Hoppa yfir valmynd
12. mars 2021

Línur lagðar um stafræna þróun í Evrópu fram til 2030

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Annasöm vika að baki

Sendiráðið gekkst í vikunni fyrir vefviðburði í samstarfi við Grænvang Íslandsstofu og EFTA helguðum nýsköpun og íslenskum tæknilausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Viðburðurinn var liður í formennskuáætlun Íslands í fastanefnd EFTA í EES-samstarfinu á fyrri hluta þessa árs og miðaði að því að setja íslensk sprotafyrirtæki og frumkvöðla í samhengi við Græna sáttmála ESB og stefnumið hans. Viðburðurinn hófst með ávarpi Kristjáns Andra Stefánssonar sendiherra og Joao Sarmento fulltrúa portúgölsku formennskunnar í ráðherraráði Evrópusambandsins en síðan tóku við kynningar á starfsemi fyrirtækjanna Carbfix, Carbon Recycling International, Pure North og Circular solutions. Í framhaldi af þeim fóru fram líflegar umræður undir röggsamri stjórn Höllu Hrundar Logadóttur, eins af stofnendum og stjórnendum Arctic Initiative við Harvard háskóla. Viðburðurinn var vel sóttur og vakti athygli meira en 70 þátttakenda, þ. á m. frá Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og fastanefndum aðildarríkja Evrópusambandsins.  

Í upphafi vikunnar tók sendiráðið þátt í norrænum jafnréttisviðburði á alþjóðlega kvennadaginn 8. mars sem norrænu sendiráðin í Brussel stóðu fyrir. Viðburðurinn var helgaður þátttöku kvenna í stjórnmálum og hófst með opnunarávarpi Kristjáns Andra f.h. norrænu sendiherranna. Aðalerindi flutti Marianne Hamilton sænskur rithöfundur en síðan fóru fram pallborðsumræður með þátttöku Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Karen Melchior frá Danmörku og Silvia Modig frá Finnlandi sem báðar eiga sæti á Evrópuþinginu og Astrid Hoem leiðtoga ungliðahreyfingar frá Noregi.

Á þriðjudag fór einnig fram fundur EFTA ríkjanna með EFTA vinnuhópi ráðs Evrópusambandsins. Þar gerði Sesselja Sigurðardóttir, staðgengill sendiherra, grein fyrir áherslum EES-EFTA ríkjanna næstu mánuði í formennskutíð Íslands. Þá fræddust fundargestir um helstu mál á borði vinnuhópsins og áttu skoðanaskipti um það sem er efst á baugi í EES EFTA-samstarfinu. Þar á meðal var gerð grein fyrir rótgróinni þátttöku EES EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB og undirbúningi áframhaldandi þátttöku í næsta tímabili (2021-2027).  

Og á miðvikudag fór fram fundur ráðgjafarnefndar EFTA með fastanefnd EFTA-ríkjanna. Í upphafi fundarins var Halldórs Grönvöld minnst en hann var þrívegis formaður ráðgjafarnefndarinnar og átti sæti í henni  í 20 ár samfleytt. Ísland er í formennsku fastanefndarinnar þetta misserið og kom því í hlut Kristjáns Andra að flytja nefndinni skýrslu fastanefndar um það sem efst hefur verið á baugi síðustu misserin og horfur framundan í EES EFTA-samstarfinu. Forseti Eftirlitsstofnunar EFTA og sendiherrar EFTA-ríkjanna gerðu einnig grein fyrir helstu áherslum hver frá sínum sjónarhóli en síðan gafst fulltrúum ráðgjafarnefndarinnar tækifæri til að bera fram spurningar og skiptast á skoðunum við sendiherrana. Af hálfu ráðgjafarnefndarinnar var spurt um Græna sáttmála og Stafrænu starfsskrána og áhersla lögð á að sendiráðin fylgist með frá upphafi, greini fljótt þá hagsmuni sem í húfi eru og taki þátt í mótun gerða frá byrjun.

Stefnumörkun um stafræna þróun í Evrópu

Framkvæmdastjórnin birti 9. mars orðsendingu (e. Communication) sem fjallar um framtíðarsýn, markmið og leiðir fyrir stafræna þróun í Evrópu til ársins 2030. Stafrænar lausnir eru að mati ESB lykillinn að umbreytingu hagkerfisins í áttina að þrautseigu kolefnislausu hringrásarhagkerfi. Orðsendingin er svar við ákalli ráðherraráðsins um „stafrænan áttavita“ fyrir sambandið og er lagt til að helstu áhersluþættir áttavitans við að ná fram stefnunni verði eftirfarandi.

Góð færni borgara við að nýta stafrænar lausnir og að færir tæknimenn vinni á sviði stafrænna lausna. Markmið um að fyrir árið 2030 geti að minnsta kosti 80% borgara nýtt stafrænar lausnir sér til gagns og að starfandi verði a.m.k. 20 milljónir tæknimanna innan sambandsins.

Öruggir, áreiðanlegir og sjálfbærir stafrænir innviðir. Öll heimili í Evrópu hafi aðgang að minnsta kosti 1 Gb tengingu og öll þéttbýl svæði hafi aðgang að 5G farsímaþjónustu. Sjálfbær framleiðsla í Evrópu á hátæknismárásum og leiðandi á heimsvísu skuli nema a.m.k. 20% af heimsframleiðslu. Fyrsta skammtatölvan (e. quantum computer) í Evrópu verði komin í notkun 2030.

Stafræn umbreyting fyrirtækja. Fyrir árið 2030 skuli þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum nýta sér skýjalausnir, snjalltækni og stórgögn (e. big data). Að minnsta kosti 90% fyrirtækja skuli nýta grunn upplýsingatækni (e. basic level of digital intensity).

Opinber þjónusta á netinu. Árið 2030 skuli öll lykil þjónusta hins opinbera vera aðgengileg á netinu; allir borgarar skuli geta nálgast heilsufarsupplýsingar á netinu; og 80% borgara noti stafræn auðkenningu.

Framkvæmdastjórnin leggur til að unnið verði hratt að skilgreiningu verkefna yfir landamæri fyrir sameiginlega þátttöku fleiri ríkja, til þess að bregðast við mismunandi stöðu ríkja í stafrænni þróun. Þá sér framkvæmdastjórnin fyrir sér að vinna að framgangi þessarar stefnu með því að leita eftir stofnun viðskiptanefndar með þátttöku Bandaríkjanna um samstarf á sviði hátækni. Einnig leggur framkvæmdastjórnin til að stofnaður verði nýr sjóður sem ætlað er að styrkja aðildarríkin í uppbyggingu fjarskiptainnviða (e. connectivity).

Framkvæmdastjórnin miðar við að hefja fljótlega víðtækt samráð um einstök atriði stefnumörkunarinnar þ.m.t. um ramma „stafræna áttavitans“, utanumhald og ofangreindar tillögur um árangursmarkmið. Samráðinu er ætlað að skila tillögu að skilgreindu verkefni og útfærslu á formlegu utanumhaldi þess (e. governance). Miðað er við að tillagan verði lögð fyrir ráðið og þingið á þriðja ársfjórðungi 2021.

Framkvæmdastjórnin sér fyrir sér að árangursvísarnir um verkefnið verði útfærðir nánar og skýrsla um framvindu stafrænnar þróunar birt árlega.

Tillaga um launagagnsæi

Þrátt fyrir að launajafnrétti kynjanna sé tryggt í Rómarsáttmálanum, og ýmsum reglum á grundvelli hans, er launamunur kynjanna talinn vera 14,1% innan Evrópusambandsins. Fyrir utan misréttið sem í því felst eru ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir stöðu kvenna, þar með talin skert lífeyrisréttindi en þar er munurinn á kynjunum 33%. Framkvæmdastjórnin lagði 4. mars sl. til nýja tilskipun um launagagnsæi sem er ætlað að stuðla að breytingum á þessu sviði. Hér er um að ræða eitt af forgangsmálum Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar. Nýju úrræðin sem lögð eru til í tilskipuninni eru tvíþætt, aukið gagnsæi í launamálum og réttarfarshagræði fyrir þá sem telja á sig hallað.

Launagagnsæi fyrir umsækjendur um störf – Vinnuveitendur munu þurfa að láta í té upplýsingar um byrjunarlaun í starfi þegar auglýsing er birt eða áður en atvinnuviðtal fer fram. Þá verður vinnuveitendum óheimilt að spyrja umsækjendur um þau laun sem þeir hafa haft í gegnum tíðina.

Réttur til upplýsinga fyrir starfsmenn – Starfsmenn munu eiga rétt á því að fá upplýsingar um laun sem gera þeim kleift að bera sig saman við aðra í svipuðum störfum.

Skýrslugjöf um launamun – Vinnuveitendur með að minnsta kosti 250 starfsmenn verða að birta upplýsingar um launamun kynjanna í fyrirtækinu. Þeir verða síðan að láta starfsmönnum í té ítarlegri upplýsingar.

Sameiginlegt launamat – Þegar launamunur kynjanna reynist vera 5% eða meiri skv. fyrrnefndri skýrslu og ekki er hægt að rökstyðja hann með hlutlægum hætti verður að fara fram úttekt í samstarfi við fulltrúa starfsmanna.

Bætur vegna mismununar – Starfsmenn sem teljast hafa orðið fyrir mismunun munu geta fengið bætur sem nema vangoldnum launum.

Sönnunarbyrði á vinnuveitanda – Það hvílir á herðum vinnuveitanda að sýna fram á að launamunur milli kynjanna styðjist við hlutlæg rök.

Tillagan fer nú til meðferðar hjá Evrópuþinginu og ráðherraráðinu. Nýja tillagan kemur til viðbótar við gildandi tilskipun frá 2006 um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði. Vinna er hafin hjá EFTA-skrifstofunni og sérfræðingum á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein við að meta tillöguna með tilliti til EES-samningsins.

Tillaga að endurskoðuðum reglum um reikiþjónustu farsímafyrirtækja

Framkvæmdastjórnin birti 21. febrúar sl. tillögu að endurskoðuðum reglum um reiki Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council on roaming on public mobile communications networks within the Union (recast) sem í stuttu máli, auk nokkurra breytinga, framlengir líftíma núverandi löggjafar um tíu ár verði tillagan samþykkt. Forsenda þessarar tímasetningar, gildistími til 2032, er spá um að eftir tíu ár hafi þjónusta farsambanda tekið miklum breytingum með fimmtu kynslóð farsíma frá því sem við þekkjum núna. Óvíst er að þá verði þörf fyrir reglusetningu sem þessa.

Sólarlagsákvæði er í núgildandi reglugerð um reiki og fellur hún að óbreyttu úr gildi um mitt ár 2022. Fyrstu reikireglur yfir EES tóku gildi árið 2009. Þær hafa tekið breytingum og nú síðast um mitt ár 2017 þegar reglan „Roam like at home“ var lögfest. Með henni gildir heimaverðskrá farsímafyrirtækis notanda innan alls Evrópska efnahagssvæðisins séu gagnasendingar notandans innan hóflegra marka. Gagnasendingar frá snjallsímum á Evrópumarkaði margfölduðust eftir gildistöku reglugerðarinnar. Gagnasendingar í reiki jukust yfir 400% á milli áranna 2016 og 2017.

Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar eru lögð til stiglækkandi hámarksheildsölugjöld reikiþjónustu fyrir talsamband, gagnasamband og SMS á gildistíma reglugerðarinnar.  Þar eru einnig að finna nokkur ákvæði sem ætlað er að einfalda regluverk og draga úr íþyngjandi kröfum í framkvæmd hennar. Til dæmis eru felld niður ákvæði um aðgreiningu smásöluþjónustu sem fellur undir reglugerðina og þeirrar sem er undanskilin ákvæðum hennar, einfaldaðar reiknireglur um lúkningagjöld, reglur um umreikning á milli gjaldmiðla einfaldaðar og loks skýrslugjöf til eftirlitsaðila einfölduð og gerð skilvirkari.

Leyst úr vanda nema í flugvirkjanámi

Nám flugvirkja fer eftir EES reglum og er undir eftirliti Flugöryggisstofnunar EASA sem m.a. viðurkennir námsskrár og skóla sem sinna kennslunni. Að námi loknu fá nemar skírteini sem gerir þeim kleift að starfa sem flugvirkjar hvar sem er á EES svæðinu.

Námið á Íslandi er á vegum breskra aðila sem hafa tilskilin leyfi frá EASA til kennslu. Í samskiptum Samgöngustofu við Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, kom fram sú lagalega túlkun stofnunarinnar á Brexit-samningnum að ekki væru lagaleg skilyrði til að viðurkenna áfanga í námi flugvirkja með óútgefin skírteini fyrir 1. janúar sl. Flugvirkjanám er afar kostnaðarsamt fyrir nemendur og áttu um 200 nemendur það á hættu að þurfa að endurtaka áfanga í náminu með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn.

Sendiráðið í Brussel vann að lausn málsins með samgönguskrifstofu ESB og í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofu. Eftir nokkur samskipti við samgönguskrifstofu ESB fannst lausn og 4. mars barst svo tilkynning frá EASA og framkvæmdastjórninni um að nám fyrir 1. febrúar yrði viðurkennt í samræmi við núgildandi reglur.

Fjórða bóluefnið samþykkt

Tilkynnt var 11. mars að bóluefni frá Janssen (sem er hluti af Johnson & Johnson samsteypunni) hefði hlotið skilyrt markaðsleyfi innan ESB. Er þar um fjórða bóluefnið að ræða gegn Covid-19 sem leyft er. Evrópusambandið hefur tryggt aðildarríkjunum allt að 400 milljón skammta en einn slíkur dugir hverjum einstaklingi ólíkt því sem á við um hin bóluefnin þrjú.

Boðað hefur verið að framkvæmdastjórnin kynni 17. mars næstkomandi tillögu að reglum um heilsufarsskilríki sem einstaklingar sem hafa verið bólusettir, fengið neikvætt Covid-19 próf eða hafa veikst og náð sér aftur geti framvísað. Vonir standa til að slíkt rafrænt skírteini (Digital green pass eins og það er kallað á ensku) geti auðveldað ferðalög milli landa.

EES-EFTA athugasemd við matvælastefnu ESB

Í byrjun mars sl. lögðu EES-ríkin fram sameiginlega EES-EFTA-athugasemd gagnvart ESB hvað varðar F2F stefnuna svokölluðu, en slíkar athugasemdir eru ein þeirra leiða sem EES-EFTA ríkin geta beitt til þess að taka þátt í mótun löggjafar ESB. Í athugasemdunum sem lögð voru fram gagnvart ESB er almennum stuðningi lýst við „Farm to fork“ stefnuna hvað varðar sjálfbær matvælakerfi, þar sem m.a. er vísað til þeirrar vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi EES/EFTA-ríkjanna eins og til dæmis aðgerðir við að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Í athugasemdinni er lögð áhersla á að sameiginleg landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB séu utan EES-samningsins. Þá er einnig lögð áhersla á að frumkvæðisvinna að lagasetningu sem er EES-tæk verði metin heildstætt með tilliti til áhrifa á matvælakerfi, umhverfisáhrifa og samfélagslegra markmiða.

Sameiginlegar EES-EFTA athugasemdir snúast ekki einungis um tækifærið til að hafa áhrif á lagasetningu heldur einnig að standa vörð um hagsmuni ríkjanna sem standa að athugasemdinni og gera ríkin sýnilegri. Vert er að hafa í huga að um er að ræða stefnu sem hefur áhrif á þá löggjöf sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og innleidd hefur verið á Íslandi.

Bakgrunnur

Grænn sáttmáli fyrir Evrópu (e. Green Deal) er eitt fyrirferðamesta málið á dagskrá núverandi framkvæmdastjórnar Evrópu. Um er að ræða umfangsmikla áætlun sem ætlað er að tryggja áframhaldandi hagsæld Evrópu sem byggir á því að vistkerfi jarðarinnar séu heilbrigð og nýting náttúruauðlinda sjálfbær. Sáttmálanum er ætlað að tryggja kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050 og því verði gripið til markvissra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að aðlaga samfélög og efnahagskerfi Evrópu að áhrifum loftslagsbreytinga. Þá er sáttmálanum ætlað að stuðla að hringrásar hagkerfi og vernda náttúruauðlindir og líffræðilegan fjölbreytileika.

Frá býli til borðs

Liður í græna sáttmálanum er hin svokallaða „Farm to fork“ (F2F) stefna sem ætlað er að tryggja umskipti í sjálfbært matvælakerfi innan ESB sem verndar fæðuöryggi og tryggja aðgang að hollum matvælum frá heilbrigðri plánetu. Stefnan er sérstök að því leyti að þetta er í fyrsta sinn sem matvælastefna ESB hefur heildstæða stefnu sem nær yfir öll stig matvælakeðjunnar og setur bæði neytendur og framleiðendur í forgrunn. Stefnunni er ætlað að draga úr umhverfis- og loftslagsspori matvælaframleiðslu ESB, styrkja framleiðslu matvæla, vernda heilsu íbúa Sambandsins og tryggja lífsviðurværi þeirra.

Stefnan leggur fram nokkur meginmarkmið sem Evrópusambandið hyggst ná fyrir árið 2030, þ.m.t.

  • að draga úr notkun og hættu á varnarefnum um 50%,
  • draga úr notkun áburðar um a.m.k. 20%,
  • draga úr sölu á sýklalyfjum til notkunar í eldisdýrum og fiskeldi um 50%
  • ·og að 25% af landsvæðinu skuli nýtt í lífrænan búskap.

Þá leggur stefnan áherslu á að komið verði á lögboðnum samræmdum merkingum matvæla (e. Front of Pack Labelling) innan 2 ára.

Stefnunni fylgir aðgerðaráætlun með 27 átaksverkefnum sem unnið skal að til ársins 2025. Tvö þessara átaksverkefna eru tiltölulega almenn, er það annars vegar rammi um sjálfbæra matvælaframleiðslu sem setur sameiginlegar meginreglur og skilgreiningar og hið síðara er gerð viðbragðsáætlunar til að tryggja framboð og aðgang að matvælum og kom það verkefni til vegna Covid-19 faraldursins. Þá eru 25 átaksverkefni sem snúa að setningu nýrra reglugerða eða endurskoðun gildandi reglugerða eins og t.d.:

  • að tryggja sjálfbæra matvælaframleiðslu (frumframleiðsla),
  • stuðla að sjálfbærri vinnslu og flutningum (fæðukeðja),
  • stuðla að sjálfbærri og heilbrigðri neyslu,
  • ·og að draga úr matarsóun (öll virðiskeðjan).

Evrópusambandið hefur lýst áhuga sínum á að EES/EFTA-ríkin taki þátt í gerð viðbragðsáætlunar vegna fæðuframboðs á krepputímum.

Fyrir liggur að stefnan er víðtæk og átaksverkefnin sem undir hana heyra falla bæði utan og innan EES-samningsins. Þá verður einnig að hafa í huga að upp kunna að koma álitamál hvað verkefni þessi varðar sem tengjast matvælalöggjöfinni sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn en eiga uppruna sinn í sameiginlegu landbúnaðar- og/eða sjávarútvegsstefnu ESB sem Ísland er ekki aðili að.

Mikilvægt er að Ísland vakti þá vinnu sem heyrir undir F2F-stefnuna sem fer fram á vettvangi ESB sem varðar jafnt beina sem og óbeina hagsmuni Íslands.

Aðgerðaáætlun um félagsleg réttindi

Framkvæmdastjórn ESB kynnti 4. mars sl. aðgerðaáætlun um félagsleg réttindi fram til 2030. Stefnt er að því að a.m.k. 78% íbúa á aldrinum 20-64 ára hafi atvinnu, a.mk. 60% fullorðinna hljóti starfsþjálfun á hverju ári og þeim sem séu í áhættuhópi vegna fátæktar eða félagslegrar útskúfunar fækki um a.m.k. 15 milljónir manna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta