Nr. 595/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 595/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19100015
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. október 2019 kærði […] fd. […], ríkisborgari Mexíkó (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. september 2019, um að synja honum um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærunefnd veiti honum dvalarleyfi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 28. júní 2018. Þann 16. september 2019 synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 23. september sl. og þann 4. október sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 16. október sl. ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2019, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hans því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að synja kæranda um atvinnuleyfi, til félagsmálaráðuneytisins. Kærandi hyggist ætla að leggja fram frekari gögn til kærunefndar þegar niðurstaða hjá ráðuneytinu liggi fyrir og óskar kærandi eftir því að kærunefnd fresti því að taka afstöðu til kæru hans þangað til frekari gögn hafi verið lögð fram.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.
Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, þ.m.t. ákvarðanatöku um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði því að kæranda yrði veitt tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki með ákvörðun, dags. 13. september 2019. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að kærunefnd biði með að taka afstöðu til kæru hans þangað til félagsmálaráðuneytið væri búið að úrskurða í máli hans, vegna kæru á ákvörðun Vinnumálastofnunar. Líkt og fyrr greinir tekur Vinnumálastofnun ákvarðanir um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi. Samkvæmt 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er atvinnurekanda og útlendingi heimilt að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar, sem teknar eru á grundvelli laganna, til félagsmálaráðuneytisins. Í 3. mgr. 34. gr. sömu laga segir m.a. að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar og skal útlendingur dveljast erlendis meðan á afgreiðslu kæru stendur enda hafi honum ekki verið veitt leyfi Útlendingastofnunar til að dveljast hér á landi. Í ljósi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2019, í máli kæranda hefur öðlast réttaráhrif sem og þeirri meginreglu 9. gr. stjórnsýslulaga, að stjórnvöld skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, er það mat kærunefndar að ekki sé forsvaranlegt að nefndin bíði með afgreiðslu kærumáls hans á meðan annað stjórnvald hefur stjórnsýslukæru til meðferðar. Kærunefnd áréttar að kærandi getur eftir að kærumál hans hefur verið leitt til lykta hjá félagsmálaráðuneytinu, óskað eftir endurupptöku máls hjá kærunefnd skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum máls hafði kærandi heimild til dvalar á Íslandi til 11. desember 2019. Í ljósi þess er ljóst að kæranda er ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
F.h. kærunefndar útlendingamála,
Áslaug Magnúsdóttir, settur varaformaður