti. Þær upplýsingar tengist grundvelli beingreiðslna með þeim hætti að til þess að fá óskertar beingreiðslur þurfi framleiðandi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Grundvöllur gæðastýringarálags skv. reglugerð nr. 1160/2013 sé að framleiðendur uppfylli skyldur sínar samkvæmt III. og IV. kafla reglugerðarinnar og álag sé greitt á innlögn framleiðenda í sláturhús. Sauðfjáreign þurfi því ekki að haldast í hendur við greiðslumark. Upplýsingar um eignir einstaklinga og fyrirtækja, þ.m.t. búfjáreign, verði ekki veittar á grundvelli upplýsingalaga nema annað komi til, svo sem að þær tengist með beinum hætti úthlutun fjár úr opinberum sjóðum.

Um fimmta lið beiðni kæranda kemur fram að kærandi hafi óskað eftir aðgangi að landbótaáætlunum varðandi afrétti og sameiginlega haga þar sem margir bæir reki fé á sameiginlegt haglendi. Stofnunin hafi svarað því á sama veg og fjórða lið.

Umsögn MAST var kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. september 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þær bárust með bréfi, dags. 23. september 2017. Þar hafnar kærandi því að MAST hafi verið óskylt að veita honum aðgang að gögnum þrátt fyrir að hann hafi sagst myndu biðja Byggðastofnun um þau, enda sé stjórnvaldi skylt að veita upplýsingar án skilyrða og leiðbeina ólöglærðum. Kærandi hafnar því jafnframt að ekki liggi fyrir hjá MAST eða öðrum aðila í skilningi laga nr. 23/2006 upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús, enda sé það skylda MAST að halda utan um greiðslurnar. Kærandi bendir á að honum hafi ekki verið veittar upplýsingar um hvert þeirra fjárflestu búa sem uppfylltu skilyrði gæðastýringar, þrátt fyrir það sem segi í andmælum MAST. Fjöldi búa í hverju sveitarfélagi svari ekki fyrirspurninni.

Kærandi mótmælir því að fjöldi fjár á búi og nafn bús geti talist til einkamálefna með hliðsjón af því að um sé að ræða úthlutun skattfjár almennings. Ekki sé farið fram á kennitölur. Þá telur kærandi réttmætt af MAST að afhenda upplýsingar um afnot af afréttum og sameiginlegum högum. Loks ítrekar kærandi þau sjónarmið sem reifuð eru í kæru.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Þá hefur meðferð málsins dregist óhæfilega vegna anna í störfum nefndarinnar.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum í vörslum MAST og lúta að eftirliti stofnunarinnar með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu, nánar tiltekið:
  1. Nöfnum og staðsetningu allra býla eða framleiðslueininga í sauðfjárframleiðslu sem hljóta greiðslur samkvæmt búvörusamningum, sundurliðað eftir ærgildum.
  2. Upplýsingum um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt fyrir árið 2015 eða 2016.
  3. Upplýsingum um hvort framleiðslan standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar árið 2015 eða 2016.
  4. Landbótaáætlunum fyrir búin vegna gæðastýringar.
  5. Landbótaáætlunum sem varða afrétti og sameiginlega haga þar sem margir bæir reka á sameiginlegt haglendi.
Kærandi hefur fengið aðgang að gögnum sem tengjast beiðninni en um önnur hefur komið fram af hálfu MAST að þau séu ýmist ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni eða fjalli um einkahagsmuni eigenda viðkomandi fjárbúa.

Kærandi hefur vísað til þess að umbeðin gögn teljist til upplýsinga um umhverfismál og fari því um rétt hans til aðgangs að þeim samkvæmt ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006. Í 3. gr. laganna segir að með upplýsingum um umhverfismál sé átt við hvers kyns upplýsingar í rituðu, sjónrænu, heyranlegu, rafrænu eða einhverju efnislegu formi um:
  1. ástand afmarkaðra þátta umhverfisins, svo sem andrúmslofts og lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands, landslags og náttúruminja, þ.m.t. votlendis og strand- og hafsvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og þátta hennar, þ.m.t. erfðabreyttra lífvera, og samspil milli þessara þátta,
  2. þætti á borð við efni, orku, hávaða, geislun eða úrgang, þ.m.t. geislavirkan úrgang og losun hvers kyns efna og þátta út í umhverfið sem hafa áhrif á eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti í umhverfinu sem um getur í 1. tölul.,
  3. ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul., auk kostnaðar- og ábatagreiningar eða annars konar hagkvæmnigreiningar sem notuð er í tengslum við ákvarðanir um slíkar ráðstafanir,
  4. ástandið að því er varðar heilbrigði manna og öryggi, þ.m.t. mengun í fæðukeðjunni, lífsskilyrði fólks, menningarminjar og mannvirki að svo miklu leyti sem þau verða eða líklegt er að þau verði fyrir áhrifum vegna ástands þeirra umhverfisþátta sem um getur í 1. tölul. eða vegna þeirra atriða sem um getur í 2. tölul.
Að mati úrskurðarnefndarinnar falla upplýsingar um landbótaáætlanir og nýtingu beitarlands augljóslega undir 1.-3. tl. ákvæðisins og eiga lög nr. 23/2006 því við um síðustu þrjá liði beiðni kæranda. Sama verður ekki sagt um fyrstu tvo liðina, en þeir lúta fyrst og fremst að greiðslum úr ríkissjóði til fjárbúa. Um rétt kæranda til aðgangs að slíkum upplýsingum fer eftir upplýsingalögum nr. 140/2012 og hefur kærandi sérstaklega tekið fram að beiðnin sé sett fram á grundvelli upplýsingaréttar almennings, sbr. 5. gr. laganna, en ekki ákvæða laganna um aðgang að gögnum í rannsóknarskyni, sbr. VIII. kafla laganna. Verður fjallað um rétt kæranda til aðgangs að gögnum undir hverjum lið beiðninnar hér á eftir.

2.

Af hálfu MAST hefur komið fram að stofnunin hafi litið svo á að þar sem kærandi hafi sagst ætla að kanna aðgengi að gögnum undir fyrsta lið beiðnarinnar hjá Byggðastofnun hafi hann hætt við að óska aðgangs að þeim hjá MAST. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að kærandi hafi fallið frá beiðni sinni að þessu leyti. Upplýsingaréttur almennings er ekki takmarkaður við að leita upplýsinga hjá einu stjórnvaldi í einu og getur beiðandi haft réttmætar ástæður fyrir því að bera saman upplýsingar í vörslum tveggja eða fleiri opinberra aðila.

Stjórnvöldum sem hafa til meðferðar beiðni um aðgang að upplýsingum ber að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að þeim með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Þar sem þessi hluti beiðni kæranda hefur ekki fengið þá efnislegu meðferð sem upplýsingalög áskilja verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir MAST að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

3.

MAST hefur vísað til þess að upplýsingar undir öðrum lið beiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Til að geta orðið við beiðninni þurfi að „flokka og forrita“ hverja greiðslutegund fyrir sig eftir búsnúmerum til að geta orðið við beiðninni, en upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig séu ekki aðgengilegar.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að MAST hafi yfir upplýsingum að ráða um greiðslur til hvers bús, sundurliðuðum eftir tegund greiðslnanna, en hafi ekki tekið þær saman í heildargreiðslur sem hvert bú fær. MAST hefur bent á að stofnuninni sé ekki skylt að taka saman upplýsingar í vörslum sínum eða búa til ný skjöl úr þeim en hins vegar virðist stofnunin ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að upplýsingum um þær einstöku greiðslur sem mynda heildartölurnar. Það getur ekki komið í veg fyrir rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um greiðslur úr opinberum sjóðum að aðili sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga hafi ekki lagt þær sérstaklega saman. Við meðferð beiðni kæranda bar MAST að bera kennsl á öll gögn í vörslum stofnunarinnar sem svarað geta þeim spurningum sem kærandi setti fram og taka svo afstöðu til réttar hans til aðgangs að þeim. Þar sem stofnunin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim upplýsingum um greiðslur til sauðfjárbúa sem eru í vörslum stofnunarinnar, eftir atvikum aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir MAST að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

4.

Undir þriðja lið beiðni kæranda var óskað eftir upplýsingum um það hvort framleiðslan hefði staðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar sauðfjárframleiðslu. Af hálfu MAST hefur komið fram að öll búin hafi staðist þennan þátt gæðastýringarinnar en hins vegar afhenti stofnunin honum einungis upplýsingar um fjölda búa eftir sveitarfélögum. Enda þótt upphafleg beiðni kæranda hafi ekki verið að öllu leyti skýr um það hvaða upplýsingum hann sóttist eftir verður að líta til þess að MAST veitti honum tækifæri til að afmarka beiðnina nánar með bréfi, dags. 7. júní 2017. Í svari kæranda, dags. 30. júní 2017, segir skýrlega að spurningin lúti að því hvort tiltekin bú hafi staðist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar, þ.e. fjárflestu búin.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að beiðni kæranda laut ekki eingöngu að fjölda þeirra búa sem stóðust þennan þátt gæðastýringar, heldur verður að skilja hana sem svo að óskað hafi verið nánari tilgreiningar á búunum. Af hálfu MAST hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt á nöfnum þeirra búa sem stóðust ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringar sauðfjárframleiðslu og verður því einnig að leggja fyrir stofnunina að taka þennan hluta beiðninnar til nýrrar meðferðar.

5.

Fjórði og fimmti liður beiðni kæranda taka til landbótaáætlanna sem eigendur einstakra búa hafa sent MAST vegna gæðastýringar sauðfjárframleiðslu, sbr. 2. mgr. 41. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Stofnunin afhenti kæranda afrit af áætlununum en afmáðar höfðu verið upplýsingar um nöfn búanna, kennitölur þeirra og fjölda fjár á búunum. Í umsögn MAST segir að við nánari skoðun hafi verið ákveðið að veita kæranda aðgang að nöfnum búanna og af hálfu kæranda hefur komið fram að hann sækist ekki eftir aðgangi að kennitölum þeirra.

Eftir stendur því að taka afstöðu til réttar hans til aðgangs að upplýsingum um fjölda fjár á hverju búi, en synjun stofnunarinnar um það atriði byggðist á því að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni viðkomandi bónda sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færu, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2006. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir orðrétt:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað landbótaáætlanirnar með hliðsjón af þessum sjónarmiðum andspænis hagsmunum almennings af því að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um aðbúnað dýra og áhrif dýrahalds á umhverfið, sbr. 1. gr. upplýsingalaga og 1. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Í landbótaáætlunum er fjallað um sauðfjárhald búa og einstakra bænda með almennum hætti og beit dýranna í samhengi við gróðurfar og annað ástand lands, meðal annars með tilliti til þess hvort frekari landgræðslu sé þörf. Enda þótt upplýsingar um fjölda fjár á einstökum búum veiti nokkra vísbendingu um fjárhag búanna eða eigenda þeirra er ekki unnt að fallast á það með MAST að um sé að ræða atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu þeirra. Hér skiptir máli að ekki er beinlínis um samkeppnisrekstur að ræða þar sem mælt er fyrir um greiðslur til sauðfjárframleiðenda í sérstökum búvörusamningi. Þá er ekki að finna í áætlunum annars konar viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni manna, t.d. um meint brot gegn lögum um velferð dýra, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 691/2017. Er því að mati nefndarinnar engin hætta á því að búin eða bændurnir verði fyrir tjóni þótt almenningi verði veittur aðgangur að upplýsingum um fjölda fjár sem þeir halda.

Með hliðsjón af framangreindu verða hagsmunir kæranda af aðgangi að upplýsingum um fjölda dýra í hinum umbeðnu landbótaáætlunum taldir vega þyngra en hagsmunir þeirra sauðfjárframleiðenda sem koma fyrir í hinum áætlunum af því að upplýsingarnar fari leynt. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir MAST að veita kæranda aðgang að landbótaáætlununum án útstrikana.

Úrskurðarorð:

Matvælastofnun ber að veita kæranda, A, aðgang að landbótaáætlunum sauðfjárbænda, sem kærandi hefur þegar fengið afhentar, án útstrikana.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti felld úr gildi og lagt fyrir Matvælastofnun að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar:
  1. Nöfn og staðsetningu allra býla eða framleiðslueininga í sauðfjárframleiðslu sem hljóta greiðslur samkvæmt búvörusamningum, sundurliðað eftir ærgildum.
  2. Upplýsingar um heildargreiðslur til hvers bús fyrir sig samkvæmt búvörusamningi fyrir sauðfjárrækt fyrir árið 2015 eða 2016.
  3. Upplýsingar um það hvort framleiðslan standist ákvæði landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar árið 2015 eða 2016.

Hafsteinn Þór Hauksson formaður

Sigurveig Jónsdóttir

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta