Hoppa yfir valmynd
14. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Skipun úttektarnefndar vegna umsóknar Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur að tillögu gæðaráðs íslenskra háskóla skipað þriggja manna úttektarnefnd til að meta umsókn Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu.

Formaður úttektarnefndarinnar er Stephen Jackson og aðrir nefndarmenn eru Christina Rozsnyai og Ralph A. Wolff. Úttektarnefndin skilar matsskýrslu með tillögum til ráðherra sem veitir viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og reglna um viðurkenningu háskóla nr. 1067/2006.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vonast til þess að úttektin gangi greiðlega fyrir sig eftir nokkrar tafir m.a. vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

Kvikmyndaskóli Íslands hefur frá árinu 2003 starfað sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Frá árinu 2019 hefur nám við Kvikmyndaskólann verið viðurkennt sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi á fjórða hæfniþrepi. Kvikmyndaskólinn stefnir að því að bjóða upp á tveggja ára diplómanám í kvikmyndagerð á háskólastigi og viðbótarnám í samstarfi við aðra háskóla.

Gæðaráð íslenskra háskóla er skipað sex erlendum sérfræðingum til fimm ára í senn, auk fulltrúa stúdenta, sem tilnefndur er af Landssamtökum íslenskra stúdenta. Gæðaráðið gefur út viðmið fyrir innra og ytra mat háskóla og annast framkvæmd ytra mats á háskólum í samræmi við reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 1368/2018.

 

Reykjavík, 14. júní 2022.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta