Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu kynnt fyrir sendiherrum í Kaupmannahöfn
Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu frá Finnum í maí. Að því tilefni kynnti Einar Gunnarsson, sendiherra og verðandi formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, undirbúning að formennsku Íslands fyrir sendiherrum í Kaupmannahöfn. Málefni norðurslóða hafa á undanförnum árum orðið æ fyrirferðameiri á alþjóðavettvangi og tengist það m.a. loftslagsbreytingum, umræðum um nýtingu og vernd náttúruauðlinda og opnun nýrra siglingaleiða. Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni Norðurslóða og veitir formennskan Íslendingum einstakt tækifæri til að stuðla að því að áherslur okkar á sjálfbæra þróun, sjálfbær samfélög og vinnu gegn áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins. Í því samhengi er ekki síst brýnt að beina sjónum að hafinu og orkumálum.