Viðhorfs- og aðstöðumunur íbúðaeigenda og leigjenda
Tvær viðamiklar kannanir á húsnæðismálum sem varpa ljósi á stöðu leigjenda og íbúðaeigenda sýna mikla þörf fyrir aukið framboð leiguhúsnæðis hér á landi. Niðurstöðurnar sýna einnig viðhorfs- og aðstöðumun í mörgum efnum eftir því hvort um eigendur eða leigjendur er að ræða.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti niðurstöður þessara kannana á opnum fundi á Grand hótel í morgun sem velferðarráðuneytið stóð fyrir. Á annað hundrað manns sóttu fundinn.
Könnunin meðal leigjenda sýnir að leiga nemur að meðaltali um 42% af ráðstöfunartekjum heimilis. Um 12% leigjenda greiða leigu sem er innan við 25% af ráðstöfunartekjum heimilisins en það er það markmið sem sett er fram í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um almennar félagsíbúðir.
Um 90% leigjenda og svipað hlutfall íbúðaeigenda telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði hér á landi um þessar mundir og rúmlega 80% aðspurðra í báðum hópum telja of lítið framboð af hentugu íbúðarhúsnæði til leigu.
Úrtak í könnununum sem Gallup framkvæmdi voru leigjendur/eigendur húsnæðis 18 ára og eldri af öllu landinu úr Þjóðskrá og viðhorfahópi Gallup. Könnunin var lögð fyrir í tveimur hlutum, samtals voru lagðar fyrir rúmlega 260 spurningar og var framkvæmdatíminn 19. nóvember til 9. desember 2015.