Ný reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra hefur undirritað reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Hin nýja reglugerð markar skýrari ramma fyrir leyfisveitingar til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni, öflun sjávargróðurs utan netlaga, nýtingaráætlanir og skilyrða fyrir útgáfu leyfa. Samkvæmt áherslum ráðherra skal áfram unnið að stefnumótun á vegum matvælaráðuneytisins um nýtingu sjávargróðurs.
Reglugerðin kveður á um að leyfi til nýtingar á þangi skuli bundið við sláttutæki eða sláttupramma sem hagnýtt verði af leyfishafa. Þá er mælt fyrir um að heimild til nýtingar í fjöru og netlögum sjávarjarða verði samkvæmt samkomulagi við viðkomandi landeiganda eða ábúanda.
Grundvöllur leyfis til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni er nýtingaráætlun sem leyfishafi skal vinna og skal hún byggja á bestu fáanlegum upplýsingum um útbreiðslu sjávargróðurs og möguleika til hagnýtingar að teknu tilliti til umhverfisáhrifa . Þá skal nýtingaráætlun kynnt Hafrannsóknastofnun sem í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands veitir umsögn um nýtingaráætlunina. Þá er leyfishafa skylt í nýtingaráætlun að greina frá athugasemdum umsagnarinnar og hvernig brugðist hafi verið við þeim.
Til að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni er ráðherra heimilt að ákveða að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni utan netlaga sé auk almenns veiðileyfis háð sérstöku leyfi Fiskistofu. Í slíkum tilfellum er gerð krafa um almennt veiðileyfi ásamt nýtingarleyfi til öflunar sjávargróðurs.
Drög reglugerðarinnar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 2. apríl 2024 og bárust þrjár umsagnir um reglugerðina sem má nálgast hér.