Ráðgjafateymi fyrir nauðungarvistaða einstaklinga
Innanríkisráðneytið hyggst ráða fjóra ráðgjafa til að annast ráðgjöf við nauðungarvistaða einstaklinga á sjúkrahúsi. Einn þeirra yrði tilgreindur sem verkefnisstjóri. Frestur til að sækja um er til 26. ágúst næstkomandi. Sjá nánari upplýsingar í auglýsingu hér að neðan.
Innanríkisráðuneytið óskar eftir að gera samning við teymi ráðgjafa til að sjá um ráðgjöf á höfuðborgarsvæðinu við nauðungarvistaða einstaklinga á sjúkrahúsi, sbr. 27. gr. og 3. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í ráðgjöfinni felst m.a. upplýsingagjöf, hagsmunagæsla, ráðgjöf og stuðningur við viðkomandi um hvaðeina er varðar nauðungarvistunina allt til loka hennar. Um er að ræða innkaup á þjónustu samkvæmt II. viðauka B tilskipunar um opinber innkaup sem birt er í frumvarpi með lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 (flokkur 25 – heilbrigðis- og félagsþjónusta).
Ráðgert er að í teyminu verði fjórir ráðgjafar, tveir af hvoru kyni, sem ekki starfa á sjúkrahúsi. Ráðuneytið tilgreinir einn teymisstjóra sem ber ábyrgð á skipulagi teymisins, skiptingu á vöktum og samskiptum við ráðuneytið. Ráðuneytið velur í teymið úr hópi umsækjenda með það að markmiði að mynda sérhæft teymi fagaðila með þverfaglega menntun og reynslu.
Greiður aðgangur þarf að vera að ráðgjafa þannig að tryggt sé að hægt sé að ná í hann alla daga ársins. Með símavakt ráðgjafateymis skal tryggja að viðtal við skjólstæðing hefjist innan 12 klukkustunda eftir að vakthafandi læknir hefur haft samband við ráðgjafa.
Verkefni ráðgjafa eru meðal annars:
- Veita nauðungarvistuðum einstaklingi upplýsingar um réttindi hans og stöðu.
- Veita nauðungarvistuðum einstaklingi persónulega ráðgjöf og stuðning.
- Vera talsmaður hins nauðungarvistaða um hvaðeina er vistunina varðar.
- Aðstoða við kröfugerð til dómstóls.
- Halda nákvæma skrá yfir þjónustubeiðnir, fjölda tíma, dagsetningu og fleira er varðar þjónustuna skv. nánari ákvörðun ráðuneytis.
Skilyrði er að ráðgjafi hafi háskólamenntun og reynslu sem nýtist í starfi. Æskilegt er að ráðgjafi hafi þekkingu á opinberri stjórnsýslu og gott vald á íslensku og ensku. Ráðgjafi þarf að búa yfir góðri samskiptahæfni og hlýlegu viðmóti, vera sjálfstæður í vinnubrögðum og eiga auðvelt með að vinna með öðrum í teymi.
Þóknun til ráðgjafa er föst mánaðargreiðsla og tímagjald samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins og greiðist úr ríkissjóði.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri, [email protected]. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil, ásamt kynningarbréfi með upplýsingum um ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi einstaklings til að sinna verkefninu, skulu berast innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík eða á netfangið: [email protected] eigi síðar en 26. ágúst nk.
Áætlað er að semja við viðkomandi teymi til allt að fjögurra ára sem gildir frá 15. september 2014.