Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta: Málsmeðferð í kvörtunarmálum verði einfölduð

Embætti landlæknis - myndVelferðarráðuneytið

Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra sem hefur að markmiði að einfalda og skýra málsmeðferð innan Embættis landlæknis í kvörtunarmálum hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 11. mars næstkomandi.

 

Frumvarpið felur í sér tillögu að breytingu á 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Breytingunni er ætlað að auðvelda embættinu að greina þær kvartanir sem krefjast aðgerða af hálfu embættisins til að tryggja öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Sérstök áhersla er lögð á tilgang og hlutverk embættis landlæknis sem eftirlitsstofnunar og eru breytingar lagðar til með það að leiðarljósi. Fram kemur að landlæknir sinni kvörtunum og erindum vegna heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Þá er tekið fram að landlæknir leiðbeini þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Er þetta gert til að undirstrika hlutverk embættis landlæknis í því að greina þær kvartanir og þau erindi sem honum berast og leiðbeina einstaklingum ef erindin eru þess eðlis að þau eigi frekar erindi við stofnunina sem um ræðir.

Með áformuðum breytingum er skýrt tekið fram hverjum er heimilt að kvarta til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu en það eru bæði sjúklingar og einnig nánir aðstandendur látinna sjúklinga, svo sem maki, foreldri eða afkomandi.

Í frumvarpsdrögunum er einnig fjallað um formsatriði tengd kvörtunum varðandi framsetningu og efnistök. Lagt er til að tímafrestur til að leggja fram kvörtun verði styttur frá gildandi lögum og að kvörtun þurfi að koma fram innan fimm ára frá því að atvik gerðist sem kvartað er undan. Þó er landlækni heimilt að taka kvörtun til meðferðar séu fimm ár liðin, ef sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar.

Nánari grein er gerð fyrir efni frumvarpsins í samráðsgáttinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta