Hoppa yfir valmynd
6. ágúst 2014 Innviðaráðuneytið

Nýrri brú yfir Múlakvísl fagnað

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri klipptu í dag á borða á nýrri brú yfir Múlakvísl og lýstu hana formlega opna við fögnuð viðstaddra. Kemur hún í stað einbreiðrar bráðabirgðabrúar sem reist var á sjö dögum í júlí 2011 eftir að flóð í Múlakvísl sópaði brúnni burt og rauf þar með Hringveginn.

Innanríkisráðherra klippti á borða á Múlakvíslarbrú að viðstöddum vegamálastjóra, brúarverkfræðingi, skæraverði, ráðherrum og þingmönnum Suðurkjördæmis.
Innanríkisráðherra klippti á borða á Múlakvíslarbrú að viðstöddum vegamálastjóra, brúarverkfræðingi , skæraverði, ráðherrum og þingmönnum Suðurkjördæmis.

Við athöfn í Höfðabrekku eftir að klippt hafði verið á borðann flutti innanríkisráðherra þakkir sínar til vegamálastjóra og starfsliðs hans sem kom annars vegar upp bráðabirgðabrú á mettíma og lagði um leið drögin að þeirri nýju brú sem nú er tekin í notkun. Einnig þakkaði hún verktökum og öðrum sem að verkinu komu.

Nýrri brú yfir Múlakvísl var fagnað í dag.Ráðherra sagði brúarsmíði meðal þýðingarmestu verkþekkingu þegar samgöngumannvirki væru annars vegar. Væri til dæmis brýnt að sýna fyrirhyggju eins og Vegagerðin með því að eiga tiltækt efni í brú þegar áföll verða og kom að góðum notum við gerð brúarinnar fyrir þremur árum.


Fagnað var nýrri brú yfir Múlakvísl í dag.

Framkvæmdir við nýja brú, vegagerð og varnargarða voru boðnar út snemmsumars 2013 og var samið við verktakafyrirtækið Eykt ehf um verkið. Framkvæmdir hófust í júlí 2013 og lauk þeim nú í lok júlí mánaðar sem er um mánuði fyrir umsamin skiladag. Undirverktakar hjá Eykt voru Framrás ehf. í Vík í Mýrdal sem sá um alla jarðvinnu við vegagerð, landmótun og varnargarða við brú. Bikun ehf í Kópavogi lagði klæðningu á veg. Þjótandi ehf. á Hellu sá um gerð nýrra varnargarða.

Áætlaður heildarkostnaður er um 1.200 milljónir króna og eru þá meðtaldar um 130 milljónir vegna bráðabirgðaaðgerða í kjölfar hlaupsins aðfaranótt 9. júlí 2011.

Vegagerðin hafði umsjón með stjórnun, hönnun og smíði á bráðbirgðabrú, jafnframt sem hönnun, umsjón og eftirlit með nýjum framkvæmdum var á hendi starfsfólks Vegagerðarinnar. Hönnunardeild Vegagerðarinnar sá um hönnun brúar, vegar og varnargarða, gerð útboðsgagna og rannsóknir þeim tengdum. Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar sáu um framleiðslu og niðurrekstur á steyptum staurum undir brúna og Stapi verkfræðistofa aðstoðaði við rannsóknir á grjótnámi vegna rofvarna. Framkvæmdadeild Vegagerðarinnar hafði umsjón með framkvæmdinni og eftirlit á staðnum annaðist tæknideild á Suðursvæði.

Nýja brúin er 162 m löng bitabrú í sex höfum og 10 m að breidd og nýr vegur er um 2,2 km að lengd. Brúargólfið er 2 m hærra en á eldri brú og lágpunktar eru hafðir í veginum beggja megin brúar til þess að flóð af þeirri stærðargráðu sem varð í júlí 2011 taki ekki af brúna en rjúfi þess í stað veginn. Í austanverðum farveginum ofan brúar voru byggðir um 5,6 km langir varnargarðar upp með ánni, þar af er 2,5 km ógrjótvarinn bakgarður með 11 grjótvörðum leiðigörðum. Tilgangur þessara garða er að beina ánni undir brúna og varna miklu jarðvegsrofi. Auk þessa eru tveir grjótvarðir varnargarðar ofar til að verjast rofi á bakkanum sem er þar allt að 10 m hár og er eingöngu úr vikri frá Kötlu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta