Hoppa yfir valmynd
9. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður 32/2008

Fimmtudaginn 9. október 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 21. janúar 2008, kærir A,   synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu ellilífeyris.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um greiðslu ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli búsetu sinnar og starfa á Íslandi á árunum 1963-1971.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir meðal annars:

„Ég ólst upp í B og bjó þar til júní 1963, þegar ég fluttist til C.“

Kærandi greinir síðan frá búsetu og störfum á C fram til þess að hún flytur til  

B árið 1971. Frá þeim tíma hefur hún verið búsett erelndis.

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 31. janúar 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 12. júní 2008 og þar segir meðal annars:

 

„Kæranda var synjað um greiðslu ellilífeyris annars vegar vegna þess að hún uppfyllir ekki aldursskilyrði 17. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, þ.e. er ekki orðin 67 ára, og hins vegar vegna þess að skv. þjóðskrá Hagstofu Íslands hafi hún ekki verið skráð búsett hér á landi.

Samkvæmt reglugerð nr. 1408/71 (EBE) er hægt að fá greiddan lífeyri í EES-ríkjum sem viðkomandi hefur verið búsettur eða starfandi í hlutfalli við búsetulengd í hverju ríki. Til þess að réttur á greiðslum geti verið fyrir hendi þarf búsetutími í viðkomandi ríki að vera a.m.k. eitt ár, sbr.48.gr.

Miðað við þær upplýsingar sem kærandi hefur gefið um búsetu sína á Íslandi ættu upplýsingar um hana að öllu eðlilegu að vera aðgengilegar í þjóskrá. Svo er þó ekki. Það var ekki fyrr en að óskað var eftir því að leitað væri út frá þeim upplýsingum sem koma fram í kæru um að kærandi hefði verið gift manni að nafni D að í ljós kom að hún var skráð hér á landi undir nafninu A D tímabilið 1. desember 1966 til 1. september 1971, þ.e. í tæp 5 ár.

Líklegasta ástæða þess hve erfiðlega gekk að finna skráðar upplýsingar um kæranda er sú að við flutning hennar til B frá C hafi hún ekki verið tilkynnt um það til íslenskra yfirvalda og hún hafi þar af leiðandi ekki verið skráð sem búsett hér á landi fyrr en hún og maður hennar keyptu sér íbúð, þ.e. á árinu 1966.

Kærandi sem er fædd árið 1943 verður ekki 67 ára fyrr en árið 2010 og á þannig ekki rétt á ellilífeyri á Íslandi að svo stöddu en getur sótt um þegar að því kemur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. júní 2008 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Viðbótarupplýsingar bárust með bréfi dags. 19. júní 2008 þar sem upplýsingar í fyrra bréfi kæranda voru ítrekaðar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar umsókn um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli EES-samningsins.

Í kæru kveðst kærandi, sem fædd er x 1943, hafa búið á Íslandi frá því sumarið 1963 fram til sumarsins 1971 og starfað þar hluta tímabilsins. Óskar hún á þeim grundvelli eftir ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að samkvæmt Þjóðskrá hafi kærandi verið skráð búsett hér á landi tímabilið 1. desember 1966 til 1. september 1971 þ.e. í tæp 5 ár. Síðan segir: „Kærandi sem er fædd árið 1943 verður ekki 67 ára fyrr en árið 2010 og á þannig ekki rétt á ellilífeyri á Íslandi að svo stöddu en getur sótt um þegar að því kemur.“

Kærandi er, eins og að framan greinir fædd x 1943 og er því 65 ára gömul. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir hún ekki það grundvallarskilyrði fyrir rétti til ellilífeyris samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum að vera orðin 67 ára eða eldri.  Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu ellilífeyris er því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu ellilífeyris er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta