Reglugerð um landfræðilega gagna- og samráðsgátt vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Helstu breytingarnar eru að nú er í reglugerðinni mælt fyrir um landfræðilega gagna- og samráðsgátt, þar sem birta skal gögn til kynningar og samráðs og álit og ákvarðanir um umhverfismat framkvæmda og áætlana og framkvæmdaleyfi. Þangað skal einnig skila inn og birta umsagnir umsagnaraðila og almennings um umhverfismat framkvæmda og áætlana eftir því sem mælt er fyrir í reglugerðinni. Reglugerðin er til samræmis lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana þar sem fjallað er um skipulagsgáttina.
Skipulagsgátt er landfræðileg gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á hönnun, uppsetningu og rekstri Skipulagsgáttar sem hefur verið í smíðum undanfarið ár og hefur nú verið opnuð með formlegum hætti.
Opnun skipulagsgáttarinnar er liður í stefnu stjórnvalda að stórefla stafræna þjónustu hins opinbera. Markmið með öflugri stafrænni stjórnsýslu er að einfalda málsmeðferð, bæta þjónustu við almenning og auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna. Þá er gáttin einnig mikilvægur áfangi í að mæta þeim markmiðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fyrir liggi greinargóðar rauntímaupplýsingar um stöðu skipulags- og byggingarmála á landinu öllu.
773/2023 Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.