Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Umferðareftirlit á þjóðvegum og í þéttbýli hert

Gengið hefur verið frá samningum milli Ríkislögreglustjórans, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytisins um aukið umferðareftirlit lögreglunnar um land allt. Samningarnir eru grundvallaðir á umferðaröryggisáætlun sem gilt hefur fyrir árin 2005 til 2008 og endurskoðaðri áætlun sem lögð verður fyrir Alþingi á næstu dögum. Verður 218 milljónum króna varið til verkefna á þessum sviðum árin 2007 og 2008.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra greinir frá nýjum samningum um aukið umferðareftirlit. Við hlið hans er Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra greinir frá nýjum samningum um aukið umferðareftirlit. Við hlið hans er Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Samninginn undirrituðu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis. Einnig var Kjartan Magnússon, nýr formaður Umferðarráðs viðstaddur undirritunina svo og fulltrúar nokkurra lögregluembætta landsins, Umferðarstofu, samgönguráðuneytisins og fjölmiðlar.

Í ávarpi við undirritunina sagði Sturla Böðvarsson meðal annars: ,,Samningarnir nú eru tímamótasamningar. Þeir snúast um það að herða enn á eftirliti á þjóðvegum og í þéttbýli. Með þeim búnaði sem fylgir samningnum og tekinn verður í notkun á þessu ári og því næsta, verður lögreglunni unnt að vera mun sýnilegri og veita enn meira aðhald en áður. Ég vek sérstaka athygli á því að þessi verkefni draga á engan hátt úr öðrum verkefnum eða hefðbundnu eftirliti lögreglunnar heldur er þetta er hrein viðbót við þær öryggisráðstafanir sem þegar eru gerðar af hálfu lögreglunnar.”

Í samningunum eru tryggðir fjármunir til kaupa á 8 lögreglubifhjólum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær til umráða, 32 ratsjártækjum með myndavélum í lögreglubíla og mótorhjól, á 16 myndavélum sem settar verða upp vegna hraðaeftirlits á þjóðvegum og 11 öndunarsýnamælum. Einnig eru tryggðir fjármunir í tvö stöðugildi hjá lögreglunni vegna úrvinnslu á sektum á grundvelli mynda úr sjálfvirku hraðaeftirlitsmyndavélunum 16. Því er ekki aðeins verið að bæta við tækjakost lögreglunnar heldur einnig er henni gert kleift að fylgja eftir hugsanlegum brotum af fullum þunga.

Í lokin nefndi samgönguráðherra að fyrirhugað væri að auka umferðarfræðslu á öllum sviðum og sagði meðal annars um það: ,,Best væri að geta samtvinnað alla umferðarfræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum þannig að börn og unglingar fái þar góða og markvissa fræðslu. Mikilvægt er að börn og unglingar fái það strax á tilfinninguna að því fylgir mikil ábyrgð að vera vegfarandi hvort sem er gangandi, hjólandi eða akandi. Sérstök áhersla verði lögð á aðdraganda ökuréttinda og byggt undir þá fræðslu með öruggri þjálfun og kennslu. Aðeins með því að leggja grunninn nógu snemma getum við vænst þess að borgararnir verði ábyrgir þátttakendur í umferðinni.”

Samið hefur verið við lögregluna um aukið umferðareftirlit.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta