Frumvarp til breytinga á umferðarlögum
Frumvarp samgönguráðherra til breytinga á umferðarlögum var rætt á Alþingi síðastliðinn föstudag.
Frumvarpið snýr í megin atriðum að eftirfarandi atriðum:
1. Reglur um akstur og hvíld.
Frumvarpið skýtur styrkari lagastoðum undir úrræði til þess að framfylgja löggjöf um aksturs- og hvíldartímareglur, sem gilda um atvinnubílstjóra á stærri atvinnubifreiðum.
2. Eftirlit Vegagerðarinnar.
Hér er lagt til aukið, en einfaldara, eftirlit Vegagerðarinnar með akstri farmflutninga- og hópbifreiða. Rétt er að árétta að það er fyrst og fremst lögreglan sem fer með löggæslu í landinu. Engu að síður hefur þótt nauðsynlegt fram að þessu að frekara eftirlit en lögreglan getur sinnt fari fram með ýmsum þáttum er varðar umferðaröryggi og skattheimtu.
Í frumvarpinu er lagt til að eftirlit Vegagerðar verði gert markvissara í þágu umferðaröryggis þannig að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði jafnframt gert kleift að framkvæma ýmsar aðgerðir sem lögreglu var áður einni falið að framkvæma. Það þykir eðlileg ráðstöfun og hagkvæm að þegar á annað borð er búið að stöðva ökutæki þá séu allir þættir er varðar öryggi í umferðinni kannaðir en eftirlitið miði ekki einungis að afmörkuðum þáttum eins og nú er.
3. Stjórnun ökutækja undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Í frumvarpinu er lagt til að byggt verði undir heimildir laganna varðandi bann við stjórnun ökutækis undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Að þessu tilefni er sett fram það nýmæli í frumvarpinu að ökumanni sé skylt að láta í té munnvatnssýni, að kröfu lögreglu, þegar grunur leikur á að hann hafi gerst brotlegur við lög vegna neyslu ávana- og fíkniefna. Um er að ræða nýja tækni sem mun að öllum líkindum koma til með að hafa veruleg áhrif til aukins árangurs við rannsókn umferðarlagabrota af þessu tagi.
4. Gjaldtökuheimildir
Starf að umferðaröryggismálum hefur verið elft verulega síðastliðin tvö ár en það kallar á aukin fjárútlát. Miðað er við að þessu starfi verði haldið áfram. Mikilvægt er að þessu tilefni að eftirlit á vegum verði aukið, svo kölluðum ,,svartblettum" verði eytt, fræðsla í skólum verði efld og haldið upp öflugum áróðri. Þessir auknu fjármunir hafa komið frá öðrum liðum ráðuneytisins, þó einkum úr vegaáætlun. Allar vísbendingar eru í þá átt að slysum í umferðinni sé að fækka, sem eru góðar og uppörvandi fréttir fyrir okkur sem setja aukið umferðaröryggi í forgang. Eðlilegt þykir að skjóta styrkari stoðum undir öflugt umferðaröryggisstarf og tryggja fjármuni til þess til frambúðar. Lagt er til í frumvarpinu að fjárhæð umferðaröryggisgjalds verði hækkuð úr 200 kr. í 400 kr. til eflingar starfs umferðaröryggisáætlunar í umferðaröryggismálum. Þess má geta hér að í skýrslu, sem gerð var fyrir nokkrum árum af Vegagerðinni, Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu og Umferðarráði og fleiri aðilum var árlegur samfélagslegur kostnaður af völdum umferðarslysa metinn vera 15 – 20 milljarðar króna.
Framsöguræðu samgönguráðherra er aðgengileg á slóðinni:
/sam/radherra/raedur-og-greinar/nr/21847
Frumvarpið ásamt greinargerð er aðgengilegt á slóðinni: http://www.althing.is/altext/132/s/0735.html
Frumvarpinu var vísað til samgöngunefndar í kjölfar 1. umræðu á Alþingi.