Nr. 308/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 25. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 308/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23030075
Beiðni [...] um endurupptöku
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 6/2023, 20. janúar 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2022, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Úganda (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Sama dag móttók þáverandi talsmaður kæranda úrskurð kærunefndar í gegnum Signet transfer. Hinn 26. janúar 2023 barst kærunefnd krafa um frestun réttaráhrifa frá þáverandi talsmanni kæranda. Með úrskurði kærunefndar nr. 135/2023, dags. 7. mars 2023, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.
Hinn 22. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 20. janúar 2023, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn og viðbótargreinargerð frá kæranda 15. maí 2023.
Kærandi kom ásamt talsmanni sínum til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála 11. maí 2023.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Aðalkrafa kæranda er að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Til vara gerir kærandi kröfu um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og máli hans verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun í ljósi breyttra forsendna.
-
Málsástæður og rök kærenda
Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að samkvæmt bréfi ráðgjafa hjá Samtökunum 78, dags. 24. febrúar 2022, hafi kærandi greint frá því í viðtali hjá samtökunum að hann sé tvíkynhneigður. Kærandi hafi fyrst haft samband við samtökin í október 2022 í þeim tilgangi að koma út úr skápnum en kvíði hans hafi hindrað hann í að opna sig um kynhneigð sína á þeim tíma. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að hann hafi alltaf fundið fyrir kenndum til karlmanna en hafi ekki leyft sér að upplifa þær langanir fyrr en hann hafi komið til Íslands. Kærandi upplifi kvíða yfir því að verða endursendur til heimaríkis síns og þurfa að mæta fjölskyldu sinni sem sé ókunnugt um kynhneigð hans. Þá hafi kærandi greint frá því að hann væri í samskiptum við mann sem hann fái stuðning frá. Umræddur maður hafi afhent lögmanni kæranda yfirlýsingu, dags. 1. mars 2023, um að hann hafi átt í sambandi við kæranda sem hafi verið af kynferðislegum toga.
Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann telji eðlilegt að hann hafi ekki upplýst stjórnvöld um kynhneigð sína fyrr þar sem hann hafi flúið heimaríki sitt af öðrum ástæðum. Kærandi hafi ekki sætt ofsóknum í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar þar sem hann laðist einnig að kvenmönnum og veki því ekki eftirtekt í samfélaginu í heimaríki. Kærandi telur að með vísan til hinna nýju upplýsinga um kynhneigð hans sé með öllu óforsvaranlegt að senda hann aftur til heimaríkis þar sem tvíkynhneigð sé bönnuð með lögum að viðlagðri refsing. Kærandi vísar til þess að samkynja kynlíf, kossar og hvers konar ástríðufullar snertingar einstaklinga af sama kyni sé saknæm hegðun í Úganda samkvæmt 145. og/eða 148. gr. úgöndsku hegningarlaganna. Þá verði hinsegin einstaklingar fyrir ofsóknum, ofbeldi og útskúfun í Úganda. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings um aðstæður hinsegin einstaklinga í Úganda til mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um aðstæður í Úganda frá 2021 og skýrslu Human Rights Watch frá mars 2023.
Í viðbótargreinargerð frá kæranda kemur fram að hann vilji árétta að hann hafi ekki fyllilega komið út úr skápnum fyrr en í lok árs 2022 þegar hann hafi hafið að stunda kynlíf með karlmönnum í fyrsta sinn. Kærandi hafi fyrst komist í kynni við samkynhneigða karlmenn sumarið 2022 og hafi samskipti hans við þá falið í sér að fara saman á bari og skemmta sér. Þeir hafi spurt hann hvort hann væri samkynhneigður en hann svarað neitandi þar sem hann hafi ekki verið tilbúinn að uppljóstra um kynhneigð sína. Í september til og með október 2022 hafi kærandi í fyrsta sinn á ævi sinni hafið kynferðislegt samband með einstaklingi af sama kyni. Kærandi líti á þennan tíma sem augnablikið sem hann hafi komið út úr skápnum sem tvíkynhneigður maður. Í fyrsta lagi hafi kærandi upplifað að hann gæti ekki lengur flúið þá staðreynd að hann langaði í samband við karlmann, bæði rómantískt og kynferðislegt og fundið að samkynja samband myndi henta honum betur en gagnkynja. Í öðru lagi líti kærandi svo á að kynlífið með öðrum manni hafi raungert tvíkynhneigð hans þar sem að fram að því hafi hann aðeins stundað kynlíf með konum. Þá hafi kærandi áhyggjur af stöðu sem bíði hans í heimaríki vegna laga sem hafi verið samþykkt í mars sl. en þau heimili grófar ofsóknir gegn hinsegin einstaklingum.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku
Um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að atvik í máli hans hafi breyst verulega í ljósi þess að hann hafi nú viðurkennt að hann sé tvíkynhneigður maður. Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram eins og áður segir bréf frá ráðgjafa Samtakanna 78, dags. 24. febrúar 2023, og yfirlýsingu íslensks manns, dags. 1. mars 2023, þess efnis að hann staðfesti að hafa átt í kynferðislegu sambandi við kæranda.
Vegna framangreindrar yfirlýsingu fékk kærunefnd leyfi til að hafa samband við þann sem ritaði undir yfirlýsinguna. Í samtali starfsmanna kærunefndar þann 12. apríl 2023 við umræddan mann staðfesti hann að hafa átt í samskiptum og kynferðislegu sambandi við kæranda. Aðspurður kvað hann þá hafa kynnst í gegnum samskiptamiðilinn Grindr einhvern tímann í febrúar 2023. Kvað hann að þeir væru ennþá í einhverjum samskiptum.
Í ljósi nýrrar málsástæðu kæranda og framlagðra gagna taldi kærunefnd tilefni til að boða hann í viðtal hjá nefndinni til að leggja mat á trúverðugleika frásagnar hans.
Í viðtali hjá kærunefnd 11. maí 2023 staðfesti kærandi frásögn um samband við umræddan íslenskan mann. Þá var kærandi meðal annars spurður að því hvers vegna hann hafi ekki greint frá kynhneigð sinni fyrr. Kærandi kvaðst ekki hafa verið tilbúinn að viðurkenna kynhneigð sína fyrr en hann hafi fyrst uppgötvað kenndir til karlmanna þegar hann hafi verið 21 árs. Kærandi hafi hins vegar ekki gert neitt í því í heimaríki vegna aðstæðna LGBTQ+ einstaklinga þar í landi. Í viðbótargreinargerð kæranda sem lögð var fram til kærunefndar eftir viðtal við kæranda kemur fram að kærandi hafi kynnst samkynhneigðum mönnum hér á landi sumarið 2022 og stundað skemmtanalíf með þeim. Kærandi hafi í september og október það ár hafið í fyrsta skipti á ævinni kynferðislegt samband með einstaklingi af sama kyni.
Eftir viðtal hjá kærunefnd lagði kærandi þann 15. maí 2023 fjölda skjáskota af samskiptamiðlunum Grindr, Whatsapp og Messenger. Flest samskiptin voru milli kæranda og fyrrnefnds manns. Þau fyrstu af Grindr forritinu 11. febrúar 2023. Þá má sjá af skjáskoti af Messenger frá mars, apríl og maí að kærandi og umræddur maður hafi haldið áfram samskiptum sínum. Þá hefur hann einnig átt í einhverjum samskiptum við aðra karlmenn á þessum tíma.
Að mati kærunefndar var kærandi einlægur í svörum sínum í viðtali hjá nefndinni um kynhneigð sína og ástæðu þess að hann hafi ekki greint frá kynhneigð sinni hjá íslenskum stjórnvöldum þegar hann lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi 1. september 2021. Þá telur kærunefnd að framlögð gögn styðji við trúverðugleika frásagnar kæranda. Verður framburður kæranda því lagður til grundvallar og byggt á því að kærandi sé tvíkynhneigður.
Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ný gögn og upplýsingar liggja fyrir sem sýna fram á að úrskurður kærunefndar frá 20. janúar 2023 hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin og tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir.
Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.
-
Niðurstaða kærunefndar um kröfu kæranda um alþjóðlega vernd
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úganda m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Uganda (United States Department of State, 23. mars 2023);
- Amnesty International Report 2017/18 – Uganda (Amnesty International, 27. mars 2023);
- Country Policy and Information Note: Uganda: Sexual orientation and gender identity and expression (U.K. Home Office, febrúar 2022);
- Freedom in the World 2023 – Uganda (Freedom House, 2023);
- Uganda 2019 (Amnesty International, skoðað 29. júní 2020);
- World Report 2023 – Uganda (Human Rights Watch, 12. janúar 2023);
- Hegningarlög Úganda (Uganda: The Penal Code Act (Chap. 120), 1950)
Úganda er lýðveldi með rúmlega 43 milljónir íbúa. Úganda gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann 25. október 1962. Árið 1986 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1987, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1995 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004.
Í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022, um ástand mannréttindamála í Úganda, og nýjustu ársskýrslum mannréttindasamtakanna Amnesty International og Human Rights Watch kemur m.a. fram að meðal helstu mannréttindabrota þar í landi séu morð og pyndingar af hálfu öryggissveita, slæmar fangelsisaðstæður, geðþóttahandtökur og -varðhald, takmarkanir á prent-, tjáningar-, funda- og félagafrelsi og pólitískri þátttöku, opinber spilling, refsivæðing samkynhneigðar og áreitni gegn LGBTQ+ einstaklingum.
Samkvæmt hegningarlögum landsins séu kynferðislegar athafnir meðal einstaklinga af sama kyni refsiverðar og geta varðað allt að lífstíðarfangelsi. Í upplýsinga- og leiðbeiningarskýrslu breska innanríkisráðuneytisins um kyn og kynhneigð í Úganda frá febrúar 2022 kemur fram að í framkvæmd hafi einstaklingar ekki verið ákærðir fyrir þær athafnir þrátt fyrir að hafa verið handteknir á þeim grundvelli. LGBTQ+ einstaklingar hafi orðið fyrir mannréttindabrotum bæði af hálfu lögregluyfirvalda í Úganda og annarra ríkisstofnana. Þá hafi borið á kvörtunum LGBTQ+ einstaklinga vegna illrar og vanvirðandi meðferðar auk líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis, auk þess sem þeim hafi verið gert að sæta endaþarmsskoðun hjá heilbrigðisstarfsfólki í þágu rannsóknar hjá lögreglu. Þá rannsaki lögreglan í Úganda almennt ekki meint brot gagnvart LGBTQ+ einstaklingum. Einnig geti LGBTQ+ einstaklingar sætt mismunun hjá öðrum innviðum samfélagsins, t.a.m. þegar þeir sæki sér heilbrigðisþjónustu eða reyni að verða sér úti um atvinnu og húsnæði. Fram kemur í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að yfirvöld hafi staðið fyrir ofbeldi gagnvart LGBTQ+ einstaklingum og stöðvað samkomur sem hafi verið skipulagðar af samtökum á vegum þeirra. Samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var 22. mars 2023 á vefsíðu Human Rights Watch samþykkti úgandska þingið 21. mars 2023 frumvarp til laga sem festa enn betur í sessi refsinæmi fyrir samkynhneigð og að lifa sem samkynhneigður einstaklingur í Úganda. Þá sé í frumvarpinu nýr brotaflokkur sem ætlaður er til að draga úr hvers konar aktívisma í málefnum LGBTQ+ einstaklinga og koma í veg fyrir þátttöku þeirra einstaklinga í úgöndsku samfélagi. Fram kemur að frumvarpið staðfesti þegar gildandi refsingu það er lífstíðarfangelsi fyrir að hegðun sem falli undir samkynhneigð (e. same-sex conduct) og þá sé refsingin fyrir tilraun til hegðunar sem falli undir samkynhneigð hækkuð í 10 ára fangelsisdóm. Jafnframt sé í frumvarpinu lagt til að dauðarefsing sé við ítrekaðri samkynhneigðri hegðun (e. aggravated homosexuality), sé hugtakið víðtækt og feli meðal annars í sér þá háttsemi að stunda kynlíf með einhverjum sem sé HIV-jákvæður eða það að vera staðinn að ítrekuðum brotum gegn lögum um samkynhneigð. Í frumvarpinu sé gert refsivert að skilgreina sig sem LGBTQ+ einstakling eða með öðrum hætti en sem karlmaður eða kona. Brot gegn því geti slíkt varðað við fangelsisrefsingu í allt að 10 ár.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærunefnd hefur jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varðar kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugee, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).
Af framangreindum gögnum um aðstæður samkynhneigðra einstaklinga í Úganda er ljóst að LGBTQ+ einstaklingar eru litnir á hornauga í úgöndsku samfélagi og sæti þeir mismunun á flestum sviðum þjóðfélagsins, t.a.m. í tengslum við heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Samkvæmt hegningarlögum landsins er samkynhneigð refsiverð og varða kynferðislegar athafnir á meðal fólks af sama kyni allt að lífstíðarfangelsi. Framangreind gögn bera með sér að mannréttindabrot gagnvart LGBTQ+ einstaklingum eru útbreidd, m.a. af hálfu lögregluyfirvalda og annarra stjórnvalda og rannsaki lögreglan í Úganda ekki meint brot gagnvart þeim. Þá verði LGBTQ+ einstaklingar fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu lögregluyfirvalda og skipulagðar samkomur á vegum LGBTQ+ einstaklinga séu stöðvaðar af lögreglunni. Samkynhneigðir einstaklingar geti ekki leitað til lögregluyfirvalda í Úganda telji þeir á sér brotið og geti því ekki reitt sig á vernd yfirvalda óttist þeir ofsóknir eða illa meðferð á grundvelli kynhneigðar sinnar.
Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að LGBTQ+ einstaklingar í Úganda eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kynhneigðar sinnar þar í landi sem geti náð því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og b-lið 2. mgr. 38. laganna. Með vísan til framangreinds telur er það mat kærunefndar að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur á grundvelli kynhneigðar í heimaríki, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi þess að aðgerðir gegn réttindum LGBTQ+ einstaklinga í heimaríki kæranda felast í lagasetningu og aðgerðum yfirvalda og gilda alls staðar þar í landi er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að annars staðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu er fallist á beiðni kæranda um endurupptöku. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.
Tómas Hrafn Sveinsson
Þorbjörg I. Jónsdóttir Sindri M. Stephensen