Hoppa yfir valmynd
23. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staða umgengnisforeldra ​og barnafjölskyldna

Á fundi Velferðarvaktarinnar í dag voru kynntar niðurstöður rannsóknar á stöðu barnafjölskyldna sem deila ekki lögheimili saman. Velferðarvaktin og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóðu að rannsókninni en Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmd hennar.

Rannsóknin var unnin í samstarfi við Foreldrajafnrétti, sem veitti aðstoð við undirbúning og vinnslu rannsóknarinnar. Í undirbúningsferlinu var einnig leitað til embættis umboðsmanns barna, PEPP-Samtaka fólks í fátækt, Félagsráðgjafafélags Íslands og fleiri sérfræðinga. Markmiðið með rannsókninni var að reyna að varpa ljósi á aðstæður umgengnisforeldra og barna þegar kemur t.d. að umgengni, samskiptum og öðru sem lýtur að því að ala upp börn á tveimur heimilum. Rannsóknin náði til tilviljunarúrtaks foreldra sem ekki deila lögheimili með barni.

Skýrsla: Staða og aðstæður foreldra sem ekki deila lögheimili með barni.

Nýtist vonandi til góðs

Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar:

„Við höfum vitað frekar lítið um stöðu þessa hóps og fögnum því góða samstarfi sem við áttum við Foreldrajafnrétti og fleiri aðila um rannsóknina. Við vonum að hún nýtist til góðs og gerum ráð fyrir að halda málþing í haust um niðurstöðurnar þar sem unnt verður að kryfja málin enn frekar. Hagsmunir barna eru í fyrirrúmi. Vitað er að góð samskipti og samvinna milli foreldra um uppeldi og mál barna þeirra hefur jákvæð áhrif á hagsmuni barnsins. Í þessu sambandi má nefna verkefnið Samvinna eftir skilnað, sem miðar að því að auðvelda börnum að komast í gegnum skilnað foreldra. Um er að ræða stafræn námskeið fyrir foreldra sem fjalla um hinar ýmsu breytingar og áskoranir í kjölfar skilnaðar.“

Dæmi um niðurstöður:

  • Langflest börn, sem svarendur áttu áður en stofnað var til núverandi sambands, voru í sameiginlegri forsjá en langoftast var lögheimili barnsins hjá hinu foreldrinu sem í flestum tilvikum var móðir. Algengast var að börnin dveldu jafnt á báðum heimilum (41%) en þó var töluvert stór hópur barna sem dvaldi innan við sjö daga í mánuði hjá svaranda könnunarinnar (30%).

  • Aðstæðubundnir þættir voru algengasta ástæða þess að börn dvöldu ekki oftar en sjö daga í mánuði á heimili svarenda en þó nefndi stór hópur að hitt foreldrið kæmi í veg fyrir umgengni. Yngstu svarendurnir, þ.e. þeir sem voru undir 35 ára, voru líklegri til að nefna aðstöðuleysi en eldri svarendur. Einnig voru svarendur sem bjuggu í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði mun líklegri til að segja að aðstæður leyfðu ekki meiri umgengni en þeir sem bjuggu í eigin húsnæði.

  • Hlutfallslega flestir svarendur áttu í góðum samskiptum við hitt foreldri barnanna. Þó þóttu samskiptin vera frekar slæm í tilviki 12% barna og mjög slæm í tilviki 11% barna.

  • Í heild sýna niðurstöður um fjárhagsaðstæður foreldra, sem ekki deila lögheimili með barni, að mikill breytileiki er innan hópsins og hlutfall þeirra sem upplifa fjárhagserfiðleika er svipað og meðal fólks á Íslandi, almennt. Fjárhagserfiðleikar eru mismiklir eftir aðstæðum hverju sinni. Til dæmis jukust líkur á að foreldrar væru í vanskilum með meðlagsgreiðslur eftir því sem þeir áttu fleiri börn sem þeir greiddu meðlag með. Sömuleiðis voru meiri líkur á að foreldrar væru með gjaldfallnar kröfur vegna meðlagsgreiðslna ef barn þeirra dveldi fáa daga í mánuði á heimilinu.

  • Hlutfallslega flestir svarenda, eða 38% töldu fjölskyldu sína vera álíka vel stæða og aðrar fjölskyldur á Íslandi. Hlutfallslega fleiri töldu fjölskyldu sína vera betur stæða en fjölskyldur almennt en sem töldu fjölskyldu sína vera verr stæða. Alls höfðu 11% svarenda mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni og 24% höfðu af henni frekar miklar áhyggjur.

  • Stór hluti þátttakenda, eða 59% hafði upplifað mismunun vegna þess að þeir áttu barn sem ekki deildu með þeim lögheimili. Þátttakendur sem upplifðu mismunun voru beðnir að lýsa því í hverju mismununin fólst. Mikið var um að foreldrar upplifðu mismunun vegna þess að bætur og greiðslur sem fylgja barninu færu til lögheimilisforeldris og sömuleiðis nefndi stór hluti svarenda að öllum upplýsingum um barnið væri beint til lögheimilisforeldris. Þá þótti lögheimilisskráningin bitna á daglegu lífi svarenda, svo sem samskiptum við barnið og ákvörðunum er varða barnið.

  • Í heild sýna niðurstöður spurninga um ofbeldi og mismunun að töluvert er um að foreldrar sem ekki deila lögheimili með barni telji sig verða fyrir misrétti. Á það einkum við um foreldra sem eiga barn sem dvelur stutt á heimili þeirra og sem segja hitt foreldrið fara eitt með forsjá barns.

  • Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu fjárhag sinn auka eða draga úr gæðum samverutíma síns og barns eða barna sem ekki deildu með þeim lögheimili. Álíka hátt hlutfall taldi fjárhaginn auka gæði samverustunda og sem taldi fjárhaginn draga úr gæðum samverustunda.

Frekari upplýsingar um rannsóknina veitir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, í netfanginu aaa1(hjá)hi.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta