Hoppa yfir valmynd
5. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 375/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 375/2018

Miðvikudaginn 5. desember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. maí 2018 um að synja kæranda um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2018, var að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samþykktur styrkur til kæranda vegna bifreiðakaupa á tímabilinu 1. janúar 2018 til 31. desember 2018. Stofnuninni barst X 2018 kaupsamningur kæranda vegna bifreiðakaupa. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. mars 2018, var kæranda synjað um veitingu uppbótar/styrks vegna innlagnar hans á stofnun frá X 2018. Óskað var eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar með bréfum, dags. 30. mars 2018 og 22. apríl 2018, og var með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. maí 2018, tekin ný ákvörðun í málinu, en þar var kæranda synjað um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með þeim rökum að skráður ökumaður kæranda væri ekki lengur heimilismaður hans.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. október 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum sem staðfestu framkomnar ástæður þess að kæra barst nefndinni of seint. Með bréfi, dags. 26. október 2018, bárust gögn frá kæranda.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Gerð er sú krafa að kærandi fái greiddan bifreiðastyrk sem Tryggingastofnun hafi samþykkt þann 11. desember 2018. Þá hafi ekki staðið til að kærandi færi á sjúkrahús til frambúðar en innlögn hans á stofnun til frambúðar hafi komið óvænt upp á.

Bifreiðin hafi verið keypt í […] í góðri trú um að hann fengi afgreiddan styrk til kaupanna. Enn sé til staðar þörf kæranda fyrir bifreið þar sem hann hafi þurft að fara margar ferðir til [...] og þá hafi umboðsmaður hans þurft að keyra hann. Þá hafi kærandi farið með umboðsmanni sínum í [...]. Kærandi komi einnig [...].

Kærandi hafi fengið sér lögfræðing eftir synjunina sem hafi ætlað að kæra þetta en lögfræðingurinn hafi svikið hann og það sé ástæða þess að kæran hafi borist svona seint.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega fimm mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja honum um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með bréfi, dags. 17. maí 2018, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. október 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1.      afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2.      veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 17. maí 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að ástæða þess hve kæra sé seint fram komin hafi verið sú að lögmaður, sem hafi tekið að sér að kæra ákvörðunina, hafi ekki staðið við sitt. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2018, var athygli kæranda vakin á skilyrðum sem fram komi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga og honum veittur kostur á að leggja fram frekari gögn sem staðfestu það sem fram kom í kæru. Í framlögðum gögnum kæranda um rafræn samskipti við lögmann verður ráðið að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið rædd, auk ástæðu synjunar stofnunarinnar. Þá hafi einnig verið rætt um hvaða möguleikar væru í stöðunni. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála staðfesta framangreind gögn ekki að lögmaðurinn hafi tekið að sér að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar heldur eingöngu að frekari samskipti væru væntanleg vegna nánari skoðunar á málinu. Þegar af þeirri ástæðu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.  


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta