Hoppa yfir valmynd
5. október 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Gildi og forgangsröðun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Stjórnendur og starfsfólk heilbrigðiskerfisins standa daglega frammi fyrir fjölda erfiðra ákvarðana sem varða líf og heilsu fólks og forgangsröðun er því liður í daglegum störfum þess. Auknir möguleikar við greiningu og meðferð sjúkdóma með sívaxandi kostnaði gera auknar kröfur um að ríkið sem greiðandi heilbrigðisþjónustunnar forgangsraði því fjármagni sem er til umráða. Mikilvægt er að forgangsröðun af hálfu stjórnvalda byggi á skýrum viðmiðum og siðferðilegum gildum sem öllum eru kunn og ljós þegar erfiðar ákvarðanir eru teknar, hvort sem um er að ræða heilbrigðisstarfsfólkið eða sjúklingana. 

Ljóst er að þær flóknu spurningar sem stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu í landinu glíma við krefjast þess að víðtæk umræða hafi farið fram í samfélaginu um þau gildi og þá forgagnsröðun sem gilda skal. Þessari vinnu er ætlað að stuðla að skarpari sýn á grundvöll heilbrigðisþjónustunnar og má benda á að víða á Norðurlöndunum hefur verið ráðist í svipaða vinnu með aðkomu almennings, heilbrigðisstétta og þings.

Heilbrigðisþing sem haldið verður 15. nóvember næstkomandi verður tileinkað þessum umfjöllunarefnum. Yfirskrift þingsins er „Siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu“ en þingið er liður í vinnu sem framundan er við gerð þingsályktunartillögu um þessi mál sem ég hyggst leggja fyrir Alþingi næsta vor.

Um þessi gildi þurfi að ríkja almenn sátt í samfélaginu en þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun er ætlað að skapa þá samfélagslegu sátt sem ríkja þarf um þessi stóru og krefjandi viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar. 

Heilbrigðisþingið er öllum opið og skráning fer fram á vefnum heilbrigdisthing.is þar sem einnig verða birt drög að dagskrá þingsins og fleiri upplýsingar. Ég hlakka til þess að taka þátt í þinginu og hvet alla áhugasama til þess að skrá sig til þátttöku á heilbrigðisþing. Það er mikilvægt að sem flestir komi að umræðunni, hvort sem er einstaklingar, félagasamtök, hagsmunaaðilar, heilbrigðisstofnanir, vísindafólk eða stjórnmálahreyfingar. Mótun gilda og forgangsröðunar í heilbrigðisþjónustunni er grundvallarmál.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 5. október 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta