Hoppa yfir valmynd
17. desember 2007 Forsætisráðuneytið

A 270/2007 Úrskurður frá 11. desember 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 11. desember 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-270/2007.

 

Kæruefni

Með kæru, dags. 18. október 2007, kærði [...] synjun Skeiða- og Gnúpverjahrepps á beiðni hans um upplýsingar um þá aðila sem greitt hefðu fasteignaskatt til sveitarfélagsins samkvæmt hærri gjaldstofni (svonefndum b-stofni).

Með bréfi, dags. 23. október 2007, var kæran kynnt Skeiða- og Gnúpverjahreppi og sveitarfélaginu veittur frestur til 2. nóvember 2007 til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úrskurðarnefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að.

Umsögn frá sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps barst nefndinni með bréfi, dags. 31. október 2007. Kom þar meðal annars fram að kærandi hefði, í framhaldi af fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2. október 2007, fengið yfirlit yfir það hvaða aðilar greiddu fasteignaskatt í sveitarfélaginu „samkvæmt hærri álagningarstofni og eiga lögheimil í Skeiða- og Gnúpverjahreppi“.

Kæranda var með bréfi, dags. 5. nóvember 2007, kynnt umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps og því lýst að af hálfu nefndarinnar væri ekki tilefni til aðhafast frekar í málinu nema hann teldi að honum hefði verið synjað um aðgang að einhverjum af umbeðnum gögnum.

Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 13. nóvember 2007. Kemur þar fram að kæra hans lúti að synjun Skeiða- og Gnúpverjahrepps á að afhenda honum staðfestar upplýsingar um hvaða aðilar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafi hlotið álagningu fasteignagjalda „samkvæmt b og c stofni síðustu fjögur ár, hvert ár sundurliðað“. Þessi gögn hafi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps neitað að láta af hendi.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum eru málavextir þeir að með tölvupósti 27. ágúst 2007 sendi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps kæranda ódagsett skjal þar sem fram kom listi með nöfnum þeirra aðila sem greiddu fasteignaskatt til sveitarfélagsins „samkvæmt B-stofni“ og áttu lögheimili í sveitarfélaginu. Einnig kom fram í skjalinu að álagningarprósenta fasteignaskatts á þessa aðila væri 1,45%. Aðilar með atvinnurekstur, en áttu ekki lögheimili í sveitarfélaginu, greiddu einnig 1,45% af fasteignum sínum en aðrir greiddu 0,6%. Með tölvupósti sveitarstjórans til kæranda 28. ágúst 2007 var einum aðila bætt við framangreindan lista.

Í bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 6. september 2007, er vísað til heimsóknar kæranda og munnlegra fyrirspurna hans og þess óskað að hann sendi erindi sín skriflega til sveitarfélagsins. Það gerði kærandi með bréfi, dags. 10. sama mánaðar. Lagði hann þar fram beiðni um aðgang að gögnum í fjórum töluliðum. Í tölulið nr. 2 kemur fram ósk kæranda um „[s]taðfestan lista af sveitarstjóra yfir þá aðila í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem flokkast hafa í B og C stofna fasteignagjalda síðustu fjögur ár, hvert ár sundurliðað“.

Svar sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps barst kæranda með bréfi, dags. 4. október 2007. Kemur þar fram að erindi hans hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2. október 2007. Vegna framangreindrar beiðni um aðgang að lista yfir þá sem „flokkast hafa í B og C stofna fasteignagjalda“ segir í bréfi sveitarstjórans að slíkur listi hafi ekki verið tekinn saman og verði það ekki gert.

 

Niðurstaða

Kærandi hefur afmarkað kæru sína við synjun Skeiða- og Gnúpverjahrepps á beiðni hans um aðgang að lista, staðfestum af sveitarstjóra, „yfir þá aðila í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem flokkast hafa í B og C stofna fasteignagjalda síðustu fjögur ár, hvert ár sundurliðað.“ Af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er vísað til þess að kærandi hafi fengið afhentan lista þar sem fram kemur hvaða aðilar greiði samkvæmt hærri álagningarstofni og eigi lögheimili í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Af gögnum málsins verður ráðið að á þeim lista komi fram hver var álaging á umrædda aðila vegna fasteignaskatts árið 2007. Jafnframt hefur komið fram af hálfu sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps að listi sá sem beiðni kæranda lúti að hafi ekki verið tekinn saman og að ekki sé fyrirhugað að gera það.
Af ákvæðum 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, og 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. leiðir að sá sem óskar eftir upplýsingum hjá stjórnvöldum getur afmarkað beiðni sína við tiltekin gögn er mál varða eða öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn málsins. Synji stjórnvald um aðgang að gögnum samkvæmt framansögðu er heimilt að bera synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Skýring úrskurðarnefndarinnar á þessum ákvæðum laganna, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-181/2004, A-239/2007 og A-243/2007, er sú að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað.
Af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er á því byggt að sá listi sem beiðni kæranda lýtur að hafi ekki verið tekinn saman. Samkvæmt framangreindu ræðst niðurstaða máls þessa af því hvort umbeðnar upplýsingar sé að finna í tilteknu skjali eða skjölum tiltekins máls. Þegar það er virt hvernig kærandi hefur afmarkað beiðni sína og að ekkert er komið fram, sem leiðir líkur að því að draga megi í efa framangreindar fullyrðingar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að sá listi sem beiðni kæranda lýtur að hafi ekki verið tekinn saman og sé því ekki fyrir hendi hjá sveitarfélaginu, er óhjákvæmilegt annað en að staðfesta synjun sveitarfélagsins á beiðni um lista, sem ekki er að finna í vörslu þess. Af þessari niðurstöðu leiðir ennfremur að ekki kemur til athugunar úrskurðarnefndar hvort upplýsingaréttur kæranda sæti takmörkunum samkvæmt 4.-6. gr. upplýsinga¬laga, s.s. á grundvelli þess að um sé að ræða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sbr. 5. gr. laganna.

 


Úrskurðarorð


Staðfest er ákvörðun Skeiða- og Gnúpverjahrepps, frá 4. október 2007, um að synja kæranda, [...], um aðgang að gögnum sem ekki er að finna í vörslu þess.

 

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

                                                Sigurveig Jónsdóttir                                     Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta