Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 1/2008

Þriðjudaginn 1. júlí 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 11. desember 2007, kærir B f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. nóvember 2007 að skerða heimilisuppbót A.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. nóvember 2007, var kæranda tilkynnt að frá og með 1. janúar 2008 yrði heimilisuppbót hans skert. Fram kemur í bréfi Tryggingastofnunar að í ljós hafi komið við reglubundið eftirlit stofnunarinnar að kærandi væri með skerta tekjutryggingu og því ætti kærandi samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 ekki rétt á að fá óskerta heimilisuppbót..

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a. svo:

 

„A leitaði til mín vegna bréfs Tryggingastofnunar dags. 9. nóv. 2007 þar sem honum var tjáð að skerða ætti heimilisuppbót vegna þess að um tíma bjó hann erlendis.

 

A er 75% öryrki og hefur gengið í gegnum mikil veikindi á síðustu misserum. Hann hefur lítið milli handanna og þolir illa skerðingu þeirra bóta sem hann nýtur. Lífeyrissjóðurinn D hefur þegar skert greiðslur til hans sem voru um 3 þú. á mánuði e.skatta og nú fær hann ekkert.

Nú þykist ég vita að TR fari að lögum en lög mega varla setja fólk í óviðunandi aðstæður og stefna heill og hamingju fólks í óefni. Bið ég um að mál hans verði sérstaklega skoðað og litið á allar leiðir sem færar kunni að vera til að hann haldi þeim bótum sem hann hefur haft.“

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 4. janúar 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Í greinargerðinni, dags. 21. maí 2008, segir m.a. svo:

Heimilisuppbót greiðist skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Í lokamálslið ákvæðisins kemur fram að ef réttur er á skertri tekjutryggingu skv. lögum um almannatryggingar skuli skerða heimilisuppbótina eftir sömu reglum. Í 1. mgr. 22. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 18. gr., laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er kveðið á um að tekjutrygging greiðist í hlutfalli við búsetutíma hér á landi á aldrinum 16-67 ára.

A fær greiddan örorkulífeyri og tengdar bætur sem skerðast vegna búsetu hans í E á árunum 1973-1993.

Með bréfi dags. 9. nóvember 2007 var A tilkynnt að við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins hefði komið í ljós að heimilisuppbót hans væri ekki skert miðað við búsetutíma hérlends eins og lög gera ráð fyrir og að hún myndi verða skert frá 1. janúar 2008

Tryggingastofnun ríkisins telur að heimilisuppbót A  eigi réttilega að vera skert á sama hátt tekjutrygging hans. Varðandi það að mál hans verði sérstaklega skoðað og litið á allar leiðir sem færar kunni að vera til að hann haldi þeim bótum sem hann hefur haft er bent á það að hugsanlega væri heimilt að greiða honum frekari uppbót (t.d. vegna sjúkra- og lyfakostnaðar eða umönnunar) en þá þyrftu að berast frá honum gögnum sem sýndu fram á slíkt.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 22. maí 2008 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um skerðingu á heimilisuppbót til kæranda frá og með 1. janúar 2008.

Af hálfu kæranda er ákvörðun Tryggingastofnunar mótmælt og á það bent að kærandi hafi þurft að þola skerðingu á greiðslum frá lífeyrissjóði og þoli því illa skerðingu á bótagreiðslum. Þá kemur fram í kærunni að kærandi hafi glímt við veikindi undanfarin misseri og hafi lítið á milli handanna.

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að þar sem kærandi hafi búið í E á árunum 1973-1993 njóti hann skertrar tekjutryggingar hér á landi en samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 skuli heimilisuppbót skert í samræmi við skerðingu á tekjutryggingu.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að kærandi nýtur skertrar tekjutryggingar  vegna dvalar sinnar erlendis um árabil. Ágreiningur í málinu snýst því  eingöngu um það hvort hann eigi rétt á óskertri heimilisuppbót.

Í 8. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 segir svo:

„Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.“

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði um greiðslu heimilisuppbótar skal hún greiðast í samræmi við tekjutryggingu almannatryggingalaga nr. 100/2007. Kærandi, sem er öryrki, fær greidda skerta tekjutryggingu vegna búsetu sinnar erlendis um langt árabil og ber því að skerða heimilisuppbót hans eftir sömu reglum eins og skýrt er tekið fram í greindri 8. gr. nefndra laga. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að skerða heimilisuppbót kæranda er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 9. nóvember 2007 um skerðingu á heimilisuppbót til A, er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

_________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta