Félagsmálaráðherra heimsækir stofnanir ráðuneytisins
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hóf í dag að heimsækja stofnanir ráðuneytisins og byrjaði á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Stefán Hreiðarsson forstöðumaður tók á móti ráðherranum ásamt starfsfólki sínu og kynnti með ítarlegri greinargerð starfsemina, stöðu mála og framtíðarsýn stofnunarinnar.
„Ég er mjög ánægð með þessa heimsókn og þær nákvæmu upplýsingar sem ég fékk“, segir Jóhanna Sigurðardóttir. „Málefni barna og unglinga eru eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar og það á sérstaklega að vinna á biðlistum. Það er ljóst eftir fundinn í dag að skoða megi ýmsar leiðir til þess.“
Að loknum fundinum fór ráðherra um stofnunina, sem er til húsa að Digranesvegi 5 í Kópavogi, og heilsaði starfsfólki.
„Á Greiningarstöðinni starfar mjög hæft starfsfólk og oft við erfiðar aðstæður“, segir félagsmálaráðherra.
Greining og stuðningur
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er landsstofnun á vegum félagsmálaráðuneytis og þjónar fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra.
Á stofnuninni starfa um 50 manns úr hinum ýmsu stéttum sem koma að þjónustu við fatlaða.
Stofnunin starfar samkvæmt lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem voru samþykkt á Alþingi 13. mars 2003. Markmið laganna er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar, enn fremur að tryggja öflun, viðhald og miðlun fræðilegrar þekkingar á þessu sviði.
Greiningarstöðin þjónar fötluðum börnum og ungmennum á öllu landinu og er aðalhlutverk hennar athugun og greining ásamt ráðgjöf um þjálfun og meðferð. Stöðin gegnir því veigamiklu hlutverki í þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Alls er vísað til hennar rúmlega tvöhundrað börnum og ungmennum á ári hverju.
Greiningarstöðin sinnir ýmsum öðrum verkefnum, svo sem rannsóknum, skráningu og fræðslu. Henni ber að tryggja öflun, viðhald og dreifingu þekkingar á sviði fatlana barna. Hún er í tengslum við kennslu- og rannsóknarstofnanir, bæði innan lands og utan, í því skyni að starfsfólk hennar geti fylgst með og tileinkað sér þau vinnubrögð sem best þykja hverju sinni.