Hoppa yfir valmynd
16. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Starfshópur vinni tillögur til að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Hópurinn er skipaður í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Hlutverk hópsins verður að greina núverandi starfs- og menntunartækifæri fatlaðs fólks með tilliti til þess hvað þurfi að bæta, auk þess að koma með tillögur að aðgerðum. 

 

Tillögunum er ætlað að falla að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um menntun og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Markmiðið er að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum. Við störf hópsins verður hugað að samspili við störf samhæfingarnefndar um velferð og virkni á vinnumarkaði sem fjallar meðal annars um mögulegar leiðir til að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum á vinnumarkaði, en félags- og vinnumarkaðsráðherra setti hana á fót í júlí síðastliðnum.

 

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið mun leiða hópinn en gert er ráð fyrir að í honum verði fulltrúar frá ofangreindum ráðuneytum sem og fulltrúar frá öðrum ráðuneytum og stofnunum sem að málaflokknum koma, auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum aðila vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta