Breytt fyrirkomulag almenningsamgangna undirbúið
Breytt fyrirkomulag skipulags og styrkveitinga almenningssamgangna í landinu er nú í undirbúningi á vegum innanríkisráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögum verði í auknum mæli falin framkvæmd almenningssamgangna, komið verði upp samgöngumiðstöðvum sem þjóna ákveðnum svæðum og þróað þjónustuborð almenningssamgangna.
Forsaga málsins er sú að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur undanfarin misseri unnið að því að móta stefnu í almenningssamgöngum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir að vinna skuli áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar segir í stefnumörkuninni.
Unnið hefur verið að nýrri stefnu á tvennum vettvangi. Annars vegar hefur samgönguráð unnið að framtíðarstefnumótun almenningssamgangna í tengslum við samgönguáætlun til 12 ára sem lögð verður fram í mars 2011. Hins vegar hefur starfshópur ráðuneytisins og Vegagerðarinnar mótað hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi ríkisstyrkja til almenningssamgangna, sem eru aðallega samgöngur í dreifbýli og á milli landshluta og/eða sveitarfélaga.
Á vegum ráðuneytisins var tekin saman skýrsla um almenningssamgöngur á vegum ríkisins, þ.m.t. fjárveitingar og notkun þeirra. Í fjárlögum þessa árs fara 330 milljónir króna til sérleyfa á landi, 708 milljónir til ferjureksturs og 298 m. kr. til ríkisstyrkts flugs. Árið 2011 er gert ráð fyrir að 323 milljónir fari til sérleyfa, 731 m. kr. fari til ferja og 190 m. kr. til flugs.
Fáir farþegar
Skýrslan leiðir í ljós að notkun almenningssamgangna er lítil. Á 26 sérleiðum eru farþegar færri en þrír í hverri ferð og færri en 1 á 10 leiðum. Þá er nýting á styrktum flug og ferjuleiðum langt undir flutningsgetu. Að mati starfshópsins er hluti vandans skipulagsleysi, lítil samhæfing, takmarkað upplýsingaflæði auk þess sem verð þjónustunnar er það hátt að einkabíll er vænlegri kostur í mörgum tilvikum. Bæta þarf hraða, tíðni og lækka verð á fargjöldum.
Starfshópur ráðuneytisins og Vegagerðar skilaði skýrslu í september sl. varðandi ríkisstyrktar almenningssamgöngur. Meðal tillagna starfshópsins er:
- Ráðuneytið taki upp viðræður við landshlutasamtök sveitarfélaga með það að markmiði að þau taki að sér almenningssamgöngur á sínu svæði.
- Komið verði upp skilgreindum samgöngumiðstöðvum á hverju svæði sem verði tengipunktur allra almenningssamgangna á svæðinu.
- Ekki verði styrktir fleiri en einn ferðamáti á hvern stað, enda leiðir það til óhagkvæmni og samkeppni milli tveggja styrktra samgöngumáta.
- Þróað verði þjónustuborð til að tryggja betri upplýsingar fyrir farþega og nýtingu á ferðum.
- Hætt verði að veita sérleyfi á einstökum leiðum. Þessari breytingu verði mætt með breyttum reglum m.a. um tilkynningaskyldu um akstur á leiðum og fyrirvara um breytingu á þjónustu.
- Starfshópurinn lagði til að fallið yrði frá sérleyfum frá og með næstu áramótum.
Ráðuneytið hefur haft þessa skýrslu til skoðunar og átt nokkra fundi með skýrsluhöfunum og starfsmönnum Vegagerðar. Ljóst er að hér er um tímabærar tillögur að ræða og margar gagnlegar ábendingar um hvernig má nýta betur fjármuni og vinna að markmiði um bættar almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins.
Niðurstaða ráðuneytisins var sú að of skammur fyrirvari væri á því að falla frá sérleyfum um komandi áramót. Því var lagt til að Vegagerðin framlengdi tímabundið, eða lengst út þetta ár, þá samninga sem eru lausir fyrir eða um áramót.
Ráðuneytið hefur því í hyggju að grípa til eftirfarandi skammtímaaðgerða meðan unnið er áfram að þeim markmiðum sem fram hafa komið.
Samið við landshlutasamtök
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að þegar verði tillögur starfshópsins mótaðar frekar. Megináhersla verði í því sambandi á viðræður við landshlutasamtök sveitarfélaga með það að markmiði að þau taki að sér aukið hlutverk varðandi skipulag og rekstur almenningssamgangna sem ríkið hefur styrkt. Stefna ber að því að gera langtímasamninga við landshlutasamtökin (byggðasamlög) um yfirtöku umræddra verkefna í síðasta lagi frá ársbyrjun 2012 og fjármögnun verkefna. Þá yrði kannað hvernig væri hægt að þróa hugmyndir um þjónustu- og upplýsingaborð fyrir farþega, auk annarrar endurskipulagningar.
Í öðru lagi yrðu undirbúnar nauðsynlegar breytingar á lögum um fólks og framflutninga og eftir atvikum lögum um Vegagerðina til að tryggja að ný aðferð á grundvelli samninga við landshlutasamtök sé í samræmi við lög og reglugerðir.
Í þriðja lagi yrði ráðist í tímabundnar ráðstafanir um fyrirkomulag stuðnings á árinu vegna samninga sem eru lausir og með hliðsjón af fyrirhuguðum fjárveitingum í ár.