Forsætisráðherra ávarpar 45. þing BSRB
Í ávarpi sínu talaði forsætisráðherra m.a. um áherslur ríkisstjórnarinnar að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins, mikilvægi félagslegs stöðuleika fyrir velferðarsamfélagið og að gott heilbrigðiskerfi væri brýnt lífskjaramál.
Þá ræddi forsætisráðherra um mikilvægi almannaþjónustu fyrir lýðræðið og samfélagið allt: „Jú –almannarýmið er mikilvægur staður fyrir samfélög, rými þar sem ólíkar stéttir og ólíkir hópar koma saman á jafnræðisgrundvelli. Almannarýmið er ekki aðeins Austurvöllur eða Lystigarðurinn á Akureyri. Almannarýmið eru grunnskólarnir þar sem við öll komum saman en líka heilsugæslan og lögreglustöðin – rými sem við eigum sameiginlega og getum reitt okkur á. Almannaþjónusta er í raun almannarými. Hún hefur því hlutverki að gegna að tvinna saman ólíka þræði samfélagsins og tryggja að við sitjum öll við sama borð; að við njótum öll jafnræðis og sambærilegrar þjónustu. Og þannig tryggir hún jöfn tækifæri okkar allra, tækifæri til að lifa og starfa og tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. En aukinheldur tryggir hún líka að við séum öll í sama samfélagi sem er einmitt forsenda þess að lýðræðið dafni. Þess vegna er hún ein af undirstöðunum lýðræðisins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Ávarpið má lesa hér: Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á þingi BSRB