Nr. 181/2025 Úrskurður
Hinn 28. febrúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 181/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24100149
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. október 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2024, um að synja umsókn hans um dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hans. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar á kærustigi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt hjúskaparvottorði, dags. [...], gekk kærandi í hjúskap [...] með ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis. Maki kæranda skráði dvöl sína hér á landi hjá Þjóðskrá Íslands 8. júní 2022. Á grundvelli dvalarréttar hennar lagði kærandi fram umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara 10. ágúst 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2024, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að hjúskapur kæranda og maka hans væri til málamynda og í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis. Bryti hjúskapur þeirra gegn 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga og væri Útlendingastofnun því heimilt að synja kæranda um útgáfu dvalarskírteinis. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 22. október 2023. Hinn 23. október 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Samhliða kæru óskaði kærandi eftir tveggja vikna fresti til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 23. október 2024, var kæranda veittur frestur til 6. nóvember 2024 til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða frekari fylgigögn vegna málsins.
Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að rétt væri að synja kæranda um útgáfu dvalarskírteinis. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki mælt fyrir um skyldu kæranda til að yfirgefa landið og af þeim sökum ekki slík réttaráhrif af ákvörðuninni sem kalli á að þeim verði frestað.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð á kærustigi. Við meðferð og úrlausn málsins leit kærunefnd þó til röksemda og fylgigagna sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum. Með aðstandanda í skilningi ákvæðisins er m.a. átt við maka. Jafnframt er fjallað um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar í 86. gr. laganna. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er síðar varð að núgildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar fara og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.
Í málinu liggur fyrir afrit af hjónavígsluvottorði, dags. [...], en samkvæmt efni vottorðsins gengu kærandi og maki hans í hjúskap á Íslandi [...]. Þá kemur fram í gögnum málsins að maki kæranda hafi skráð dvöl sína hér á landi 8. júní 2022.
Í 1. mgr. 90. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins og skal Útlendingastofnun gefa út skírteinið að fenginni umsókn, sbr. jafnframt 3. mgr. 90. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að Útlendingastofnun synjaði kæranda um útgáfu dvalarskírteinis á þeim grundvelli að kærandi og maki hans hefðu stofnað til hjúskapar til þess að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna.
Í 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandenda hans. Segir m.a. í 1. mgr. ákvæðisins að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum XI. kafla falli niður ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. laganna sé að ræða. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 92. gr. laganna að heimilt sé að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé.
Eins og að framan greinir er í 1. mgr. 92. gr. vísað til 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem fjallar um veitingu dvalarleyfis vegna hjúskapar. Þar segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Með lögum nr. 56/2023 um breytingu á lögum um útlendinga var heimild til þess að setja ákvæði í reglugerð um framkvæmd málsgreinarinnar, þ.m.t. til hvaða viðmiða skuli líta varðandi rökstuddan grun á stofnun hjúskapar eða sambúðar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, en slíkt ákvæði í reglugerð hefur ekki verið sett.
Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:
„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“
Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Þá ber að líta til þess að lagaákvæði er fjalla um málamyndahjúskap verði að taka mið af mannréttindaákvæðum um friðhelgi fjölskyldu, sbr. meðal annars 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda geta ákvarðanir um synjun dvalarréttar skert rétt til fjölskyldulífs. Ef hjúskap er komið á til málamynda stefnir hann almennt ekki að raunverulegu fjölskyldulífi, sem mannréttindaákvæðunum er ætlað að vernda.
Meðal atriða sem rannsaka þarf sérstaklega er tilurð hjúskapar eða sambúðar enda leggi lagaákvæðin höfuðáherslu á tilgang hjúskapar eða sambúðar, þ.e. hvort til þess hafi verið stofnað til þess að afla dvalarleyfis eða dvalarskírteinis. Að auki verður að gera þá kröfu að tilgangur dvalar sé raunverulega að sameinast aðstandanda sínum hér á landi.
Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis. Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin byggi mat sitt einkum á eftirfarandi atriðum.
Í fyrsta lagi vegna þess að ekki hefðu verið færðar sönnur á fullyrðingar kæranda og maka hans um samvistir á árunum fyrir hjúskap, og kunningsskap frá barnsaldri. Í öðru lagi vegna upplýsinga sem komu fram í búseturannsókn lögreglu, dags. 30. mars 2023. Í þriðja lagi vegna þess að maki kæranda hafi, að langstærstum hluta, dvalið í heimaríki í kjölfar hjúskaparins. Í fjórða lagi vegna þess að fram hafi komið upplýsingar í viðtölum kæranda og maka hans sem bentu til þess að þau hafi ekki varið miklum tíma saman. Þá hafi Útlendingastofnun talið að tiltekin gögn á borð við stuðningsbréf nákominna og ljósmyndir, samskipti o.fl. væru til þess fallin að villa um fyrir stjórnvöldum, sem dregið hafi úr trúverðugleika gagnanna.
Samkvæmt gögnum málsins skráði maki kæranda dvöl sína hér á landi 8. júní 2022, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 89. gr. laga um útlendinga, og gekk hún í hjúskap með kæranda um [...] mánuðum síðar, eða [...]. Kærandi sótti síðan um dvalarskírteini 10. ágúst 2022. Kærandi og maki hennar voru því bæði búsett hér á landi áður en þau gengu í hjúskap. Haldbær gögn sem sýna fram á sambúð þeirra eða náið samband að öðru leyti í heimaríki kæranda fyrir stofnun hjúskaparins hafa ekki verið lögð fram.
Samkvæmt gögnum málsins sendi Útlendingastofnun lögreglu bréf, dags. 15. mars 2023, og óskaði eftir því að lögregla framkvæmdi rannsókn á búsetu hjónanna og að gerð yrði skýrsla um rannsóknina. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 30. mars 2023, var kærandi handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna, en við handtökuna hafði hann undir höndum greiðslukort maka síns. Einnig hafi komið í ljós dvöl kæranda á Schengen-svæðinu frá 29. júlí 2021, samkvæmt stimpli í vegabréfi. Með hliðsjón af beiðni Útlendingastofnunar hafi lögregla fylgt kæranda á heimili hans þar sem fram hafi farið rannsókn á búsetu og heimilishögum hjónanna. Samkvæmt yfirlýsingum kæranda hafi maki hans verið erlendis í um tvær vikur, og viðbúið væri að hún yrði tvær vikur í viðbót. Hafi kærandi vísað til veikinda tengdamóður sinnar sem ástæðu fjarveru maka. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi ekki verið að finna kvenmannsfatnað í kringum hjónarúm þeirra en í fatahengi hafi verið tveir kvenmannsjakkar og ein peysa sem kærandi kvað maka sinn eiga. Samkvæmt skýrslunni voru þrír tannburstar inni á baðherberginu en engar snyrtivörur fyrir konur, og þá hafi engan kvenmannsfatnað verið að finna í þvottakörfu.
Við meðferð umsóknar um dvalarskírteini boðaði Útlendingastofnun kæranda og maka hans til viðtala hjá stofnuninni 12. september 2023, en endurrit viðtalanna eru meðal fylgigagna málsins. Í viðtölunum báru þau fram áþekka sögu um fyrri kynni og fyrra samband, og lýstu með áþekkum hætti atriðum á borð við atvinnuþátttöku og daglega rútínu. Fram kom að kærandi hefði fyrst komið til Íslands árið 2021 þar sem hann ætti nokkra vini hér á landi. Að hans sögn hafi hann þó ekki getað verið einn á Íslandi og því reynt að fá maka sinn til landsins um ári síðar, og þau gift sig í beinu framhaldi. Fram kom að maki kæranda hafi yfirgefið landið um svipað leyti og umsókn um dvalarskírteini var lögð fram. Hún hafi komið til landsins að nýju í febrúar 2023 og dvalið í nokkra daga og haldið að nýju til heimaríkis þar til september 2023, þ.e. þegar þau voru boðuð til viðtala hjá Útlendingastofnun.
Af öðrum atriðum sem tilgreind eru í athugasemdum með 8. mgr. 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga er ljóst að ekki er mikill aldursmunur á kæranda og maka hans auk þess sem þau bera fyrir sig að tala sama tungumál, þ.e. albönsku. Má það m.a. leiða af fyrirliggjandi samskiptum kæranda og maka hans á samfélagsmiðlum. Samkvæmt gögnum málsins, og einkum endurritum viðtala, má ráða að kærendur beri fyrir sig að hafa þekkst frá barnsaldri, þar sem maki kæranda hafi ferðast ásamt foreldrum sínum til Albaníu í sumarleyfum þegar hún hafi verið barn. Þá bera þau fyrir sig að hafa búið saman hjá foreldrum kæranda, og átt í einhvers konar ástarsambandi á árunum áður en kærandi flutti til Íslands. Þó dregur verulega úr trúverðugleika framburðar þeirra að ekki liggja fyrir nein haldbær gögn um þessa fyrri sambúð og vináttu, t.a.m. ljósmyndir, samskipti eða annað sem gæti rennt stoðum undir fullyrðingar þeirra.
Fram kemur í skýrslu lögreglu, sem og í viðtali við kæranda, að hann hafi dvalið á Íslandi frá júní árið 2021, og komið hingað vegna vináttu við ótilgreinda menn. Á þeim tímapunkti hafi kærandi ekki verið í hjúskap, né lágu fyrir aðrar upplýsingar eða gögn um fjölskyldutengsl við EES- eða EFTA-borgara, sbr. til hliðsjónar a-lið 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga. Að 90 dögum liðnum hafi dvöl kæranda því orðið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Háttsemi kæranda hafi þó verið til marks um ásetning hans til áframhaldandi dvalar á Íslandi. Samkvæmt framburði kæranda í viðtali hafi kærandi ákveðið að reyna að fá maka sinn til landsins þar sem hann hafi ekki getað verið einn hér. Þau hafi síðan gengið í hjúskap hér á landi, en dvöl maka kæranda á Íslandi verið takmörkuð frá hjónavígslu.
Af öðrum fylgigögnum málsins liggur fyrir mikið magn af ljósmyndum og myndskeiðum, auk skjáskota af samskiptum á milli kæranda og maka hans, einkum á tilgreindu samskiptaforriti. Þá liggja fyrir færsluyfirlit úr banka, og bréfaskriftir sem eiga að stafa frá vinum og fjölskyldumeðlimum kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er lagt til grundvallar að bréfin hafi verið skrifuð af einum og sama aðilanum. Taldi stofnunin það gert í þeim tilgangi að villa um fyrir stjórnvöldum sem drægi verulega úr trúverðugleika hjúskaparins. Samkvæmt gögnum málsins hafi Útlendingastofnun framkvæmt eigin rannsókn á rithöndum og texta umræddra bréfa, en ekki verður ráðið að stofnunin hafi lagt gögnin undir hendur rithandarsérfræðings. Þótt innihald bréfanna veki upp spurningar um trúverðugleika þeirra, og þ.a.l. sannleiksgildi, verður lagt til grundvallar að ályktanir starfsmanna Útlendingastofnunar séu ekki þess eðlis að unnt sé að leggja til grundvallar við úrlausn þessa máls að bréfin hafi verið rituð af sama einstaklingnum.
Kærunefnd hefur yfirfarið fylgigögn málsins, þ.m.t. málatilbúnað kæranda hjá Útlendingastofnun, en sem áður segir var stjórnsýslukæra kæranda ekki studd sérstökum röksemdum. Nefndin lítur sérstaklega til þess að ekki hafa verið lögð fram haldbær sönnunargögn sem styðja við framburð kæranda og maka hans um vináttu frá barnsaldri og sambúð á liðnum árum, þ.e. fyrir upphaf dvalar á Íslandi. Í endurriti viðtala þeirra hafi verið lagt fyrir þau að leggja fram ljósmyndir af þeim frá fyrri tíð, og báru þau því við að myndir kynnu að vera vistaðar á eldri farsíma maka kæranda, sem hún hefði ekki undir höndum. Var þeim jafnframt afhent tölvupóstfang fulltrúa Útlendingastofnunar sem gæti móttekið gögn frá þeim. Framangreindu til viðbótar eru einu tímasettu samskiptin á milli kæranda og maka sem lögð voru fram við meðferð málsins dagsett eftir komu þeirra til Íslands, og rennir ekki stoðum undir framburð þeirra um fyrri kynni. Bréf foreldra kæranda getur eitt og sér, einkum með vísan til annarra atriða, ekki talið nægja við sönnun á framburði þeirra um vináttu og fyrri sambúð.
Þá ríkir verulegur vafi um sameiginlega búsetu þeirra hér á landi, að teknu tilliti til upplýsinga sem fram koma í lögregluskýrslu, dags. 30. mars 2023, viðtölum kæranda og maka, og öðrum gögnum. Samkvæmt gögnum málsins kom maki kæranda til Íslands stuttu fyrir hjónavígslu þeirra og yfirgaf landið beinu framhaldi. Maki kæranda kvaðst hafa komið aftur til landsins um hálfu ári síðar, þ.e. í febrúar 2023, og yfirgefið landið jafn harðan, og verið í heimaríki allt þar til í september 2023, þegar kærandi og maki hans voru boðuð til viðtala hjá Útlendingastofnun. Samkvæmt gögnum málsins færðu kærandi og maki hans þær skýringar á fjarveru makans að fjarveran hafi verið nauðsynleg vegna aðstoðar hennar við móður sína, sem glími við [...]veikindi. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Útlendingastofnun hafi metið heilsufarsgögn tengdamóður kæranda á þá vegu að þau séu gild. Á hinn bóginn taldi stofnunin að ekki hefði verið sýnt fram á nauðsyn dvalar maka kæranda til svo langs tíma, auk þess sem að framburður um upphaf veikinda hafi verið í þónokkru ósamræmi við tímalínu málsins, þ.e. þegar maki kæranda yfirgaf landið í ágúst 2022.
Líkt og rakið var í málsatvikalýsingu sótti kærandi um dvalarskírteini 10. ágúst 2022 en Útlendingastofnun tók hina kærðu ákvörðun 9. nóvember 2024. Málið er verulegt að umfangi og fylgigögn þess á þriðja hundrað blaðsíðna. Rannsókn Útlendingastofnunar var ítarleg, og í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Beitti Útlendingastofnun m.a. úrræðum á grundvelli 4. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga, og fékk lögreglu til þess að framkvæma rannsókn á búsetu og heimilishögum kæranda og maka hans. Enn fremur er ljóst að ítrekað var lagt fyrir kæranda og maka hans að leggja fram ýmis gögn við meðferð málsins til stuðnings fullyrðingum þeirra. Um málamyndahjúskap, sbr. 1. mgr. 92. gr. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er einkum horft til tilgangs hjúskaparins, þ.e. að afla dvalarleyfis, og vegur þar þyngst að horfa til tilurðar hjúskaparins. Í málinu hefur það töluvert vægi að ekki hafi verið sýnt fram á, með neinum haldbærum gögnum, að kærandi og maki hans hafi átt í nokkurs konar sambúð eða ástarsambandi áður en þau stofnuðu til hjúskapar á Íslandi og þá hefur sambúð þeirra eftir hjúskap verið takmörkuð við stuttar ferðir maka kæranda hingað til lands. Framburður þeirra um slíka sambúð, og vináttu frá barnsaldri, er ótrúverðugur að þessu leyti. Þá lítur kærunefnd einnig til fyrri dvalar kæranda á Íslandi í um eitt ár, þ.e. með ólögmætum hætti umfram 90 daga dvöl, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, áður en kærandi og maki hans gengu í hjúskap. Með framangreindri háttsemi hafði kærandi þegar tekið ákvörðun um að búa hér á landi, án gildrar dvalarheimildar, og var tilgangur hjúskaparins að afla kæranda slíkrar heimildar. Þá bera gögn málsins ekki annað með sér en að maki kæranda dvelji ekki á Íslandi, nema í undantekningartilvikum.
Líkt og fram kemur í 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 8. mgr. 70. gr. sömu laga veitir hjúskapur, sem stofnað er til í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, ekki rétt til dvalarskírteinis vegna fjölskyldusameiningar. Að framangreindu virtu hefur kærandi ekki sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.
Með ákvörðun Útlendingastofnunar er ljóst að kærandi nýtur ekki réttar til dvalar eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Þá hefur kærandi jafnframt dvalið hér á landi lengur en honum er heimilt eftir ákvæðum sem gilda um dvöl á grundvelli áritunarfrelsis, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun kemur m.a. fram að Útlendingastofnun taldi nauðsynlegt að reifa ákvæði 98. og 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, sem hafði ekki verið gert í fyrri bréfaskrifum til kæranda. Þrátt fyrir framangreint hafi Útlendingastofnun ekki tekið ákvörðun um brottvísun kæranda í hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt framansögðu er ljóst að dvöl kæranda er ólögmæt og hefði stofnuninni með réttu átt að vísa honum brott og ákveða endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 19. ágúst 2024. Kæranda er því veittur 15 daga frestur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða honum endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.
Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Líkt og þegar hefur komið fram sótti kærandi um dvalarskírteini 10. ágúst 2022 og tók Útlendingastofnun ákvörðun sína 9. nóvember 2024. Umfang málsins er verulegt og var rannsókn Útlendingastofnunar ítarleg. Útlendingastofnun ber ábyrgð á hraða málavinnslu, og er málshraði stofnunarinnar, þrátt fyrir umfang málsins, aðfinnsluverður, sbr. m.a. 9. gr. stjórnsýslulaga og 3. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Brot gegn málshraðareglu leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að fallist skuli á umsókn kæranda en Útlendingastofnun er leiðbeint að hraða vinnslu sambærilegra mála.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson Valgerður María Sigurðardóttir