Fjárlagafrumvarp 2014
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 gerir ráð fyrir hallalausum rekstri á ríkissjóði, í fyrsta sinn frá árinu 2007. Stöðvun skuldasöfnunar og jöfnuður í ríkisfjármálum er forsenda viðspyrnu.
Lykilmarkmið fjárlagafrumvarpsins er að tryggja bætt lífskjör almennings. Á næsta ári hækkar kaupmáttur ráðstöfunartekna um 0,3% með lægri sköttum. Jafnframt verður stutt við lífeyrisþega með auknum útgjöldum til almannatrygginga.
Á næstu þremur árum lækkar tryggingagjald um 0,34 prósentustig og verður þannig 3,8 mia.kr. létt af fyrirtækjum þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Lækkun tryggingagjalds mun til lengri tíma litið skila launþegum kjarabótum og auka fjárfestingu atvinnulífsins.
Meginþáttur í ríkisfjármálastefnunni er að lækka skuldir ríkisins og draga með því úr vaxtabyrði. Á yfir-standandi ári stefnir í 31,1 mia.kr. halla á ríkissjóði. Er það verulega umfram áætlun fjárlaga fyrir árið 2013, þar sem gert var ráð fyrir 3,7 mia.kr. halla.
Án aðgerða í ríkisfjármálum hefði stefnt í 27 mia.kr. halla árið 2014. Útgjöld ríkisins verða lækkuð sem hlutfall af landsframleiðslu með almennum hagræðingaraðgerðum, með ákvörðunum um að falla frá ýmsum nýlegum verkefnum fyrri stjórnvalda og með ráðstöfunum sem leiða til lækkunar vaxtagjalda.
Afkoman er einnig bætt með tekjuaðgerðum, einkum bankaskatti sem nú er hækkaður og lagður í fyrsta skipti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Áætlað er að greiðslur fyrirtækja í slitameðferð muni nema um 11,3 mia.kr. árið 2014, en heildargreiðslur verði 14,2 mia.kr. Þannig er svigrúm myndað fyrir breyttar áherslur í samræmi við stefnu nýrrar ríkisstjórnar.
Stuðningur aukinn við lífeyrisþega og vörður staðinn um barna- og vaxtabætur
- Frumvarpið felur í sér aukin útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar sem nema 5 mia.kr. vegna ýmissa breytinga á kjörum og réttindum þessa hóps.
- Útgjöld almannatrygginga vaxa að auki um 3,4 mia.kr. á næsta ári vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta á lífeyri. Útgjöld í þessum málaflokki aukast því alls um 8,4 mia.kr
- Hækkun vaxtabóta til tekjulágra verður framlengd en gildandi lög gera ráð fyrir að hækkunin falli niður um áramót.
- Nýleg hækkun barnabóta er varin í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að styðja við barnafjölskyldur. Bæturnar hækkuðu um 24% í fjárlögum 2013. Heildarútgjöld vegna barnabóta eru áætluð 10,2 mia. kr. árið 2014 en voru tæpir 7,5 mia.kr. árið 2012.
Fyrstu skrefin stigin af braut skattahækkana á almenning og atvinnulíf
- Tekjuskattshlutfall í miðþrepi lækkað um 0,8% og þannig fært nær neðsta þrepinu.
- Samanlagt hlutfall tryggingagjalds hjá atvinnurekendum og gjalds í ábyrgðarsjóð launa lækkar um 0,1 prósentustig. Árið 2015 verður það lækkað um 0,1% að auki og árið 2016 um 0,14%.
- Frítekjumark fjármagnstekjuskatts vegna vaxtatekna einstaklinga hækkar um 25% úr 100.000 kr. í 125.000 kr.
- Virðisaukaskattur á einnota pappírsbleyjur lækkar úr almennu þrepi í neðra þrep, eða úr 25,5% í 7,0%.
Fleiri aðgerðir sem létta undir með heimilunum
- Þak í fæðingarorlofi hækkað í 370 þúsund krónur, en fallið frá lengingu orlofsins.
- Átakið Allir vinna framlengt, en ella hefðu um áramót fallið niður endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðar-, frístundahúsnæði og húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga framlengt.
- Frítekjumark barna hækkað úr 104.745 kr. í 180.000 kr.
- Stimpilgjöld af lánsskjölum felld niður.
Fé lagt í ýmsar framkvæmdir
- Norðfjarðargöng
- Bakki
- Vaðlaheiðargöng
- Fangelsisbygging á Hólmsheiði
- Almennar samgönguframkvæmdir
Helstu niðurstöður fjárlagafrumvarpsins 2014
Heildar- og frumjöfnuður ríkissjóðs
Rekstrargrunnur, mia.kr. |
Reikningur
2012 |
Fjárlög
2013 |
Áætlun
2013 |
Frumvarp
2014 |
---|---|---|---|---|
Tekjur |
525,9
|
579,4
|
555,6
|
587,6
|
Gjöld |
561,7
|
583,0
|
586,7
|
587,1
|
Heildarjöfnuður |
-35,8
|
-3,6
|
-31,1
|
0,5
|
sem hlutfall af VLF (%) |
-2,1
|
-0,2
|
-1,7
|
0,0
|
Frumjöfnuður |
18,0
|
60,3
|
25,9
|
56,0
|
sem hlutfall af VLF (%) |
1,1
|
3,4
|
1,4
|
3,0
|
Vaxtatekjur |
21,8
|
20,8
|
20,1
|
20,5
|
Vaxtagjöld |
75,6
|
84,7
|
77,1
|
76,0
|
Vaxtajöfnuður |
-53,8
|
-63,9
|
-57,0
|
-55,5
|
sem hlutfall af VLF (%) |
-3,1
|
-3,6
|
-3,2
|
-2,9
|
Heildargjöld eru áætluð 587,1 mia.kr. í frumvarpinu og hækka óverulega frá áætlaðri útkomu á árinu 2013 eða um 0,4 mia.kr. Frumútgjöld hækka hins vegar um 1,5 mia.kr. milli ára en mismunurinn skýrist af 1,2 mia.kr. lækkun vaxtagjalda ríkissjóðs miðað við áætlaða útkomu ársins 2013.
Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2014 eru áætlaðar 587,6 mia.kr. og er það aukning um 31,9 mia.kr. frá áætlaðri endurmetinni útkomu ársins 2013.
Með fjárlagafrumvarpinu eru sett fram áform um afgerandi ráðstafanir til að draga verulega úr skulda-söfnun ríkissjóðs og snúa halla á rekstri hans í afgang eftir samfelldan hallarekstur í sex ár.
Ráðstafanir á tekjuhlið skila ríkissjóði um 7 mia.kr. tekjuaukningu á árinu 2014
- Hækkun og breikkun bankaskatts. Skatturinn hækki úr 0,041% í 0,145% og nái framvegis einnig til lögaðila í slitameðferð. Tekjur ríkissjóðs af hækkun áætlaðar 14,2 mia.kr.
- Almennur fjársýsluskattur á fjármálastofnanir lækkar úr 6,75% í 4,5%. Tekjur ríkissjóðs lækka um 1,1 mia.kr.
- Lækkun á miðþrepi tekjuskatts einstaklinga úr 25,8% í 25%. Bein áhrif á tekjur ríkissjóðs um 5 mia.kr.
- Þá er áformað að lækka samanlagt hlutfall tryggingagjalds og gjalds í Ábyrgðasjóð launa um 0,1 prósentustig. Bein áhrif af þeirri aðgerð árið 2014 eru um 1 mia.kr.
Margvíslegar aðgerðir á útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins
- Fallið frá nýlegum eða óútfærðum verkefnum fyrir um 5,8 mia.kr.
- Veltutengdar aðhaldsaðgerðir ráðuneyta lækka um 3,6 mia.kr.
- Nokkrar sértækar aðhaldsaðgerðir lækka útgjöld um 2,6 mia.kr.
- Dregið úr vaxtabyrði ríkissjóðs með endurskoðun á skilmálum skuldabréfs sem gefið var út í kjölfar hruns viðskiptabankanna til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands og stóð í um 170 mia.kr. í árslok 2012. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs lækkaðar um 10,7 mia.kr. miðað við áætluð vaxtagjöld í fjárlögum 2013.
Samanlagt lækka þessar ráðstafanir útgjöld ríkissjóðs um 23 mia.kr.
Fyrstu hallalausu fjárlögin í sex ár
Framangreindar ráðstafanir og áætlanir vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014 geta skilað þeim markverða árangri að heildarjöfnuður á rekstrargrunni verði jákvæður um 0,5 mia.kr. Verði frumvarpið afgreitt á Alþingi án þess að þessum forsendum verði raskað verða fjárlög ársins 2014 fyrstu hallalausu fjárlögin í sex ár. Jafnvægi í ríkisfjármálum stuðlar að auknum hagvexti og lægra vaxtastigi í landinu sem styrkir stöðu bæði heimila og fyrirtækja.
Skuldir ríkissjóðs eru of háar og verða samanlagt í lok árs 2013 1.500 mia.kr, eða um 84% af VLF.
Þá eru skuldbindingar vegna lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna um 390 mia.kr. og þarf að
útfæra áætlun um hvernig mæta skuli þeim. Einnig liggur fyrir að ríkisábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs nema 940 mia.kr. Vaxtakostnaður er of hár, en hann er áætlaður 85 mia.kr. í fjárlögum 2013.
Fjárlög ársins 2014 gera ráð fyrir að sjálfvirk skuldasöfnun vegna hallarekstrar á ríkissjóði verði stöðvuð. Skuldastaðan hækkar ekki að raungildi á næsta ári og lækkar raunar sem hlutfall af VLF úr um 84% í um 80%.
Grundvallaratriði ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er ábyrg meðferð ríkisfjármála og skýr langtímasýn með ráðdeild og skynsamlega nýtingu sameiginlegra fjármuna þjóðarinnar að leiðarljósi.
Í greinargerð með frumvarpinu er að finna endurskoðaða og uppfærða áætlun um ríkisfjármálastefnuna til næstu fjögurra ára. Jafnframt er vakin athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins er www.fjarlog.is (http://www.fjarlog.is).
Ennfremur skal bent á að þjóðhagsáætlun verður lögð fram um miðjan október.
- Fjárlagafrumvarp 2014, kynning (PDF 350 KB)
Frekari upplýsingar veitir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í síma 545-9200.