Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 529/2022

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 529/2022

Fimmtudaginn 12. janúar 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, um að synja beiðni hennar um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. júní 2020. Með ákvörðun, dags. 4. ágúst 2020, var umsókn kæranda samþykkt en bótaréttur felldur niður í tvo mánuði með vísan til starfsloka hennar hjá fyrrum vinnuveitanda. Í kjölfar skýringa kæranda á starfslokum hjá B var mál hennar tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. september 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest. Í ágúst 2022 fór kærandi fram á endurupptöku málsins og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 15. nóvember 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. nóvember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærður sé úrskurður Vinnumálastofnunar frá 10. ágúst 2022 vegna skerðingar á bótarétti. Kærandi vilji ítreka það sem fram komi í rökstuðningi sem hafi verið sendur til Vinnumálastofnunar að lok vinnu hjá B að C hafi ekki verið hennar ósk heldur hafi aðstæður verið þannig að þau hjónin hafi ekki getað starfað þar áfram þar sem ekki hafi verið til boðlegt húsnæði fyrir þau á staðnum eða í þeirri fjarlægð að viðunandi væri. Kærandi hafi verið í vinnu hjá D eftir að ráðningarsamningi á milli þeirra og Vinnumálastofnunar hafi lokið þann 15. maí 2022, utan sumarlokunar sem hafi verið einn mánuður.

Kærandi fari fram á að refsitími verði felldur niður, enda hafi hún ekki sótt um bætur fyrr en þremur til fjórum mánuðum eftir að hún hafi hætt hjá B og verið sjálf í virkri atvinnuleit allan tímann en fyrir það hafi hún fengið skerðingu á hlutfalli til bóta.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta árið 2020 og umsóknin verið samþykkt 4. ágúst 2020. Útreiknaður bótaréttur hafi verið 78%. Með vísan til starfsloka kæranda hjá B hafi réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar verið felldur niður í tvo mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 4. nóvember 2021 hafi bótaréttur kæranda verið felldur niður öðru sinni og þá á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 61. gr. laganna.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur þann 29. júní 2022 og hafi umsókn hennar verið samþykkt þann 13. júlí 2022. Þar sem kærandi hafi átt ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar hafi kærandi fengið tilkynningu þess efnis að bætur til hennar yrðu ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn. Enn hafi verið 2,32 mánuðir eftir af biðtíma þegar kærandi hafi sótt um að nýju. Greiðslur hafi hafist að þeim tíma loknum.

Í framhaldinu hafi kærandi farið fram á endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar á þeim grundvelli að hún hafi farið í vinnu hjá D í sex mánuði og lokið samningi þann 15. maí 2022. Hún hafi hins vegar fengið framhaldsráðningu til 30. júní 2022 eða í einn og hálfan mánuð utan vinnumarkaðsaðgerða Vinnumálastofnunar og segist því ekki eiga að fá skerðingu samkvæmt 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi segi: ,,Ég starfaði í einn og hálfan mánuð eftir að vinnumarkaðsagereð skv samningi við D lauk og tel mig því hafa uppfyllt skylirði laga. Ég óska því eftir því að ég fá i óskertar atvinnuleysisbætur frá 1. júlí sl. Ég er í fullri atvinnuleyt og hef skilað inn umsóknum og ferilskrá til fjölmargra staða á Suðurnesjum en ekki enn fengi svar.“

Stofnunin hafi ekki talið skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt, enda höfðu ekki komið fram upplýsingar sem hafi getað haft þýðingu í máli kæranda. Ítrekunaráhrif viðurlaga falli niður þegar nýtt tímabil hefjist. Kærandi hafði ekki áunnið sér nýtt tímabil þegar hún hafi sótt um að nýju. Því hafi ekki komið til endurupptöku á máli kæranda. Þann 10. ágúst 2022 hafi kæranda verið tilkynnt um að endurupptöku á máli hennar væri hafnað þar sem ekki hafi verið séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 4. ágúst 2020 hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Í kæru til úrskurðarnefndar sé gerð krafa um að biðtímaákvörðun frá 4. ágúst 2020 verði felld úr gildi. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála og kærufrestur sé þrír mánuðir frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í ljósi þess að rúmlega tvö ár séu liðin frá því að ákvörðun um biðtíma hafi verið birt kæranda telji stofnunin að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri kærunni frá.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 4. ágúst 2020 þar sem réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds eða ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2020, var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna starfsloka hennar hjá fyrrum vinnuveitanda. Kærandi hefur greint frá ástæðu starfslokanna sem er efnislega samhljóða þeim skýringum sem hún veitti Vinnumálastofnun á árinu 2020.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram upplýsingar í málinu sem leiða eigi til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun sína frá 4. ágúst 2020 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við í máli kæranda eða að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. ágúst 2022 um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 4. ágúst 2020 staðfest.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta