Nr. 214/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 214/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20050005
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 5. maí 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Hvíta-Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Þess er krafist til vara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þess er krafist til þrautavara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. júlí 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 12., 16., og 19. júlí 2019 og 17. og 19. mars 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. apríl 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 5. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 19. maí 2020. Þá var kæranda leiðbeint með tölvupósti kærunefndar, dags. 10. júní 2020, um að leggja fram frekari gögn í málinu, t.a.m. heilsufarsgögn. Viðbótargögn bárust þann 15. júní 2020.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að vera í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi greindi frá ástæðum flótta síns frá heimaríki og hvernig hann hafi barist gegn stjórnvöldum í landinu og Alexander Lukashenko síðustu 25 ár. Hann hafi ítrekað tekið þátt í mótmælum og geri enn þann dag í dag. Þannig telji hann sig á skrá stjórnvalda og verði fyrir vikið sífellt fyrir áreiti og ofsóknum af þeirra hálfu. Stjórnvöld hafi þrýst á vinnuveitendur hans og konu hans fyrrverandi og þau hafi misst störf sín vegna skoðana hans. Kæranda hafi ítrekað verið hótað af lögreglu, barnavernd og fleiri opinberum aðilum að ástæðulausu. Nú síðast hafi honum verið hótað málsókn og fangelsisvist og hafi hann þá ákveðið að flýja landið enn einu sinni enda grafalvarlegt að lenda í fangelsi í Hvíta-Rússlandi. Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala hans hjá Útlendingastofnun. Þar hafi hann greint frá líkamlegum kvillum sínum, m.a. nýlegum stórum uppskurði og háum blóðþrýstingi og slæmri stöðu heilbrigðismála í heimaríki.
Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í heimaríki hans. Þar segir að Hvíta-Rússland sé einræðisríki þar sem aðeins einu sinni hafi verið haldnar frjálsar kosningar en það hafi verið árið 1994 þegar núverandi forseti hafi verið kjörinn til valda. Síðan þá hafi forsetinn fært vald sitt út til allra stofnana ríkisins og grafið undan réttarríkinu með einræðistilburðum, m.a. kosningasvikum. Meðal vandamála tengdum mannréttindum í Hvíta-Rússlandi séu pyndingar, gerræðislegar handtökur og varðhaldsvistanir, lífshættulegar aðstæður í fangelsum og spilling á öllum sviðum stjórnkerfisins. Spilling sé talin vera mjög alvarlegt vandamál í landinu sem birtist m.a. í mútuþægni, svikum og valdníðslu. Þá starfi stjórnvöld í skjóli refsileysis og skortur sé á sjálfstæði dómstóla og fjölmiðla. Einstaklingar séu sakfelldir á röngum og pólitískum grundvelli ásamt því að réttur einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar sé oft á tíðum ekki virtur. Þó að lög landsins banni afskipti af einkalífi fólks notist yfirvöld við hleranir, myndbandseftirlit og uppljóstrara sem brjóti á rétti fólks til friðhelgi einkalífs og heimilis. Enn fremur haldi yfirvöld gagnagrunn yfir einstaklinga sem megi ekki ferðast erlendis en það eigi sérstaklega við um einstaklinga sem taldir séu búa yfir vitneskju um ríkisleyndarmál. Þá hafi yfirvöld heimild til að setja fólk á eftirlitslista. Þrátt fyrir að tjáningarfrelsi skuli njóta verndar samkvæmt stjórnarskrá landsins virði yfirvöld það ekki og framfylgi ýmsum lögum sem geri þeim kleift að stjórna og ritskoða almenning og fjölmiðla.
Þá gerir kærandi grein fyrir aðstæðum einstaklinga í haldi yfirvalda og fangelsum. Samkvæmt lögum séu pyndingar bannaðar. Þrátt fyrir það verði einstaklingar fyrir barsmíðum við handtöku og í haldi löggæslu- og öryggisstofnana. Jafnframt séu einstaklingar látnir sæta refsikenndri vistun á geðheilbrigðisstofnunum, m.a. til að kveða niður raddir aðgerðasinna, stjórnarandstöðumeðlima, fjölmiðla og uppljóstrara. Fyrrum pólitískir fangar þurfi að þola takmarkanir á borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum. Aðstæður í fangelsum séu slæmar og skapi í mörgum tilvikum hættu gagnvart heilsu og lífi fanga, m.a. vegna skorts á mat, lyfjum, hlýjum fatnaði, rúmbúnaði og hreinu drykkjarvatni. Mannréttindasamtök fái ekki aðgang að fangelsum til að kanna aðstæður þar og erfitt sé fyrir fanga að koma kvörtunum sínum á framfæri. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi einnig lýst yfir áhyggjum vegna yfirfullra fangelsa, sjálfsvíga fanga og andláta í varðhöldum vegna skorts á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
Aðalkröfu sína byggir kærandi á því að hann sé flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Vísar kærandi einnig til 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga sem kveði á um að ofsóknir teljist vera athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær séu endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, s.s. réttinum til lífs og banni við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Það sama eigi við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun sem hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling. Kærandi eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna og sé í því samhengi vísað til þátttöku hans í mótmælum í heimaríki og þeirra ofsókna sem hann hafi orðið fyrir af hálfu yfirvalda og lögreglu. Telji hann ítrekaðar tilraunir sínar til þess að fá vernd í Evrópu styrkja þá frásögn sína. Í því sambandi fjallar kærandi um e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Telji kærandi ljóst að þær aðgerðir sem hann hafi mátt þola af hálfu yfirvalda í heimaríki, þ. á m. ítrekaðar ofsóknir og áreiti lögreglu og yfirvalda, feli í sér ofsóknir í skilningi 1. og 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli nr. 2016-01009. Kærandi telur að framburður hans og tilvísaðar heimildir beri það með sér að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna og uppfylli þar með skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 38. gr. sömu laga. Kærandi vísar þá til þess að það sé honum ómögulegt að afla gagna frá heimaríki sökum Covid-19 faraldursins. Það sé undantekning frekar en regla að umsækjandi um alþjóðlega vernd geti fært sönnur á allan framburð sinn og beri að láta umsækjanda njóta vafans sé frásögn hans trúverðug. Með vísan til framburðar kæranda og fyrirliggjandi gagna beri að leggja til grundvallar að kærandi óttist ofsóknir af hálfu ríkisins, sbr. a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og að hann eigi ekki raunhæfan möguleika á vernd.
Varakröfu sína byggir kærandi á því að honum skuli veitt viðbótarvernd hér á landi skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi greint frá því að eiga yfir höfði sér málsókn og fangelsisrefsingu snúi hann aftur til Hvíta-Rússlands. Aðstæður í fangelsum þar í landi séu afar slæmar og oft lífshættulegar og færa megi rök fyrir því að vistun þar ein og sér feli í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því til stuðnings vísar kærandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 28524/95 (Peers gegn Grikklandi). Raunhæf ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í fangelsi í Hvíta-Rússlandi og því sé ljóst að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með endursendingu kæranda til Hvíta-Rússlands yrði brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Þá telji kærandi flutning til annars landshluta í heimaríki sínu en hann flúði frá, sbr. 4. mgr. 37. gr. laganna, hvorki vera raunhæfan né sanngjarnan enda óttist kærandi ofsóknir af hálfu ríkisins, sbr. a-liður 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, þar sem hann sé þolandi viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. Þá vísar kærandi, líkt og að ofan er rakið, til málsóknar og fangelsisvistar sem hann eigi yfir höfði sér og aðstæðna í fangelsum landsins.
Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar í ákvörðun sinni að kærandi hafi ekki lagt fram gögn eða upplýsingar sem séu til þess fallnar að sýna fram á það áreiti eða mismunun sem hann kveður sig hafa upplifað í heimaríki. Kærandi hafi í greinargerðum sínum vísað til fjölmargra heimilda sem einmitt vitni um samskonar ofsóknir og hann hafi lýst. Það sé því rangt að kærandi hafi ekki lagt fram gögn eða aðrar upplýsingar. Þá telur kærandi að það sé alveg ljóst að gögn muni aldrei sanna þær ofsóknir sem stjórnvöld beiti hann. Aðeins með lestri almennra heimilda og með skilningi á ástandinu í landinu sé hægt að meta trúverðugleika frásagnar kæranda. Ennfremur telur kærandi að íslensk stjórnvöld þurfi að horfa til uppruna hans og hvar hann hafi búið í landinu. [...] sé lítið samfélag með undir [...] íbúa. Í slíku samfélagi dugi að taka þátt í almennum mótmælum til að stjórnvöld veiti viðkomandi athygli. Að mati kæranda sé það því einkar trúverðugt að þátttaka hans í mótmælum hafi orðið til þess að stjórnvöld ofsæki hann.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili og yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að kærandi sé ríkisborgari Hvíta-Rússlands. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Hvíta-Rússlands.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Hvíta-Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2019 Country Reports on Human Rights Practises - Belarus (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Belarus (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- Nations in Transit 2018 – Belarus (Freedom House, 11. apríl 2018);
- Freedom in the World 2019 – Belarus (Freedom House, 4. febrúar 2019);
- Freedom in the World 2020 – Belarus (Freedom House, 4. mars 2020);
- Hviterussland: Forhold for regimekritikere (Land Info, 25. apríl 2014);
- Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Vitryssland 2015-2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
- Social Security Programs Throughout The World: Europe 2018 (Social Security. Office of Retirement and Disability Policy, sótt 21. apríl 2020);
- The World Factbook (Central Intelligence Agency, uppfært 13. mars 2020);
- World Report 2020 – Belarus (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
- Belarus 2019 Crime and Safety Report (OSAC, 28. febrúar 2019);
- Report of the Special Rapporteur on the situation of human rights in Belarus (UN Human Rights Council, 21. apríl 2017);
- Report of the Special Rapporteur on the situation of human rights in Belarus (UN Human Rights Council, 8. maí 2019) og
- Health System Modernization Project (The World Bank, 27. október 2016).
Lýðveldið Hvíta-Rússland er ríki með um níu og hálfa milljón íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Hvíta-Rússland gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 2001, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 1968 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu 1985.
Samkvæmt ofangreindum gögnum hefur Alexander Lukashenko gegnt embætti forseta Hvíta-Rússlands síðan árið 1994. Í gögnunum kemur fram að stjórnskipan landsins feli forseta völd yfir ríkisstjórn, dómskerfi og löggjafarvaldi. Þá séu forsetatilskipanir æðri lögum landsins. Löggjöf í tengslum við framkvæmd kosninga í Hvíta-Rússlandi uppfylli ekki alþjóðlegar lýðræðislegar kröfur og hafi framkvæmd kosninga margsinnis sætt gagnrýni alþjóðasamfélagsins. Talsverð spilling sé innan löggæslu- og réttarkerfisins þar sem stjórnarskrárvarin réttindi séu ekki ávallt virt í framkvæmd. Samkvæmt gögnunum starfi stjórnvöld í skjóli refsileysis og einstaklingar á vegum þeirra, sem gerist sekir um mannréttindabrot, séu ekki sóttir til saka. Sjálfstæði dómstóla sé takmarkað og að stjórnvöld hafi oft áhrif á meðferð mála sem varði pólitíska eða efnahagslega hagsmuni. Einstaklingar hafi t.a.m. verið sakfelldir á grundvelli rangra og pólitískra sakargifta að undirlagi stjórnvalda. Tjáningarfrelsi séu settar skorður í landinu, en helstu fjölmiðlar landsins lúti stjórn yfirvalda og sjálfstæðir fjölmiðlar ritskoði fréttaefni til að forðast þrýsting frá yfirvöldum.
Framangreindar skýrslur frá bandaríska utanríkisráðuneytinu, Freedom House og Sameinuðu þjóðunum gefa til kynna að stjórnvöld hafi afskipti af fólki sem mótmæli stjórnvöldum eða gagnrýni þau. Í gögnunum kemur fram að fyrri hluta árs 2017 hafi fjöldi fólks safnast saman í höfuðborg landsins til að mótmæla og að rúmlega hundrað mótmælendur hafi verið dæmdir til að sæta varðhaldi vegna þátttöku sinnar í mótmælunum. Þá hafi nær allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar verið færðir í varðhald og sektaðir. Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr mótmælum hafi einkum beinst gegn þátttakendum í mótmælum en pólitískir aðgerðarsinnar hafi einnig verið færðir í varðhald og sektaðir í aðdraganda að og í kjölfar mótmæla. Í gögnunum segir að aðgerðarsinnar, sem séu andvígir stjórnvöldum, séu stöku sinnum færðir í langt varðhald á landamærum Hvíta-Rússlands meðan leitað sé á þeim og í eigum þeirra. Samkvæmt gögnunum hafi löggæsluyfirvöld víðtækar heimildir til að grípa til líkamlegrar valdbeitingar gegn einstaklingum sem grunaðir séu um refsiverðan verknað og að öryggissveitir landsins beiti fólk ítrekað órétti við yfirheyrslur. Framangreind gögn benda til þess að aðstæður í fangelsum landsins séu bágar og að skortur sé á mat, lyfjum og svefnplássum. Hreinlæti sé ábótavant og þá sé takmakaður aðgangur að heilbrigðisaðstoð. Þá hafi fangar sætt illri meðferð af hálfu fangelsisyfirvalda.
Stjórnarskrá Hvíta-Rússlands kveður á um rétt allra ríkisborgara til heilbrigðisþjónustu. Ríkið sé aðal eigandi og stjórnandi heilbrigðiskerfis landsins og sé meðferð á ríkisreknum sjúkrahúsum veitt án endurgjalds. Þá hafi ríkisborgarar Hvíta-Rússlands einnig aðgang að heilsugæslustöðvum á því svæði sem þeir búi. Að jafnaði þurfi að greiða fyrir lyf en ákveðin lyfseðilskyld lyf séu fáanleg án endurgjalds.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir kröfu sína m.a. á því að hafa orðið fyrir og eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana og að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Vegna þátttöku sinnar í mótmælum óttist kærandi ofsóknir yfirvalda og geti því ekki leitað til þeirra eftir vernd.Kærandi hefur engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings og segir ómögulegt að afla gagna í ljósi Covid-19 faraldursins. Í ljósi frásagnar kæranda um að hafa sætt áreiti og ofsóknum af hálfu lögreglu vegna þátttöku í mótmælum í heimaríki frá árunum 1995-1996 er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi, sem nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns, leggi fram einhver gögn sem leiði að því líkur að hann hafi verið undir eftirliti og áreiti lögreglu í heimaríki. Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn sem renna stoðum undir þá frásögn kæranda að hann sé á sérstakri skrá yfirvalda eða að hans bíði málsókn og fangelsisvist. Þá liggja ekki fyrir nein gögn um að lögregla eða önnur yfirvöld hafi haft afskipti af honum. Skýrslur og önnur gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Hvíta-Rússlandi bera m.a. með sér að spilling sé við lýði innan lögreglunnar og meðal yfirvalda þar í landi. Kærunefnd fellst á að kærandi kunni að hafa orðið fyrir einhverju áreiti yfirvalda og að það kunni að tengjast þátttöku hans í mótmælum. Kærunefnd telur þó að kærandi hafi ekki gert nægilega líklegt að það áreiti hafi náð því alvarleikastigi að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna, eða að hann eigi á hætti að verða fyrir slíku áreiti.
Hvað varðar tilvísun kæranda til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli nr. 2016-01009 tekur kærunefnd það fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærilegar þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í gögnum frá göngudeild sóttvarna, dags. 7. ágúst 2019 til 27. nóvember 2019, kemur fram að kærandi sé hraustlegur og almennt heilbrigður. Hann hafi fengið ávísað lyfjum vegna of hás blóðþrýstings og magavandamála en hann hafi að eigin sögn farið í magaaðgerð árið 2017. Af framangreindu er ekki að sjá að kærandi þurfi á meðferð að halda sem talin sé svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að ef hún yrði rofin yrði það til tjóns fyrir hann verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Samkvæmt þeim skýrslum og gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa ríkisborgarar Hvíta-Rússlands aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi án endurgjalds. Þá hefur kærandi greint frá því að hafa fengið heilbrigðisþjónustu í heimaríki, þ. á m. farið í aðgerð þar í landi árið 2017 auk þess að hafa margsinnis leitað til heimilislæknis og fengið lyf. Það er því mat kærunefndar að kærandi geti sótt sér þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda í Hvíta-Rússlandi. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum.
Í athugasemdum við frumvarp laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Við meðferð málsins hjá kærunefnd kvaðst kærandi eiga konu og barn í heimaríki og hafi barn hans búið hjá honum alla tíð. Þá hafi hann starfað við byggingarvinnu í heimaríki og kvaðst vera sæmilega staddur fjárhagslega. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíði kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.
Í greinargerð byggir kærandi einnig á því að hann sé þolandi viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hann ekki gegn og að hans bíði fangelsisvist þar í landi. Beri þannig að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki hans. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til niðurstöðu kærunefndar að framan verður ekki talið að aðstæður kæranda séu slíkar að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands þann 7. júlí 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann 9. júlí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir