Íbúar æðrulausir á öskufallssvæðum
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heimsóttu í dag byggðir í Skaftárhreppi og víðar ásamt nokkrum samstarfsmönnum til að kynna sér áhrif öskufalls þar um slóðir . Ögmundur sagði eftir heimsóknina að áhrifin væru alvarleg en að íbúar væri æðrulausir og biðu þess að ástandið lagaðist.
Ásamt ráðherrunum voru einnig Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli. Ráðherrarnir funduðu í upphafi á Hellu með almannavarnanefnd Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu þar sem farið var yfir stöðuna á því svæði þar sem aska úr Grímsvatnagosinu hefur fallið.
Kom meðal annars fram hjá Víði Reynissyni, deildarstjóra hjá Almannavörnum, að næstu daga yrði safnað upplýsingum um ástandið á búfénaði bænda, um vatns- og veitumál, samgöngumál og orkumál, svo og um heilbrigðismál sem lögð yrði fyrir ríkisstjórn á föstudag.
Á myndinni hér að ofan má sjá að varla sést móta fyrir Systrastapa frá Hringveginum við Kirkjubæjarklaustur.
Síðan var hliðstæður fundur á Kirkjubæjarklaustri en mikið öskumistur var yfir byggðum þar og á leiðinni um Mýrdalssand. Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, sagði enga hafa orðið fyrir meiðslum í þessu ástandi og ástandið væri að ýmsu leyti betra en menn hefðu haldið. Meðan öskufall eða öskumistur væri yfir byggðum yrðu menn að bíða átekta og sjá hver áhrifin yrðu á menn og skepnur en nokkuð hefur verið um að fé hafi drepist vegna öskunnar.
Ráðherrarnir þökkuðu almannavarna- og björgunarliði fyrir vel unnin störf og sagði Ögmundur Jónasson greinilegt að vinnubrögðin væru vel samhæfð og skipulögð. Vel væri fylgst með ástandi hjá bændum og öðrum íbúum og aðstoð veitt eftir því sem þyrfti. Ögmundur sagði tilgang ferðarinnar fyrst og fremst þann að ráðherrarnir kynntu sér ástandið og áhrifin sem gosið og öskufallið hefur haft.
Að loknum fundinum var dvalar- og hjúkrunarheimilið á Klaustri heimsótt og rætt við nokkra heimilismenn og síðan var farið að Hunkubökkum og rætt við bændurna Jóhönnu Jónsdóttur og Pálma Harðarson sem eru með fjárbú og reka ferðaþjónustu. Þar er allt féð borið og ekki hafa orðið nein vanhöld á fénu vegna öskufallsins.
Málin rædd í eldhúsinu á Hunkubökkum. Við borðið sitja húsfreyjan, Jóhanna Jónsdóttir, Haraldur Johannesen og Ögmundur Jónasson og aftar standa þeir Pálmi Harðarson bóndi og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.