Hoppa yfir valmynd
20. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna efnahagsvandans - minnisblað

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur gripið til margvíslegra aðgerða undanfarna mánuði til þess að mæta þeim vanda sem steðjar að einstaklingum og fjölskyldum vegna yfirstandandi efnahagserfiðleika. Aðgerðirnar eru einkum á sviði vinnumála og húsnæðismála og varða úrræði vegna greiðsluerfiðleika. Ýmsar úrbætur hafa verið gerðar á almannatryggingakerfinu síðastliðið ár til að bæta hag þeirra sem hafa lökust kjörin. Við gerð fjárlaga ársins 2009 og aðhaldsaðgerða sem þar var gripið til var lögð áhersla á að verja kjör þeirra hópa sem minnst hafa. Hér á eftir eru raktar helstu aðgerðir sem gripið hefur verið til á liðnum mánuðum.

I. Aðgerðir á sviði vinnumála

Vinnumálastofnun efld

Starfsemi Vinnumálastofnunar hefur verið efld verulega til að mæta vaxandi álagi og ýmsu hefur verið breytt í vinnulagi stofnunarinnar til að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Rafræn þjónustu hefur m.a. verið aukin til þess að tryggja skjóta afgreiðslu og öruggt aðgengi almennings.

Atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfi til að sporna gegn atvinnuleysi

Með lagabreytingu hefur verið heimilað að greiða fólki sem er í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur (hlutabætur) í lengri tíma en áður og skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf hefur verið felld niður. Markmiðið með þessu er að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi með því að ýta undir að atvinnurekendur semji um lægra starfshlutfall við starfsfólk sitt í stað þess að grípa til uppsagna. Úrræðið var þróað í samvinnu við ASÍ, SA og fleiri aðila og hefur hefur mælst vel fyrir og nýtist nú um 13% þeirra sem eru á atvinnuleysiskrá.

  • Nánari upplýsingar um hlutabætur eru á heimasíðu Vinnumálastofnunar (PDF)

Rýmri réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta

Einstaklingar sem starfa sjálfstætt eiga nú rýmri rétt til atvinnuleysisbóta en áður. Í því felst að þeir geta nú tekið að sér tilfallandi verkefni án þess að stöðva reksturinn alveg en haldið rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Skilyrði fyrir þessu eru meðal annars þau að viðkomandi einstaklingur tilkynni skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstrinum sem leiði til tímabundins atvinnuleysis og skili til skattayfirvalda viðeigandi rekstrargögnum þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur.

  • Upplýsingar um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga eru á heimasíðu Vinnumálastofnunar (PDF)

Hækkun atvinnuleysisbóta um áramót

Ákveðið var að flýta hækkun atvinnuleysisbóta sem ráðgerð var 1. mars 2009 og láta hækkunina taka gildi 1. janúar. Grunnatvinnuleysisbætur hækkuðu þá um 13.500 kr. Hámarkstekjutengdar atvinnuleysisbætur hækkuðu úr 220.729 kr. í 242.636 kr.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum lagt kapp á að virkja og efla helstu vinnumarkaðsúrræði sem ráðuneytið og stofnanir þess hafa yfir að ráða og finna nýjar leiðir til að sporna við vaxandi atvinnuleysi. Í janúar 2009 voru settar tvær nýjar reglugerðir um fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði sem ætlað er að auðvelda fólki án atvinnu að halda virkni sinni, stuðla að tengslum þess við atvinnulífið og skapa fólki leiðir til að bæta möguleika sína til atvinnuþátttöku á nýjan leik. Nánar er fjallað um ýmis úrræði sem kveðið er á um í þessum reglugerðum hér á eftir.

Réttur fólks til atvinnuleysisbóta samhliða þátttöku í ýmsum verkefnum

Þeir sem eru án atvinnu og fá greiddar atvinnuleysisbætur eiga kost á því að taka þátt í ýmsum verkefnum (vinnumarkaðsúrræðum) en fengið atvinnuleysisbætur greiddar samhliða. Einnig hafa fyrirtæki og stofnanir ákveðnar heimildir til að ráða tímabundið til sín fólk sem fær greiddar atvinnuleysisbætur þannig að atvinnuleysisbæturnar fylgja viðkomandi inn í fyrirtækið. Atvinnurekandinn greiðir þá laun sem leggjast við atvinnuleysisbæturnar þannig að viðkomandi nýtur sambærilegra launakjara og aðrir sem hjá honum starfa. Vinnumálastofnun greiðir mótframlag í lífeyrissjóð.

Ráðningar sem þessar þurfa að byggjast á samningi Vinnumálastofnunar við viðkomandi atvinnuleitanda og atvinnurekanda. Heimildir til tímabundinna ráðninga af þessu tagi ná til starfsþjálfunar og ráðningar til reynslu, sérstakra átaksverkefna sem fela í sér tímabundin verkefni umfram venjuleg umsvif og til frumkvöðlastarfa þar sem einstaklingur er ráðinn til að þróa nýja viðskiptahugmynd. Vinnumálastofnun er einnig heimilt að semja beint við atvinnuleitendur um að þeir vinni að þróun eigin viðskiptahugmyndar í tiltekinn tíma án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Þegar atvinnuleitendur eru ráðnir til frumkvöðlastarfa er skilyrði að Nýsköpunarmiðstöð Íslands votti um nýsköpunarvægi verkefnisins og fylgist með framgangi þess.

Sjálfboðaliðastörf sem virkt vinnumarkaðsúrræði

Tekið hefur verið upp það nýmæli að skilgreina sjálfboðaliðastörf sem virkt vinnumarkaðsúrræði þannig að frjáls félagasamtök geti boðið atvinnuleitendum þátttöku í verkefnum sínum. Í reglugerð er kveðið á um að rétt fólks sem fær greiddar atvinnuleysisbætur til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi samhliða virkri atvinnuleit. Gert er ráð fyrir að samningur sé gerður um slík störf milli Vinnumálastofnunar og viðkomandi félagasamtaka sem ber að slysatryggja sjálfboðaliðann.

Atvinnutengd endurhæfing

Vinnumálstofnun hefur verið veitt heimild til að gera tímabundinn samning um starfsendurhæfingu við fólk með skerta starfsorku sem er í atvinnuleit án þess að það tapi rétti sínum til atvinnubóta. Þeir sem nýta þetta úrræði skuldbinda sig til að taka fullan þátt í skipulagðri endurhæfingaráætlun en Vinnumálastofnun greiðir viðkomandi atvinnuleysisbætur samhliða endurhæfingunni.

Réttur fólks til atvinnuleysisbóta samhliða námi

Þeir sem eru án atvinnu eiga kost á því að stunda ýmis konar nám og námskeið og fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða í samræmi við áunnin réttindi sín. Ekki er um nýmæli að ræða en félags- og tryggingamálaráðherra hefur sett reglugerð þar sem kveðið er á um hvaða nám er að ræða. Reglugerðin er sett í því skyni að skýra framkvæmdina og tryggja jafnræði við mat Vinnumálastofnunar á því hvaða nám og námskeið uppfylla skilyrði fyrir því að fólk haldi rétti til atvinnuleysisbóta.

Rýmri skilyrði fyrir búferlastyrkjum

Í reglugerð er kveðið á um rétt fólks í atvinnuleit til búferlastyrkja sem ætlaðir eru til að auðvelda fólki flutning milli sveitarfélaga hafi því boðist starf í öðru sveitarfélagi en því sem það hefur skráð lögheimili sitt. Réttur til búferlastyrkja hefur verið rýmkaður að því leyti að ekki er lengur skilyrði fyrir styrk að viðkomandi hafi verið atvinnulaus í þrjá mánuði áður en hann flytur.

Starfshópur um leiðir til að sporna við atvinnuleysi

Skipaður hefur verið starfshópur með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna, fjármálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að móta tillögur um aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi og fylgja eftir notkun þeirra vinnumarkaðsúrræða sem eru fyrir hendi. Hópurinn hefur þegar hitt fjölda aðila og mun skil fyrstu tillögum sínum um aðgerðir fyrir 1. febrúar.

II. Aðgerðir í húsnæðismálum og úrræði vegna greiðsluerfiðleika

Greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Í lok október skipaði félags- og tryggingamálaráðherra hóp sérfræðinga til að skoða hvort og þá hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Hópurinn lagði til að tekin yrði upp greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga til að mæta vaxandi greiðslubyrði verðtryggðra lána samhliða minnkandi kaupmætti. Þetta var gert með lagabreytingu í nóvember.

Greiðslujöfnun er leið fyrir lántakendur til þess að létta tímabundið greiðslubyrði lána sinna meðan niðursveiflan gengur yfir. Viðskiptavinir allra viðurkenndra lánastofnana sem eru með verðtryggð fasteignalán geta óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna ef þeir telja það henta aðstæðum sínum. Nánari upplýsingar um þetta úrræði veitir Íbúðalánasjóður og aðrar viðurkenndar lánastofnanir sem veitt hafa verðtryggð fasteignalán.

  • Nánari upplýsingar á heimasíðu Íbúðalánasjóðs

Úrræði Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluvanda einstaklinga

Heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda hafa verið rýmkaðar og innheimtuaðgerðir stofnunarinnar mildaðar. Til nýrra úrræða telst heimild sem leyfir afturköllun nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður. Þá var rýmingarferli uppboðsíbúða lengt úr einum mánuði í þrjá. Heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúð hafa verið rýmkaðar. Þessar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum Íbúðalánasjóðs til að mæta fólki í greiðsluvanda, svo sem um skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana (af höfuðstól, verðbótum og vöxtum) um allt að þrjú ár. Til viðbótar þessu er unnið að útfærslu á nýrri heimild Íbúðalánasjóðs sem gerir lántakendum mögulegt að greiða einungis vexti og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma, leiði það til lausnar á greiðsluvanda þeirra.

Um miðjan október beindi ríkisstjórnin tilmælum til fjármálastofnana að bjóða fólki í greiðsluerfiðleikum sömu úrræði og bjóðast viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs.

  • Ítarlegar upplýsingar um aðstoð við fólk vegna greiðsluerfiðleika er að finna á heimasíðu Íbúðalánasjóðs

Lánstími greiðsluerfiðleikalána lengdur

Með breytingu á lögum um húsnæðismál sem samþykkt var á Alþingi í desember sl. var heimilað að lengja lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára og hámarkslánstími hjá sjóðnum er lengdur úr 55 árum í 70 ár. Lenging hámarkslánstíma í 70 ár er gerð til að tryggja að allir geti nýtt sér heimild til skuldbreytingar láns í 30 ár.

Heimild Íbúðalánasjóðs til að annast leigumiðlun íbúðarhúsnæðis

Með fyrrnefndri breytingu á lögum um húsnæðismál var Íbúðalánasjóði gert heimilt að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun íbúðarhúsnæðis sem sjóðurinn hefur leyst til sín á nauðungarsölu. Megintilgangur þessa ákvæðis er að gera leigjendum íbúða sem sjóðurinn hefur eignast á nauðungaruppboði, eða eigendum íbúða sem hafa misst þær vegna greiðsluerfiðleika, kleift að búa áfram í íbúðinni í tiltekinn tíma gegn leigu. Íbúðalánasjóður getur sjálfur annast útleigu íbúða eða falið það öðrum með samningi. Ekki er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi og leigi íbúðarhúsnæði til lengri tíma heldur sé hér fyrst og fremst um skammtímaúræði að ræða. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skilyrði varðandi útleigu sjóðsins á íbúðarhúsnæði og fyrirkomulag þess í reglugerð og er unnið að því í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Heimild Íbúðalánasjóðs til að taka yfir íbúðaveðlán fjármálafyrirtækja

Íbúðalánasjóði hefur verið veitt heimild til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi að því tilskildu að kaupin séu til þess fallin að tryggja öryggi lána á íbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda. Heimildin á jafnt við um lán í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum en sem stendur hafa ekki verið teknar ákvarðanir um yfirtöku sjóðsins á erlendum lánum.

Gert er ráð fyrir því að fjármálastofnanir óski eftir því að Íbúðalánasjóður yfirtaki íbúðaveðlán á þeirra vegum og gera um það samning. Þegar Íbúðalánasjóður yfirtekur skuldabréfalán öðlast lántakendur sömu réttindi gagnvart sjóðnum og aðrir lántakendur hans og bera jafnframt sömu skyldur. Kjör og skilmálar skuldabréfalána gagnvart lántakendum sem Íbúðalánasjóður yfirtekur verða óbreytt frá því sem var fyrir yfirtöku sjóðsins á láninu eftir því sem við getur átt. 

Efld starfsemi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið efld með auknu fjárframlagi til stofnunarinnar, fjölgun starfsfólks og lengri opnunartíma.

Upplýsingar um þjónustu stofnunarinnar eru á heimasíðu hennar:http://www.fjolskylda.is/fjarmal

Fjárhagsleg aðstoð við Íslendinga erlendis

Utanríkisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sömdu í október leiðbeiningar fyrir sendiskrifstofur Íslands um úrræði til að liðsinna Íslendingum erlendis í fjárhagsvanda. Aðstoðin tekur annars vegar til fjárhagslegrar aðstoðar vegna heimflutnings þegar fólk flytur heim til Íslands. Hins vegar er um að ræða möguleg lán eða styrkveitingar til einstaklinga og fjölskyldna í fjárhagserfiðleikum sem búa erlendis. Þetta geta t.d. verið einstaklingar sem unnið hafa hjá íslenskum fyrirtækjum og misst vinnuna, lífeyrisþegar, námsmenn eða aðrir hópar fólks sem dveljast langdvölum erlendis og kjósa ekki að flytja til Íslands að svo stöddu.

III. Lífeyrismál

Ýmsar úrbætur verið gerðar á almannatryggingakerfinu síðastliðið ár til að bæta hag þeirra sem hafa lökust kjör. Við gerð fjárlaga ársins 2009 og aðhaldsaðgerða sem þar var gripið til var lögð áhersla á að verja kjör þeirra lífeyrisþega sem minnst hafa.

  • Á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins er yfirlit þar sem fram koma helstu breytingar sem gerðar hafa verið á lífeyrisgreiðslum frá 1. janúar 2008 – 1. janúar 2009
  • Upplýsingar um lífeyrisgreiðslur þeirra sem eru 67 ára og eldri á heimasíðu Tryggingastofnunar
  • Upplýsingar um lífeyri og styrki örorkulífeyrisþega á heimasíðu Tryggingastofnunar

Með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum var til samræmis við forsendur fjárlagafrumvarpsins samþykkt bráðabirgðaákvæði með lögum um almannatryggingar um að bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og fjárhæðir frítekjumarka skyldu hækka um 9,6% árið 2009. Aftur á móti skyldi lágmarksframfærslutrygging á grundvelli laga um félagslega aðstoð hækka um 20%, úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. á mánuði til að tryggja sérstaklega hag tekjulægstu bótaþeganna.

Hækkun bóta, styrkja og frítekjumarka um 9,6%

Þann 1. janúar síðastliðinn tóku gildi reglugerðir um hækkun bóta, styrkja og frítekjumarka árið 2009 samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Hækkanirnar tóku til lífeyrisgreiðslna elli- og örorkulífeyrisþega, heimilisuppbótar, frekari uppbóta á lífeyri, barnalífeyris, vasapeninga sjúkratryggðra og annarra bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar, auk meðlags. Frítekjumörk lífeyrisþega og vistmanna á dvalarheimilum hækkuðu einnig 1. janúar og sömuleiðis mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, dánarbætur, maka- og umönnunarbætur, endurhæfingarlífeyrir og fleiri bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Hækkun allra þessara bótaflokka og frítekjumarka nam 9,6%. Sama hækkun varð einnig á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og á fjárhæð ættleiðingarstyrkja.

Hækkun lágmarksframfærslutryggingar lífeyrisþega um 20%

Í september 2008 gerð breyting á greiðslum til lífeyrisþega sem tryggði þeim tekjulægstu í þeirra hópi ákveðna lágmarksframfærslu. Breytingin var gerð með setningu reglugerðar á grundvelli laga um félagslega aðstoð.

Þann 1. janúar síðastliðinn var fjárhæð lágmarksframfærslu lífeyrisþega hækkuð um 20%. Lágmarksframfærslutrygging einstaklinga sem fá greidda heimilisuppbót er nú 180.000 krónur á mánuði en 153.500 krónur hjá einstaklingum sem njóta hagræðis af sambúð með öðrum. Við hækkunina 1. janúar fjölgaði verulega í hópi þeirra sem nýtist lágmarksframfærslutryggingin. Fyrir hækkunina voru þeir um 4.000 en eftir hækkun nýtist lágmarksframfærlsan um 12.000 manns.

Úttekt á séreignarsparnaði skerðir ekki lengur lífeyrisgreiðslur

Með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn var afnumið ákvæði sem fól í sér skerðingu á bótagreiðslum lífeyrisþega þegar þeir tóku út séreignarsparnað í lífeyrissjóðum. Lífeyrisþegar geta því tekið út séreignasparnað sinn án þess að það skerði bætur almannatrygginga.

Framlenging 100.000 króna frítekjumarks á atvinnutekjur örorkulífeyrisþega

Þann 1. janúar síðastliðinn var framlengdur gildistími bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar sem gerir örorkulífeyrisþegum kleift að velja á milli þess að hafa 100.000 krónar frítekjumark eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Gert hafði verið ráð fyrir að þetta ákvæði félli úr gildi 1. janúar þar sem að þá yrði komið til framkvæmda nýtt örorkumatskerfi og nýjar viðmiðunarreglur sem kæmu í stað frítekjumarksins. Þar sem endurskoðun örorkumatskerfisins var ekki lokið á tilsettum tíma var umrætt ákvæði um frítekjumark framlengt til 1. janúar 2010.

IV. Aðrar almennar aðgerðir og breytt vinnubrögð

Samráð, þjónusta, upplýsingar

Fyrstu viðbrögð félags- og tryggingamálaráðuneytisins við efnahagsvandanum voru að efna til reglulegs samráðs með fulltrúum þeirra stofnana ráðuneytisins sem veita einstaklingum þjónustu, s.s. Vinnumálastofnun, Íbúðalánasjóði, Tryggingastofnunar ríkisins, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Vinnumálastofnun og Barnaverndarstofu. Áhersla var lögð á að fá nákvæma yfirsýn yfir alla þjónustu þessara stofnana, hvernig úrræði tengdust og styddu hvert annað og hvað þyrfti að bæta. Í sama skyni var efnt til samráðs við sveitarfélög og félagsmálastjóra. Fjölmargar stofnanir, félagasamtök og einstaklingar hafa boðið fram þjónustu sína og heldur ráðuneytið yfirlit yfir hana og hefur reglulega samband við þessa aðila.

Reglulegir fundir eru haldnir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Vinnumálastofnun um aðgerðir í vinnumarkaðsmálum. Áhersla hefur verið lögð á að efla upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna hér á landi. Fylgst er með þróun vinnumarkaðarins frá degi til dags.

Reglulegir fundir eru haldnir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu með fulltrúum Íbúðalánasjóðs um aðgerðir í húsnæðismálum og þróun mála á húsnæðismarkaði.
Þann 9. október setti félags- og tryggingamálaráðuneytið á fót upplýsingasíðu á Netinu í tengslum við heimasíðu ráðuneytisins þar sem safnað var á einn stað upplýsingum um viðbrögð stjórnvalda og aðgerðir vegna efnahagsvandans ásamt leiðbeiningum um úrræði og þjónustu. Þessi þjónusta hefur nú verið felld undir upplýsingaveituna Island.is.

Ráðuneytið svarar daglega fjölda fyrirspurna frá almenningi sem berast í síma, í gegnum net-spjall eða með tölvupóstum og hefur starfsmönnum verið fjölgað til þess að tryggja skjóta svörun erinda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta