Hoppa yfir valmynd
1. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Svigrúm til að vinna úr sorg

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ávarpaði í gær ráðstefnu Sorgarmiðstöðvarinnar um skyndilegan missi. Ráðherra benti á að lengi vel hafi þótt mikill persónulegur styrkleiki að bera ekki tilfinningar sínar á torg. Allt að hetjulegt hafi þótt að harka af sér og bera harm sinn í hljóði – en harmurinn hafi hvergi farið.

„Sem betur fer erum við ekki lengur á þessum stað en áttum þó alltaf eftir að stíga fyrstu skrefin í því að viðurkenna lagalegt mikilvægi þess að fólk þurfi að fá svigrúm til sorgarúrvinnslu,“ sagði ráðherra og undirstrikaði að löngu hefði verið orðið tímabært að löggjafinn tryggði fjölskyldum slíkt svigrúm í kjölfar barnsmissis. Það var gert með samþykkt frumvarps í júní síðastliðinn um sorgarleyfi foreldra sem missa barn

Slík sorgarleyfi þekkjast ekki víða og með lagasetningunni hefur Ísland skipað sér í fremstu röð á meðal jafningja.

„Eitt af því sem mér finnst sérstaklega vænt um í lögunum er hvernig hugtakið foreldri er skilgreint með mun víðtækari hætti en í annarri löggjöf,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu. Fleiri en tveir einstaklingar geti átt rétt á sorgarleyfi, það er einnig stjúp- og fósturforeldrar. Þannig sé sorg fjölskyldunnar í heild viðurkennd óháð fjölskyldugerð. Með því sé lögunum ætlað að koma til móts við fjölbreytt fjölskyldumynstur í íslensku samfélagi. Sveigjanleiki til atvinnuþátttöku samhliða sorgarleyfi sé þar að auki rýmri á Íslandi en annars staðar.

Jafnframt kom fram í máli ráðherra að vinna sé hafin í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu við greiningu á mögulegum næstu skrefum varðandi sorgarleyfi í fleiri tilvikum en við barnsmissi, fósturlát eða andvana fæðingu.

Loks vitnaði ráðherra í hugleiðingar séra Sigurðar Árna Þórðarsonar um sorgina þar sem hann lýsir sorginni sem gjaldi kærleikans, sem skugga ástarinnar og sem hina hlið elskunnar. Sorg væri viðbragð þess sem hefur elskað en misst.

„Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgarleysu dýru verði – því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta