Drög að frumvarpi um niðurgreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar í samráðsgátt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til breytinga á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Með frumvarpinu er lögð til einföldun á því kerfi er lýtur að styrkveitingum til þeirra sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun.
Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar eiga íbúar á svæðum sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma rétt á niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis. Fjárhæð slíkra styrkja skal jafngilda átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig þarf notandi að leggja fram upplýsingar um orkunotkun síðustu fimm ára, meta sjálfur tæknilegan ávinning framkvæmdarinnar, lækka niðurgreiðslustuðul sinn út frá eigin áhættumati og meta aukna raforkunotkun til framtíðar til að forðast óþarfa kostnað.
Með frumvarpinu er lagt til að slíkur styrkur nemi helmingi af kostnaði við kaup á búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar, svo sem varmadælu, og að endurgreiðslur notenda verði ekki skertar.
Frumvarpið tekur mið af því að aukin notkun á búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar, svo sem varmadælu, sé sameiginlegt hagsmunamál notenda og ríkisins. Fyrir notendur leiðir varmadæla af sér minni raforkunotkun með tilheyrandi lækkuðum kostnaði. Þá lækkar mótframlag ríkisins vegna minni raforkunotkunar. Á sama tíma skilar varmadælan aukinni orku út í kerfið en ljóst er að losa þarf raforku til nauðsynlegra orkuskipta á næstu árum.
„Það er mikilvægt að nýta orkuna sem best ef við ætlum uppfylla markmið okkar í loftslagsmálum. Sú einföldun niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar sem frumvarpið felur í sér er varða á þeirri vegferð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpsdrögin er til og með 9. mars