Hoppa yfir valmynd
17. september 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 201/2003 - gildistími slysatryggingar við heimilisstörf

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með ódagsettu bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga mótteknu 5. ágúst 2003 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. júní 2003 á umsókn um slysabætur.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir skv. tilkynningu um slys við heimilisstörf til Tryggingastofnunar dags. 27. maí 2003 að kærandi varð fyrir slysi þann 10. febrúar 2003.  Í tilkynningu segir:

 

„  Var að fara út í verslun.  Fauk fyrir utan dyrnar að útihurð.”

 

Umsókn var synjað með bréfi  stofnunarinnar dags. 11. júní 2003 þar sem kærandi hefði ekki verið tryggð við heimilisstörf.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

„  Slysadagur 10.02.2003.  Skv. meðfylgjandi afriti skattframtals er undirrituð skráð slysatryggð 2003.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 5. ágúst 2003 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 12. ágúst 2003.  Þar segir m.a.:

 

„  Samkvæmt 25. gr. laga nr. 117/1993 geta þeir sem stunda heimilisstörf tryggt sér rétt til slysabóta með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Með stoð í áðurnefndri lagagrein var sett reglugerð nr. 527/1995 um slysatryggingar við heimilisstörf. Þar segir í 1. gr. "Sá sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs, telst slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, enda hafi því verið skilað innan tilskilins frests." Einnig er í reglunum nánar skilgreint hvað teljist til heimilisstarfa. Þar segir í 3. gr. að til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða: 1. Hefðbundin heimilisstörf svo sem matseld og þrif. 2. Umönnun sjúkra, aldraðra og barna. 3. Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir. 4. Garðyrkjustörf.

   Slysatrygging við heimilisstörf tekur ekki til allra slysa sem verða á heimili hins tryggða heldur aðeins til þeirra slysa sem verða við þau heimilisstörf sem talin eru upp skv. reglum nr. 527/1995. Í 2. tl. 4. gr. reglnanna segir að undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf séu m.a. slys sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem klæða sig og borða.

   Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra er kærandi ekki tryggð við heimilisstörf skv. skattframtali árið 2002 sem gildir fyrir næstu 12 mánuði eða almennt til marsmánaðar árið eftir. Slys varð 10. febrúar 2003 og er kærandi þá ekki tryggð við heimilisstörf. Hún er hins vegar tryggð við heimilisstörf frá 22. mars 2003 til næstu 12 mánaða en þá skilar hún skattframtali árið 2003.

   Í slysatilkynningu kemur fram að kærandi hafi verið að fara út í verslun og fokið fyrir utan útihurð. Ferð í verslun telst ekki falla undir ofangreinda skilgreiningu reglnanna um heimilisstörf.

 

Með vísan til alls framangreinds var umsókninni um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga synjað.”

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 14. ágúst 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt barst ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um bætur skv. slysatryggingu við heimilisstörf.  Kærandi var samkvæmt tilkynningu um slys  að fara út í verslun þegar hún fauk fyrir utan dyrnar að útihurð.  Kærandi var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. Í rökstuðningi sínum segir kærandi að samkvæmt skattframtali sé hún skráð slysatryggð 2003. 

 

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar var kærandi ekki slysatryggð þegar slys varð 10. febrúar 2003 þar sem hún hafi ekki verið slysatryggð skv. skattframtali 2002 og hún hafi ekki skilað inn framtali 2003 fyrr en 22. mars en frá þeim degi hafi hún verið slysatryggð.

Í 25. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 segir:

 

„ Þeir sem heimilisstörf stunda geta tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.”

 

Ráðherra hefur sett reglur um slysatryggingar við heimilis­störf og eru þær nr. 527/1995.  Þar segir í 1. grein:

 

„ Sá, sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs, telst slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, enda hafi því verið skilað innan tilskilins frests.”

 

Kærandi varð fyrir slysi 10. febrúar 2003.  Samkvæmt skattframtali 2002 var hún ekki tryggð við heimilisstörf.  Kærandi er hins vegar tryggð við  heimilisstörf samkvæmt skattframtali 2003.  Því framtali var hins vegar ekki skilað til skattyfirvalda fyrr en 22. mars 2003.  Kærandi var því ekki tryggð við heimilisstörf þegar hún varð fyrir slysinu 10. febrúar 2003.  Þegar af þeirri ástæðu er umsókn um bætur synjað.  Synjun Tryggingastofnunar um bætur samkvæmt slysatryggingu við heimilisstörf er staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A dags. 27. maí 2003 um bætur samkvæmt slysatryggingu við heimilisstörf er staðfest.

 

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

________________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta