Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Utanríkisráðuneytið

Mælt fyrir skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar

Skýrsla Eyglóar Harðardóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2015 var kynnt á Alþingi í dag. Markmið skýrslunnar er að gera Alþingi grein fyrir því norræna samstarfi sem á sér stað á fjölmörgum sviðum og þýðingu þess fyrir Ísland.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti fyrir skýrslunni fyrir hönd Eyglóar sem stödd er í New York þar sem hún tekur þátt í 60. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir.

Eins og sést af skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda er norrænt samstarf viðamikið og á mörgum sviðum. Í skýrslunni er m.a. greint frá samstarfi sem tengist sjávarútvegi, fiskeldi, landbúnaði og skógrækt, samstarfi á sviði atvinnumála, orkumála og byggðamála, samstarfi á sviði umhverfismála, menningarmála, menntunar og vísinda, jafnréttismála, félags- og heilbrigðismála, vinnumála og á sviði dómsmála.

Danir tóku við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í byrjun árs 2015 af Íslendingum sem leiddu samstarfið árið 2014. Starfið var að mestu með hefðbundnu sniði, þar sem unnið var að verkefnum í samræmi við formennskuáætlun Dana sem kynnt var á Norðurlandaráðsþingi árið 2014 en jafnframt var unnið eftir áætlunum um ákveðin verkefni sem ná yfir nokkurra ára skeið samkvæmt samkomulagi.

Vöxtur, velferð og gildi var yfirskrift formennskuáætlunar Dana árið 2015. Fjögur áherslumál voru sett í forgrunn: að hafa vöxt og atvinnu í fyrirrúmi, standa vörð um norræna velferð, auka vitund um norræn gildi og leggja áherslu á samstarf um norðurskautið. Formennskuverkefnin voru tíu talsins og taka þau með ýmsum hætti mið af áherslum ársins.

Norræna landamærahindranaráðið

Daglega sækja tugþúsundur manna vinnu yfir landamæri á Norðurlöndum, fjölmargir flytja búferlum milli landanna ár hvert og margir flytja sig um set tímabundið til að stunda nám um lengri eða skemmri tíma í öðru norrænu landi. Þá starfa norræn fyrirtæki í vaxandi mæli þvert á norræn landamæri. Um þetta er m.a. fjallað í skýrslu samstarfsráðherra þar sem segir að þessi miklu samskipti og flutningar leiði gjarna í ljós ýmsar hindranir þar sem löggjöf eða framkvæmd reglna milli landa stangast á. Norræna landamærahindranaráðið hefur það meginverkefni að gera tillögur að lausnum á hindrunum af þessu tagi og koma í veg fyrir að nýjar hindranir verði til. Árið 2015 lagði ráðið áherslu á samstarf við aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði.

Eins og fram kom í ræðu utanríkisráðherra þegar hann mælti fyrir skýrslunni um norrænt samstarf á Alþingi í dag hefur straumur flóttafólks til Norðurlandanna sett mark sitt á norrænt samstarf sem m.a. lýsir sér í því að tekið var upp landamæraeftirlit milli Danmerkur og Svíþjóðar og Danmerkur og Þýskalands sem beinist jafnt að norrænum borgurum sem öðrum. Ráðherra sagði þetta áhyggjuefni, m.a. í ljósi vinnu við að ryðja úr vegi landamærahindrunum svo norrænir samningar, t.d. um sameiginlegan vinnumarkað geti náð fram að ganga. Þessi nýja staða á norrænum landamærum verður meginviðfangsefni aukaþings Norðurlandaráðs sem haldið verður í Ósló í apríl næstkomandi.

Norræna velferðarvaktin

Fjallaað er um stöðu rannsóknarverkefnisins Norrænu velferðarvaktarinnar í skýrslu samstarfsráðherra, en efnt var til þess á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og því lýkur á þessu ári. Rannsóknarverkefnið beinist að þremur sviðum, þ.e. velferð og vá, kreppum og velferð og loks er það markmið verkefnisins að velja samræmda norræna velferðarvísa sem gera mögulegan samanburð milli Norðurlandanna á sviði velferðarmála. Formennskuverkefni Íslands sem hófust árið 2014 ganga vel. Þau eru öll á áætlun og lýkur á þessu ári.

Áherslur í vinnumarkaðsmálum

Á vegum Norrænu vinnumarkaðsnefndarinnar var á liðnu ári lokið við rannsókn þar sem kannaðar voru og greindar leiðir ungs fólks frá skóla og út í atvinnulífið á grundvelli samanburðar á milli landanna. Í annarri rannsókn var borin saman starfsmenntun í löndunum og loks mán nefna verkefni þar sem fjallað var um öflun gagna til grundvallar fyrir mati á menntun og hæfni fólks á vinnumarkaði. Ýtarlega umfjöllun um verkefni á sviði vinnumarkaðsmála má finna í skýrslu samstarfsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta